Sveitarstjórn

54. fundur 28. júní 2005 kl. 10:30

54.  fundur var  haldinn í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn 28. júní 2005 klukkan 10:30 í Árnesi.

Mættir voru Aðalsteinn Guðmundsson, Tryggvi Steinarsson, Matthildur E Vilhjálmsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Ólafur F Leifsson, Hranhildur Ágústsdóttir, Þrándur Ingvarsson, Jóhannes Eggertsson og Björgvin Þ Harðarson koma inn fyrir Hrafnhildi Ágústsdóttur og Þránd Ingvarsson, við umfjöllun um lið 2 þar sem þau teljast vanhæf vegna umfjöllunar um þennan lið. Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri og Þuríður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:  Sveitarstjóri kvað sér hljóðs í upphafi fundar og ræddi um ritun fundargerðar og dreifði minnisblaði til nefndarmanna um þetta mál.

 

1.      Úrskurður félagsmálaráðuneytis varðandi stjórnsýslukæru Katrínar Andrésdóttur og Jónasar Yngva Ásgrímssonar frá 16. mars s.l.
Almennar umræður urðu um úrskurðinn.

Sveitarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:  Sveitarstjóri fagnar því að félagsmálaráðuneytið skuli hafa hafnað öllum kæruatriðum stjórnsýslukærunnar, nema þeim sem lúta að hæfi hreppsnefndarmanna.    Úrskurður félagsmálaráðuneytis varðandi hæfi er áminning til hreppsnefndar sem dreginn verður lærdómur af ekki síst í ljósi þess að engum þeirra sem þátt tóku í afgreiðslu málsins þótti ástæða til að taka hæfi hreppsnefndarmanna til umfjöllunar.

2.     Tillaga skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 26. febrúar s.l. varðandi Þjórsárskóla svohljóðandi: ,, Skólanefnd leggur til í framhaldi af úttekt KHÍ að næsta skólaár 2005-2006 verði allt grunnskólahald Þjórsárskóla á einum stað. Við staðarval er ljóst að öll kennsluaðstaða er rýmri og betri í Gnúpverjaskóla, auk mjög góðrar aðstöðu  til sérgreinakennslu, eins og heimilisfræði , myndmennt og smíða. Þá er  núverandi tölvukostur og tölvulagnir með þeim hætti að geta mjög vel annað öllu skólastarfinu og vinnuaðstaða kennara góð. Í skólahúsnæðinu er talsvert óinnréttað húsnæði sem má fullklára án mikils kostnaðar. Það er mat skólanefndar að með tilliti til hagsmuna nemenda og starfsfólks hafi þessi atriði úrslitakosti við staðarval og er það því tillaga nefndarinnar að Gnúpverjaskóli verði fyrir valinu.”

Þrándur tók til máls og lýsti sig vanhæfann og lét gera eftirfarandi bókun áður en hann vék af fundi:

Verði niðurstaða Hreppsnefndar sú að fresta breytingu á skólahaldi um eitt ár, þá skora ég á íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps að leggja af þær skærur sem ríkt hafa um málið.  Rekstur sveitarfélagsins er erfiður og breytingar á skólahaldi þola ekki frekari frestun.  Tekið verði upp áframhaldandi samráð  við íbúa um málið.

Hrafnhildur tók einnig til máls og lýsti sig vanhæfa og lét gera eftirfarandi bókun áður en hún vék af fundi:

Ég harma hvernig komið er fyrir skólamálum í okkar ágætu sveit Skeiða- og Gnúpverjarheppi.  Ég vann að þessum málum af heilindum og leit ekki á mig sem vanhæfa sem réttkjörinn sveitarstjórnarmann. Ég vil gera grein fyrir minni afstöðu sem ég tók 8. mars s.l. um flutning á skólanum á einn stað.  Ég vil að það sé ljóst að mín afstaða byggðist ekki af persónulegum aðstæðum heldur hafði ég að leiðarljósi hagsmuni skólans og sveitarfélagsins og aðstöðu fyrir börnin og starfsfólkið, ég tel að skólahúsnæðið í Gnúpverjaskóla geti þjónað skólahaldinu betur.  Sem sveitarstjórnarmaður ber mér að hugsa um hagsmuni sveitarinnar fremur en mínar persónulegu hagsmuna.  Mér var það strax ljóst ef skólahald flyst á einn stað þá hefði ræstitæknir Brautarholtsskóla forgang að starfinu vegna lengri starfsreynslu, sem áréttað var til mín bréflega frá skólastjóra á vordögum.

Það er mín heitasta ósk að sú afstaða sem tekin verður hér í dag verði til þess að sættir takist og menn snúi bökum saman og fari að vinna að sátt og heilindum til hagsbóta fyrir sveitarfélagið allt.

    Oddviti kynnti svo hljóðandi tillögu að afgreiðslu sem undirrituð var af öllum hreppsnefndarmönnum: 

Hreppsnefnd samþykkir tillögu skólanefndar að öðru leiti en því að breytingin kemur ekki til framkvæmda fyrr en skólaárið 2006-2007.  Unnið verði að því að móta skíra tillögu um öll fræðslu- og uppeldismál í Skeiða- og Gnúpverjahreppi með það að markmiði að reyna að ná fram hámarks gæðum með lágmarks kostnaði.  Næsta skólaár þ.e. 2005-2006 verði notað til að móta þessa tillögu ásamt því að finna verkefni fyrir þau hús sem ekki verður þörf fyrir vegna fræðslu- og uppeldismála eða selja þau.

Jóhannes Eggertsson og Ólafur F Leifsson drógu tillögu sína um sama mál  frá 7. júní s.l. til baka.

      3.  Önnur mál       

      Sveitarstjóri tilkynnti lokun á hreppsskrifstofu frá 18. júlí til 2. ágúst.

      Fundi slitið kl. 11.45