Sveitarstjórn

14. fundur 04. febrúar 2003 kl. 10:30

14. fundur var haldinn í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn         4. febrúar kl. 10:30 í Árnesi.

Fundinn sátu: Már Haraldsson oddviti, Aðalsteinn Guðmundsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Þrándur Ingvarsson, Ólafur F. Leifsson og Matthildur Vilhjálmsdóttir, einnig Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.  

Dagskrá:

1.    Fundargerð hreppsráðs frá 29. janúar til staðfestingar. 
Umræður og afgreiðsla.  Varðandi lið 10 nýtt hverfi í Brautarholti, sveitarstjóri kynnti upplýsingar frá Verkfræðistofu Suðurlands varðandi jarðvegsathuganir og kostnaðaráætlun frá Línuhönnun varðandi könnun á jarðveginum.  Samþykkt að fela Línuhönnun að gera umrædda athugun.

Liður 11a leigusamningur um snjóplóg við Nesey ehf, samþykkt að fela sveitarstjóra að undirrita samninginn.

Liður 11d framkvæmdir við skólaloft Gnúpverjaskóla.  Sveitarstjóri kynnti samantekt á kostnaði, samþykkt að ljúka framkvæmdinni á grundvelli hennar og vísa kostnaðarliðum til fjárhagsáætlunar 2003.

Liður 11e ástandsúttekt á fasteignum sveitarfélagsins.  Samþykkt að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við Verkfræðistofu Guðjóns Sigfússonar.

Gunnar Örn spurði um lið 11b erindi Ábótans varðandi sendibúnað fyrir internet.  Oddviti greindi frá samþykkt oddvitafundar uppsveita varðandi skipan sameiginlegrar nefndar um að skoða verkefnið ,,Rafrænt samfélag”.

Fundargerðin staðfest með framkomnum athugasemdum.

Fundargerðir til kynningar
a)      Stjórnar SASS frá 20. janúar 2003

b)      Stjórnar atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands frá 10. janúar 2003

c)      Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. janúar 2003

d)      Stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands frá 21. janúar 2003

Fundargerðirnar lagðar fram.

Önnur mál
a)      Oddviti hóf umræðu um úrskurð setts umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu og  kynnti gögn og upplýsingar sem honum höfðu borist vegna málsins.    Hann lagði fram tillögu að ályktun svohljóðandi: ,,Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar þeirri stefnumörkun setts umhverfisráðherra í úrskurði um Norðlingaölduveitu að virða mörk friðlands Þjórsárvera og færa lón og mannvirki út fyrir þau.  Að öðru leyti telur hreppsnefnd að í nýrri tillögu að Norðlingaölduveitu sé ósvarað ýmsum spurningum, s.s. um rennsli Þjórsár neðan Norðlingaöldu, útfærslu set- og veitulóns við Þjórsárjökul, hagkvæmni framkvæmdarinnar í heild og hvernig hún samræmist áformum stjórnvalda s.s. rammaáætlun og náttúruverndaráætlun. Með hliðsjón af framantöldu er ekki unnt að taka afstöðu til tillögunnar fyrr en hún hefur verið útfærð nánar. Oddvita og sveitarstjóra er falið að fylgjast með framvindu mála.”

Þrándur lagði fram breytingartillögu svohljóðandi:  ,,Hreppsnefnd fagnar því að kominn er endanlegur úrskurður varðandi Norðlingaölduveitu og er tilbúin til viðræðna varðandi úrskurðinn og gerð aðalskipulags.”

Oddviti bar upp breytingartillöguna sem var felld með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta.  Þá var tillaga oddvita samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta, þrír fulltrúar minnihluta voru á móti.

b)      Sveitarstjóri gerði grein fyrir vinnu við fjárhagsáætlun 2003.  Gert er ráð fyrir fyrri umræðu hreppsnefndar um áætlunina þann 18. febrúar og síðari umræðu þann 27. febrúar.  Stefnt er að almennum fundi um málefni hreppsins milli umræðna.

c)      Umræður urðu um sorphirðu og sorpeyðingu og kostnað því samfara.  Samþykkt að fela sveitarstjóra að kanna möguleika á sparnaði við sorphreinsun.

d)      Afsláttur af fasteignagjöldum aldraðra.

Samþykkt á grundvelli heimildar í 5.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga að veita 67 ára og eldri 50% afslátt af fasteignaskatti þess íbúðarhúsnæðis sem þeir búa í og ekki er nýtt af öðrum.  Ennfremur er samþykkt að fella niður fasteignaskatt af útihúsum í eigu aldraðra sem standa ónotuð.

e)      Sveitarstjóri kynnti fundahöld í uppsveitum Árnessýslu vegna Evrópuverkefnisins Saga lands.  Samþykkt að taka á móti fundarfólki í Árnesi.

f)        Sveitarstjóra falið að auglýsa eftir flokksstjóra fyrir vinnuskóla sumarsins.

g)      Fram var lagt afsal jarðarinnar Vorsabæjar 1 á Skeiðum til Vorsabæjar ehf .  Hreppsnefnd gerir ekki athugasemdir við eigendaskiptin.

h)      Sveitarstjóri kynnti gerð vefsíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps skeidgnup.is.

i)        Sveitarstjóri kynnti stöðu mála varðandi kaup á landi fyrir kirkjugarð.

 

Fundi slitið kl.  14:00