Sveitarstjórn

29. fundur 04. október 2023 kl. 09:00 - 12:40 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Axel Á. Njarðvík
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202309-0009

Fundargerð:

29. sveitarstjórnarfundur

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

  1. Skýrsla sveitarstjóra á 29. sveitarstjórnarfundi

Auka aðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga.

Fundur með Skipulagsstofnun vegna Búrfellslundar.

Morgunfundur KPMG um Vindorku.

Heimsókn til Pure North í Grósku.

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna.

Fyrirhugaður íbúafundur um dæluvirkjun í Vörðufelli.

Fundir fjárhagsnefndar SASS.

Stjórnunar- og verndaráætlun Þjórsárdalsins.

Vikulegir verkefnafundir á skrifstofu.

Heimsókn byggðaþróunarfulltrúa og ferðamálafulltrúa.

Orkídea heimsókn.

Atvinnuviðtöl.

Húmfaxi verkefnafundur.

Fundur með Reykhólahreppi um vindorkuuppbyggingu.

Kynning fyrir stjórn Sambands Íslenskra Sveitarfélaga.

Fundur með Samorku.

Fundað vegna liðveislu í Skaftholti.

Fundur með verkfræðistofu Eflu vegna skilgreiningar á nærumhverfi orkuframleiðslu.

Þjóðveldisbærinn – heimsókn.

Fjallaböðin - framkvæmdir hefjast.

 

2. Lóðamál - úthlutanir og innkallanir á lóðum sveitarfélagsins

Búið er að úthluta töluverðum fjöldi lóða í sveitarfélaginu sem ekki hafa hafist framkvæmdir á. Í sumum tilfellum hefur lóðaleigusamningur verið gerður þrátt fyrir að ekki séu hafnar framkvæmdir. Mikilvægt er að tryggja aðgengi að lóðum í sveitarfélaginu til þeirra sem vilja hefja framkvæmdir og að farið sé eftir skilgreindum fresti til að hefja framkvæmdir á úthlutuðum lóðum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps leggur áherslu á að komið verði upp sér svæði á heimasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem framboð lóða sé aðgengilegt. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og fjármálastjóra uppfæra reglur um úthlutun og að leggja gatnagerðargjöld á þær eignir sem búið er að úthluta en ekki er búið að leggja gatnagerðargjöld á. Sveitarstjóra er jafnframt falið að eiga samtal við þá lóðarhafa sem ekki hafa hafið framkvæmdir á innan tilskilins frests í samræmi við lóðarleigusamninga.

 

3. Samþykkt um gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps- síðari umræða

​Lagt fram til síðari umræðu breyting á samþykkt um gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fyrri umræða fór fram hinn 5. apríl sl.

Lagt er upp með að hundraðshluti af verðgrunni gatnagerðargjalds verði:

Notkun/húsgerð

Einbýlishús 8%

Par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús 8%

Fjölbýlishús 6%

Verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhús 2%

Iðnaðar-, geymslu- og annað atvinnuhúsnæði 2%

Aðrar byggingar 2%

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum breytta gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

4. Hitaveita Brautarholts

Búið er að bora nýja 123 metra djúpa hitaveituholu við hlið núverandi dæluhúss. Hitinn í holunni mælist 72,5 gráður og nægt vatnsmagn til framtíðar. Á þeim tíma sem unnið var að borun þurfti ítrekað að taka af heita vatnið sem orsakaði mikið þjónusturof og truflanir fyrir notendur hitaveitu Brautarholts. Lagt til að ekki verði send rukkun fyrir 1 mánuð til allra notenda til að koma til móts við þá þjónustuskerðingu sem var á framkvæmdatímanum. Frágangur er eftir við að byggja yfir nýju holuna ásamt því að tengja hana og færa núverandi dælur yfir í nýju holuna. Einnig er stefnt að því að setja upp stafræna mæla hjá öllum notendum ásamt því að fara í múrviðgerðir á dæluhúsinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að nóvember mánuður verði gjaldfrjáls mánuður hjá notendum hitaveitu Brautaholts. Sveitarstjóra falið að leggja fram kostnaðaráætlun fyrir múrviðgerðir á dæluhúsi ásamt endurnýjun mæla hjá öllum notendum.

