Sveitarstjórn

7. fundur 16. september 2002 kl. 10:30
7. fundur hreppsnefndar Skeiða- og Gúpverjahrepps var haldinn mánudaginn 16. september 2002 klukkan 10:30 í Árnesi.  Mættir voru hreppsnefndarmennirnir Már Haraldsson oddviti, Aðalsteinn Guðmundsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Þrándur Ingvarsson, Ólafur Leifsson og Matthildur Vilhjálmsdóttir, einnig Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

    Dagskrá:

 
  1. Álitsgerð Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns og Odds Hermannssonar landslagsarkitekts dagsett 12. september 2002, vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls.  

Umræður urðu allnokkrar um það hvort kæra skyldi úrskurðinn eða ekki. 

Már  Haraldsson lagði fram tillögu svohljóðandi:  “Lagt er til að úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu verði kærður til umhverfisráðherra á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum og samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga sbr. álit Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns og Odds Hermannssonar landslagsarkitekts.  Þau atriði í úrskurðinum sem fyrst og fremst skal byggja kæru á eru:

1)      Mótvægisaðgerðir sem ná langt út fyrir skilgreind áhrifasvæði eru settar sem skilyrði fyrir framkvæmdum en hafa ekki verið metnar og kynntar í matsskýrslu, né þeim gerð skil í matsáætlun.

 

2)      Niðurstaða mats í 5. kafla úrskurðarins er í veigamiklum atriðum sú að umhverfisáhrifin séu umtalsverð en samt sem áður er fallist á framkvæmdina.

 

3)      Reglu um varúðar og verndarsjónarmið er ekki fylgt í úrskurðinum.

 

4)      Umfjöllun um lón í 578m y.s. er til muna minni og ónákvæmari en um 575m y.s. lónhæð, enda er sú hæð sett fram af framkvæmdaraðila eingöngu til viðmiðunar en ekki sem raunhæfur valkostur.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að minni þörf sé fyrir mótvægisaðgerðir við þá lónhæð.

 

Því verði gerð krafa um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og framkvæmdinni hafnað, en til vara að málinu verði aftur vísað til skipulagsstofnunar.

 

Tillagan var borin upp og samþykkt með fjórum atkvæðum, fulltrúar A lista voru á móti.

 

Þrándur Ingvarsson lagði fram eftirfarandi bókun í nafni A lista:  “Vegna hugsanlegra kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna Norðlinaölduveitu vilja Framfarasinnar koma eftirfarandi á framfæri:  Á fundi hreppsnefndar 3. september s.l.  voru mættir lögmaður og landslagsarkitekt til að vinna að málinu, án þess að til væri samþykkt hreppsnefndar til undirbúningsvinnu þeirra.  Ljóst er að málarekstur verður sveitarfélaginu dýr og teljum við þeim fjármunum betur varið til annara nota.  Við teljum kæru aðeins verða til þess að seinka framkvæmdum og verði til þess að skaða hagsmuni sveitarfélagsins.”

 

Már Haraldsson mótmælti því að ferill málsins væri athugunarverður og vísaði til fundargerðar hreppsnefndar frá 22. ágúst, hann taldi að kæra myndi kosta sveitarfélagið 300 til 500 þúsund krónur.

2.        Málshöfðunarfrestur vegna úrskurðar óbyggðanefndar í þjóðlendumáli. 

Samþykkt að fela oddvita og sveitarstjóra að undirbúa málshöfðun vegna úrskurðar óbyggðanefndar varðandi málskostnað.  Haft verði samráð við oddvita uppsveita varðandi frekari málshöfðun, með fordæmisgefandi atriði í huga.  Leitað verði eftir því að fá gjafsókn varðandi kærur þessar enda fordæmisgefandi fyrir þjóðlendumál í heild sinni.

3.        Nýtt byggingarsvæði í Brautarholti, umræður og e.t.v. ákvarðanir um næstu skref.

Samþykkt að fela sveitarstjóra að leita tilboða í verkfræðilega hönnun á hverfinu.  Stefnt skal að því að lóðir verði byggingarhæfar vorið 2003.

4.        Verðtilboð frá Á.Guðmundssyni ehf í húsgögn á skrifstofu.

Samþykkt að fela sveitarstjóra að ganga frá kaupum á grundvelli tilboðsins.

5.        Erindi frá Sigríði B. Gylfadóttur dagsett 11. september 2002.

Samþykkt að taka jákvætt í erindið og fela sveitarstjóra að vinna nánari útfærslu í samráði við bréfritara og leggja fyrir hreppsráð.

6.       Önnur mál.

a)   Sveitarstjóri lagði fram prókúruumboð til handa Þuríði Jónsdóttur fulltrúa á skrifstofu.

Samþykkt.

b)      Már Haraldsson lagði til að Gunnar Örn Marteinsson yrði foringi í eftirsafni á Gnúpverjaafrétt.

Samþykkt.

      c)  Matthildur vakti máls á umhverfi Brautarholtsskóla sem þarfnast lagfæringa.

 

Fundi slitið kl. 13:13