Sveitarstjórn

23. fundur 14. júní 2023 kl. 17:00 - 18:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Gerður Stefánsdóttir - í Fjarveru Karenar Óskarsdóttur
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

 

23. sveitarstjórnarfundur

 

Mætt til fundar:

Haraldur Þór Jónsson oddviti, Bjarni Hlynur Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson, Vilborg Ástráðsdóttir og Gerður Stefánsdóttir í fjarveru Karenar Óskarsdóttur.

Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Oddviti tók sérstaklega fram að öll umræða fari fram í ræðupúlti og að fundurinn sé tekinn upp. Upptakan verði birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Gerður Stefánsdóttir óskaði eftir því að bæta máli á dagskrá fundarins um að fresta afgreiðslu framkvæmdaleyfis, að fordæmi Rangárþings Ytra og að málið verði sent til Loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Staðan hjá okkur er sú að málið hefur enn ekki komið á borð Loftslags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins. Samkvæmt 2 mgr. 14. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 skulu náttúrverndarnefndir vera sveitastjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúrvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitastjórna og Umhverfisstofnunar. Óeðlilegt er að málefni sem hefur svo mikil áhrif á umhverfi og landslag sveitarinnar fái ekki afgreiðslu í þeirri nefnd. Legg ég til að þessi viðbótarliður bætist við á dagskrá fundar í dag áður en framkvæmdaleyfi verður tekið til umfjöllunar.

Var beiðni Gerðar Stefánsdóttur um að málið væri tekið samþykkt af sveitarstjórn með 5 atkvæðum og verður málið 1. liður á dagskrá fundar, færast aðrir dagskrárliðir neðar sem því nemur.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

  1. Beiðni um frestun á afgreiðslu framkvæmdaleyfis Hvammsvirkjunar

Óskað er eftir því afgreiðsla framkvæmdaleyfis til Hvammsvirkjunar verði frestað og málinu vísað til Loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Til máls taka Haraldur Þór Jónsson, Bjarni Hlynur Ásbjörnsson, Gerður Stefánsdóttir og Gunnar Örn Marteinsson.

Málið lagt til atkvæðagreiðslu.

Tillögu um að fresta afgreiðslu framkvæmdaleyfis Hvammsvirkjunar og vísa henni til Loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps er hafnað af sveitarstjórn með 4 atkvæðum.

Gerður Stefánsdóttir greiðir atkvæði með tillögunni.

 

 

  1. Beiðni um framkvæmdaleyfi til byggingar Hvammsvirkjunar

Lögð er fram umsókn Landsvirkjunar, dags. 14.12.2022, ásamt fylgiskjölum, vegna framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Um er að ræða gerð virkjunar í neðanverðri Þjórsá norður að Skarðsfjalli, skilgreind á aðalskipulagi innan svæðis I15 - Hvammsvirkjun. Í framkvæmdinni felst uppbygging á virkjun Þjórsár norður af Skarðsfjalli undir heitinu Hvammsvirkjun. Inntakslón hennar, Hagalón, verður í farvegi Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Lónið verður í um 116 m y.s. og um 4 km2 að stærð og rúmmál lónsins verður um 13,2 milljón m3. Stöðvarhús verður að mestu leyti neðanjarðar við norðurenda Skarðsfjalls, í landi Hvamms 1 í Landsveit. Framkvæmdarsvæði Hvammsvirkjunar er í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Með umsókninni er lögð fram tillaga að greinargerð um framkvæmdina, sem unnin er með vísan til 3. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda- og áætlana nr. 111/2021 þar sem tiltekið er að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem m.a. skal gera rökstudda grein fyrir samræmi framkvæmdarinnar við skipulagsáætlanir og við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar.

Til máls taka Haraldur Þór Jónsson, Gerður Stefánsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson og Bjarni Hlynur Ásbjörnsson.

Gunnar Örn Marteinsson, Gerður Stefánsdóttir, Bjarni Hlynur Ásbjörnsson og Haraldur Þór Jónsson gera að lokum grein fyrir atkvæðagreiðslu sinni.

Málið lagt til atkvæðagreiðslu.

Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur framkvæmdina í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð og álit Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 4 atkvæðum framlagða umsókn um framkvæmdaleyfi á grundvelli heimilda aðalskipulags, gildandi deiliskipulags, umhverfismats framkvæmdarinnar og með vísan til framlagðrar greinargerðar sem unnin er í sameiningu fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Rangárþing Ytra. Meirihluti sveitarstjórnar samþykkir greinargerðina sem umsögn sína um umsóknina. Framkvæmdaleyfið verði gefið út með þeim skilyrðum sem fram koma í skipulagi, úrskurði og áliti Skipulagsstofnunar og annarra stofnanna og leyfisveitenda og gerð er nánar grein fyrir í framlagðri greinargerð, varðandi mótvægisaðgerðir, vöktun, frágang vegna framkvæmdarinnar o.fl. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipuð verði eftirlitsnefnd í samráði við framkvæmdaaðila og aðra leyfisveitendur. Eftirlitsnefndin mun hafa eftirlit með því að öllum skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Eftirlitsnefndin hefur, ásamt skipulagsfulltrúa, eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við skipulag, leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum skv. 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Nefndin mun skila af sér skýrslu um framkvæmd eftirlitsins við lok hvers áfanga framkvæmdarinnar. Sé settum skilyrðum ekki framfylgt, ásigkomulag, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar eða eigin eftirlit framkvæmdaaðila ábótavant eða stafi af henni hætta skal eftirlitsnefndin gera sveitarstjórnum grein fyrir frávikum og tilkynna framkvæmaaðila skriflega um frávik og kröfur til úrbóta.

 

Gerður Stefánsdóttir greiðir atkvæði gegn veitingu framkvæmdaleyfis Hvammsvirkjunar og lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég er ósammála meirihlutanum um afgreiðslu og rökstuðning. Mín niðurstaða er að hafna leyfisbeiðni. Ég hafna einnig þeirri aðferð og þeirri röksemdafærslu sem fram er lögð af meirihluta sveitarstjórnar í málinu. Ég hafna því algerlega að áratugagamalt umhverfismat Núpsvirkjunar geti legið til grundvallar leyfisveitingu Hvammsvirkjunar, með alla þá vitneskju sem undanfarnir ártugir hafa fært okkur. Löggjöf, viðhorf og aðstæður hafa breyst gagnvart umhverfinu. Engin sjálfstæð rannsóknarvinna fór fram á vegum meirihlutans heldur kom flest allt beint frá Landsvirkjun, bæði drög og ráðgjöf. Landsvirkjun stendur ekki aðeins undir þriðjungi sveitarsjóðs, heldur er samkomulag frá 2008 dregið fram fyrr í mánuðinum og Landsvirkjun ætlar nú að gera upp gamlar skuldir samkvæmt því.

Þar sem meirihluti sveitarstjórnar hefur þegar tekið ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli umsóknar Landsvirkjunar, er ekki ástæða fyrir mig til að fjölyrða frekar um meginástæður þess að ég kýs að hafna framkvæmdaleyfi

Að auki leggur Gerður Stefánsdóttir fram sérálit og rökstuðning fyrir ákvörðun sinni.

 

Fundi slitið kl. 18.05. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 21. júní, kl. 9.00, í Árnesi.

 

Myndbandsupptöku af fundinum má finna hér