 

5. Orkídea og grænir iðngarðar í Árnesi

​​Sveinn Aðalsteinsson og Magnús Yngvi Jósefsson frá Orkídeu koma inn á fundinn til að kynna starfssemi Orkídeu, hvað felst í grænum iðngörðum og ræða möguleika á samvinnu í uppbyggingu grænna iðngarða í Árnesi. Á svæðinu fer fram mesta raforkuframleiðsla landsins, gríðarlega mikið ónýtt landbúnaðarland er til staðar með fjölmörgum tækifærum, ásamt heitu vatni og grunninnviðum sem þurfa til að byggja upp öflugt nýsköpunarsamfélag nýtir auðlindir nærumhverfisins á ábyrgan hátt.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar Sveini og Magnúsi fyrir áhugaverða kynningu og gott samtal.

 

6. Vetrarþjónusta á stofnvegi nr. 31 og 32

​Í Uppsveitum Árnessýslu eru íbúar á fjórða þúsund. Á svæðinu eru á fimmta þúsund frístundahúsa og margir af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins eru í Uppsveitunum. Umferð á svæðinu er því margfalt meiri en íbúafjöldi segir til um. Til þess að samfélagið geti gengið sinn vanagang allt árið um kring er grunnforsendan að stofnvegir á svæðinu séu í 7 daga vetrarþjónustu. Stofnvegur nr. 31 sem liggur frá Skeiðavegi (stofnvegur nr. 30), í gegnum Laugarás og yfir að Biskupstungnabraut (stofnvegur nr. 35) og Þjórsárdalsvegur (stofnvegur nr. 32) eru aðeins í 5 daga vetrarþjónustu þrátt fyrir að vera mikilvægar vegtengingar og samgönguleiðir innan Uppsveitanna. Framangreindar leiðir skapa forsendur fyrir því að fólk geti búið og starfað innan Uppsveitanna, þvert á sveitarfélagamörk.

Nær öll börn sveitarfélagsins eru keyrð með skólabílum á degi hverjum í gegnum Þjórsárdalsveg (stofnveg 32). Eins og vitað er liggur stofnvegur 31 í gegnum Laugarás þar sem heilsugæsla uppsveitanna er. Eðli málsins samkvæmt sækir heilsugæsluna fólk sem er veikt eða í viðkvæmri stöðu og svo starfsfólk heilsugæslunnar. Það er því með öllu ótækt að þessir íbúar okkar þurfi einnig að takast á við krefjandi, hættuleg eða ófær akstursskilyrði þegar veður er með þeim hætti. Þessu mætti líkja við að enginn rampur væri við útidyr heilsugæslunnar.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum kemur skýrt fram að stuðla eigi að búsetufrelsi um land allt og að opinber störf verði auglýst sem störf án staðsetningar, sé slíkt mögulegt. Nokkuð ljóst er að forsenda fyrir búsetufrelsi mun ávallt verða bundið við öruggar samgöngur allt árið um kring. Í Uppsveitunum er fjöldi fólks sem reiðir sig á að geta komist til vinnu og sótt aðra þjónustu um stofnveg nr. 31 og 32 en ítrekað lendir í vandamálum að vetri til þar sem vegurinn er ekki skilgreindur í 7 daga vetrarþjónustu, einungis þjónustu 5 daga í viku. Forsenda þess að Uppsveitirnar í heild séu eitt svæði, bæði til búsetu og vinnu, eru öruggar samgöngur. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á Vegagerðina að gæta jafnræðis milli allra íbúa Uppsveitanna og tryggja 7 daga vetrarþjónustu á öllum stofnvegum. Kjósi Vegagerðin að hunsa slík tilmæli óskar sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps eftir rökstuðningi frá Vegagerðinni um hvers vegna Vegagerðin telji sig geta mismunað íbúum Uppsveitanna með því að hafa ekki sömu þjónustu á stofnvegum á svæðinu.

 

7. Sjókvíaeldi og ganga eldislaxa í ár

​Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru fjölmargar fiskgengar ár með tilheyrandi hlunnindum. Hvítá með Stóru Laxá sem þverá, Þjórsá með sínum þverám Kálfá, Þverá, Sandá/Hvammsá og Fossá. Allar þessar ár eru fiskgengar og gefa landeigendum jarða sem að þessum ám liggja hlunnindatekjur ásamt því að skapa staðbundin störf

Sjóeldið sem stundað er víða um landið hefur sannað þá ógn við hina hreinu stofna sem ganga upp í íslenskar ár og gerir það eftirsótt fyrir veiðimenn að koma í árnar okkar. Erlendir veiðimenn hafa komið til veiða í árnar öldum saman og skilja eftir sig miklar tekjur og störf við þjónustu margskonar svo sem við veiðihúsin og leiðsögn.

