Sveitarstjórn

52. fundur 03. maí 2005 kl. 10:30

2.fundur var  haldinn í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn 3. maí 2005 kl. 10:30 í Árnesi.

Mættir voru Aðalsteinn Guðmundsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Matthildur E Vilhjálmsdóttir, Tryggvi Steinarsson, Þrándur Ingvarsson, Gunnar Örn Marteinsson, Ólafur Fr. Leifsson, Ingunn Guðmundsdóttir og Þuríður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

 

Áður en fundur hófst mættu Jónas Yngvi Ásgrímsson og Guðmundur Sigurðsson með undirskriftalista með eftirfarandi yfirskrift:  Við undirritaðir íbúar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi krefjumst þess að hreppsnefnd fresti ákvörðun um sameiningu skólahalds á einn stað fram yfir næstu sveitarstjórnarkosningar.  Oddviti veitti undirskriftarlistanum viðtöku.

 

Dagskrá:

1.      Ársreikningur Skeiða- og  Gnúpverjahrepps. Oddviti lagði til að breyting yrði gerð á auglýstri dagskrá, með því að  færa umfjöllun ársreiknings fram í lið 1 og var það samþykkt án athugasemda.Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi kom á fundinn og kynnti og fór yfir ársreikninginn. Ingunn fjallaði um ársreikninginn og ræddi um að hagræða þyrfti í rekstri sveitarfélagsins. Þrándur tók til máls og fjallaði um að spara þyrfti í rekstri sveitarfélagsins. Gunnar tók einnig til máls og var sammála Ingunni og Þrándi um að taka þarf til í rekstri sveitarféagsins.

Samþykkt var að vísa ársreikningi til síðari umræðu.

2.      Fundargerðir til staðfestingar

30. fundur hreppsráðs frá 26. apríl. Umræður og athugasemdir.  Oddviti lagði til að oddviti og sveitarstjóri yrðu fulltrúar hreppsins vegna undirbúnings sameiningu sveitarfélaga. Samþykkt  með 4 atkvæðum meirihluta  minnihlutinn sat hjá. Fjallað var um lið 6. Leigusamningur v. Hólaskógs. Til máls tóku Ingunn,Hrafnhildur, Aðalsteinn, Þrándur og ræddu menn hvort leigja ætti húsið áfram eða selja það.Samþykkt var að fela sveitarstjóra að auglýsa húsið til sölu eða leigu. Fundargerð hreppsráðs staðfest með framkomnum athugasemdum. 
Samráðsnefnd um sameiningu leikskólanna frá 27. apríl. Tryggvi tók til máls um samráðsnefnd leikskóla.Hann taldi nauðsynlegt að ljúka máli á júní fundi. Matthildur tók til máls og taldi ekki hægt að sameina á einn stað fyrr en 2006.Þrándur tók einnig til máls og taldi að fara ætti í þetta mál strax. Fundargerðin staðfest. 
Skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 26. apríl. Tryggvi tók til máls og útskýrði lið 3 þe. Starfsmannamál. Matthildur fjallaði um lið 1 í fundargerðinni og taldi sig ekki getað staðfest þennan lið. Gunnar tók til máls og ræddi um inntökureglur í leikskóla og einnig spurðist hann fyrir um það hvort sparnaður yrði í starfsmannahaldi við það að reka skólann á einum stað. Ingunn taldi að svo yrði. Ólafur gerði fyrirvara á að staðfesta lið 1 í fundargerðinni. Fundargerðir skólanefndar staðfestar með framkomnum athugasemdum. 
Skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu frá 22. apríl. Fundargerðin staðfest. 
3.      Fundargerðir til kynningar

a.       Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands frá 13. apríl

          Fundargerðin lögð fram.

4.      Erindi frá samgöngunefnd Alþingis dags. 18. apríl þar sem kynnt er tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2005-2008 og óskað umsagnar fyrir 26. apríl.  Hjálagt er einnig svar sem oddvitar uppsveita fólu sveitarstjóra Bláskógabyggðar að senda og byggist á áliti sem áður hefur verið sent um sama mál.

Erindið lagt fram og sveitarstjóra falið að koma á framfæri mótmælum vegna stutts fyrirvara á að veita umsögn.

5.      Umsókn um lóð fyrir sumarhús við Kálfá 5 frá Huldu Guðmundsdóttur. Samþykkt

6.      Erindi frá Jóni Bjarnasyni alþingismanni dags. 20. apríl þar sem hann kynnir þingsályktunartillögu um átak í uppbyggingu og endurbótum á safn- og tengivegum. Tillöguna má sjá á vefnum           althingi.is númer þingskjals er 1013.

Tillagan lögð fram til kynningar.

7.      Erindi frá Sorpstöð Suðurlands þar sem boðað er til aðalfundar 10. maí.  Meðfylgjandi er ársreikningur.

         Erindið lagt fram. Þrándur ræddi um fyrirkomulag á plastförgun og taldi rétt að taka málið upp á aðalfundinum. Samþykkt var að sveitarstjóri sæki aðalfund Sorpstöðvarinnar.

8.      Erindi frá Félagi tónlistarskólakennara dags. 10. apríl ásamt ályktun um málefni tónlistarskóla. Erindið lagt fram.