Núverandi staða þar sem eldislax hefur sloppið í þúsundatali talið er með öllu óásættanleg. Leikreglur verða að vera skýrar og eftirlit með þeim hætti að tryggt sé að slík ógn vofi ekki yfir um land allt sem getur ógnað öðrum búgreinum og atvinnuuppbyggingu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á ríkisstjórnina að tryggja lagalegt umhverfi sjókvíaeldis á þann hátt að það geti ekki stofnað öðrum atvinnuvegum víðsvegar um landið hættu. Ekki er hægt að una við að störf og hlunnindi séu í hættu um land allt sökum umhverfisslysa í sjókvíaeldi.

8. Aðalfundur Bergrisans - kjörbréf

​Aðalfundur Bergrisans fer fram mánudaginn 16. október nk. Skipa þarf þrjá fulltrúa og þrjá til vara til að fara með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á fundinum..

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skipar Harald Þór Jónsson, Bjarna H. Ásbjörnsson og Axel Á. Njarðvík sem aðalmenn á fundinn. Til vara Vilborg Ástráðsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson og Sylvíu Karen Heimisdóttur.

 

9. Áskorun frá félögum eldri borgara í Uppsveitum Árnessýslu

Lögð fram áskorun frá félagi eldri borgara í Uppsveitum Árnessýslu er varðar að bæta og tryggja heilbrigðisþjónustu á svæðinu.

Sveitarstjórn tekur undir áskorun frá félagi eldri borgara í Uppsveitum Árnessýslu og telur viðbragðstíma ef sjúkdóm eða slys bera að höndum vera lengri en eðilegt getur talist og þar með óásættanlegt.

 

10. Umsókn um skólavist utan lögheimilissveitarfélags

Lögð fram umsókn frá Reykjavíkurborg um skólavist nemenda sem hefur ekki lögheimili í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum skólavist fyrir veturinn 2023-2024.

 

11. Skipun í stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum

Gunnar Örn Marteinsson hefur óskað eftir að fara úr stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum. Skipa þarf nýjan fulltrúa fyrir hann.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að skipa Harald Þór Jónsson í stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum.

12. Bréf til sveitarfélaga um innviði fyrir orkuskipti

Lagt fram bréf frá Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytinu er snýr að innviðum fyrir boðuð orkuskipti.

 

13. Bréf til sveitarfélaga vegna framlaga til aðgengismála

Lagt fram til kynningar bréf er snýr að framlögum til aðgengismála.

14. Fundargerð 7. fundar Skólanefndar

Fundargerð skólanefndar lögð fram til kynningar.

​Í samræmi við lið 3 staðfestir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps með fimm atkvæðum reglur um myndbirtingar úr skólastarfi. Umræður um lið 4 frestað til næsta fundar. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar

 

15. Fundargerð 11. fundar Seyrustjórnar

Fundargerð 11. fundar Seyrustjórnar lögð fram til kynningar ásamt meðfylgjandi greinagerð um rekstrarform Seyrustaða. Taka þarf afstöðu til liðar 3 í fundargerðinni er snýr að rekstrarfyrirkomulagi Seyrustaða til framtíðar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur mikilvægt að einfalda utanumhald núverandi samstarfsverkefna og þar sem öll aðildarfélög Seyrustaða eru sömu aðildarfélög Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs telur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps besti kosturinn að flytja starfssemi seyrustaða inní byggðasamlag UTU. Þá þurfi ekki að stofna nýtt einkahlutafélag eða byggðasamlag utan um reksturinn, heldur verði hagræðing með því að flytja starfssemina inní núverandi byggðasamlag. Einnig eru tækifæri til samlegðaráhrifa í rekstri innan eins byggðasamlags.

 

16. Fundargerð 1. fundar Atvinnu- og samgöngunefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

17. Fundargerð aukaaðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga 19. september 2023

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

18. Fundargerð 598., 599. og 600. fundar stjórnar SASS. fundur Atvinnu- og samgöngunefndar

Fundargerð lagðar fram til kynningar.

 

19. Fundargerð 8. fundar stjórnar Byggðarsafns Árnesinga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

20. Fundargerð 933. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

21. Fundargerð 102. fundar stjórnar UTU

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

22. Fundargerð 207. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:40. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 18. október, kl. 9.00, í Árnesi.