9.      Erindi frá Félagi leikskólakennara dags. 5. apríl með kynningu á ályktunum aðalfundar. Erindið lagt fram.

10.  Dreifibréf til eigenda og/eða umráðahafa lögbýla og stærri landsvæða í nágrenni Heklu frá Landgræðslunni dags. 25. apríl varðandi Hekluskóga. Boðað er til fundar um málið í Gunnarsholti 3. maí. Lagt fram.

11.  Aðalskipulag

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: ,,Hreppsnefnd samþykkir að fresta endanlegri afgreiðslu Aðalskipulags þar til Samvinnunefnd miðhálendis hefur afgreitt breytingu í Svæðisskipulagi miðhálendis. Hreppsnefnd fer fram á  við Skipulagsstofnun að lagabundnir frestir verði framlengdir sem því nemur.”

Tillagan samþykkt samhljóða.

Oddviti lagði eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta hreppsnefndar fskj 1.

Undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafna Norðlingaölduveitu.

Víðtæk umfjöllun hefur farið fram um tillögu að Aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp.  Allan tímann hafa verið miklar efasemdir meðal meirihluta hreppsnefndarmanna, íbúa og annara landsmanna um ágæti þess að samþykkja gerð Norðlingaölduveitu á Gnúpverjaafrétti. Við lokaafgreiðslu aðalskipulagstillögunnar hvílir mikil ábyrgð á herðum hreppsnefndarmanna ekki síst hvað varðar Norðlingaölduveitu sem er stórtækt inngrip í annars ósnortið landsvæði innan marka hreppsins.

Ekki hefur tekist að sýna framá að íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafi neina hagsmuni af framkvæmd Norðlingaölduveitu hvað varðar atvinnuuppbyggingu til lengri eða skemmri tíma.  Þvert á móti álíta undirritaðir hreppsnefndarmenn að bygging Norðlingaölduveitu skaði hagsmuni ferðaþjónustunnar sem er eina vaxandi atvinnugreinin í hreppnum. Með því að samþykkja Norðlingaölduveitu í Aðalskipulagi væri hreppsnefnd að ganga þvert á fyrsta markmið skipulagslaga sem segir:  ,,að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.” 

Ekki hefur verið sýnt framá þjóðhagslega nauðsyn þess að Norðlingaölduveita verði að veruleika.  Raforkuframleiðsla á Íslandi er nú á fleiri höndum en áður eins og sannast á því að aðilar aðrir en Landsvirkjun hafa svarað eftirspurn og gert samninga um raforku til stóriðju. Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur innan sinna marka tvær virkjanir. Því til viðbótar liggur fyrir að samþykktar verða tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár.  Þar með telja undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps að stuðningur við raforkuframleiðslu í landinu hafi verið með fullum sóma frá hendi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þó að nú verði látið staðar numið.   

Aðalsteinn Guðmundsson

Matthildur E. Vilhjálmsdóttir

Hrafnhildur Ágústsdóttir

Tryggvi Steinarsson

 

Þrándur lagði fram eftirfarndi bókun:  Förum þess á leit  að hreppsnefnd  standi við samkomulag sem gert var við Landsvirkjun og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á hreppsnefndarfundi 1. júní 2004.  Svohljóðandi:”  Erindi frá Landsvirkjun varðandi aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2003-2015 Norðlingaöldulón.  Í erindinu fer Landsvirkjun framá að yfirfallshæð stíflu við Norðlingaöldulón verði 567.8 m y.s.  Að vetrarlagi yrði lónið rekið í um 567,5 m y.s. til þess að komast hjá alvarlegum vandamálum vegna ísmyndunar. Oddviti lagði til að hreppsnefnd samþykkti að gera ráð fyrir þeirri tilhögun í aðalskipulagi. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða”.

Þrándur Ingvarsson

Gunnar Örn Marteinsson

Ólafur Fr. Leifsson.

 

12.  Húsnæðismál áhaldahúss sbr.framlagt minnisblað sveitarstjóra. Sveitarstjóra falið að vinna áfram að þessu máli.

13.  Sameining brunavarna. Lögð voru fram gögn frá KPMG varðandi eignir Brunavarna Gnúpverja og Hrunamanna. Sveitarstjóri skýrði frá fundi með Brunavörnum Árnesinga og slökkviliðsmönnum Gnúpverja.

14.  Erindi frá Hagleiksmönnum ehf dags. 27. apríl með tilboði um lausa kennslustofu til leigu. Tekið fyrir tilboð frá Hagleiksmönnum um sölu eða leigu á kennslustofuhúsi. Tryggvi tók til máls og taldi að það ætti að hafna þessu tilboði. Ólafur og Matthildur fögnuðu þessu tilboði. Gunnar þakkaði þetta tilboð en telur að það þurfi að fá tilboð frá fleiri aðilum ef þetta á að nýtast sem viðmiðunargagn.

15.  Önnur mál.

Bréf frá leigutökum á Brautarholti 2 vegna endurnýjunar á leigusamningi fram í okt-des 2005..Ákvörðun frestað vegna athugana sem eru í gangi vegna skólamála. 
Ólafur spurðist fyrir um það hvernig hreppsnefnd ætlaði að afgreiða undirskriftalistann sem lagður var fram áður en fundur hófst. Hrafnildur harmar það  að ekki var farið í alla sveitina til að safna undirskriftum. 
Oddviti lagði fram fundargerð oddvitaráðsnefndar frá 17. mars 2005. 
Fundargerðin lögð fram.

 

 

Fundi slitið kl.14.25