Sveitarstjórn

30. fundur 18. október 2023 kl. 09:00 - 11:45 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni H. Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 30. sveitarstjórnarfundi

Vinnufundur Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu.
Kjördæmavika - fundir með þingmönnum.
Fundur með Landsvirkjun.
Atvinnuviðtöl.
Fundur m/Vindorku hóp ráðuneytisins.
Haustfundur Héraðsnefndar Árnesinga.
Haustfundur Landsvirkjunar.
Fundur með faghópi 3 í Rammaáætlun.
Aðalfundur Bergrisans.
Heimsókn forstjóra og stjórnar Landsnets.
Íbúafundur í Reykholti v/heilsugæslu.

 

2. Skólastefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps - seinni umræða

Haustið 2022 hófst vinna við nýja skólastefnu undir leiðsögn Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors í kennslufræðum. Stefnan var unnin í samráði við nemendur, kennara og íbúa sveitarfélagsins. Þessari vinnu lauk á fyrri hluta ársins 2023. Fyrri umræða um skólastefnuna fór fram í sveitarstjórn þann 19. apríl síðastliðinn og var þá samþykkt að vísa framtíðaráformum í skólamálum sveitarfélagsins til annarrar umræðu.

Þessi nýja skólastefna hefur verið kynnt íbúum og öðrum með auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins ásamt því að haldinn var íbúafundur þann 3. maí þar sem skólastefnan var kynnt, þar á meðal að stefnt væri að heildstæðum grunnskóla með 1.-10. bekk í Þjórsárskóla.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum Skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 - 2028. Með henni er gert ráð fyrir því að 1.-10. bekkur verði í Þjórsárskóla enda gera spár ráð fyrir mikilli fjölgun íbúa og nemenda á næstu árum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktir jafnframt, að framvegis verði ekki sendir fleiri árgangar í Flúðaskóla. Þeir nemendur Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem stunda nú nám í 8.-10. bekk Flúðaskóla munu klára skólagöngu sína þar. Haustið 2024 munu árgangar í 1.- 8. bekk vera í Þjórsárskóla, haustið 2025 verði árgangar 1.- 9. bekkjar í Þjórsárskóla og frá og með haustinu 2026 verði Þjórsárskóli orðinn heildstæður grunnskóli með árganga frá 1.-10. bekkjar.

 

3. Þróunarsjóður skólasamfélags Skeiða- og Gnúpverjahrepps

​Á fundi skólanefndar þann 25. september voru lögð fram drög að reglum um vísinda- og endurmenntunarsjóð fyrir Skólasamfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Skólanefnd samþykkti að sjóðurinn yrði stofnaður og samþykkti reglur um Þróunarsjóð fyrir skólasamfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps ásamt því að vísa þeim til sveitarstjórnar til samþykktar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að stofna Þróunarsjóð fyrir skólasamfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps og felur formanni skólanefndar og fjármálastjóra að útfæra reglur sjóðsins nánar. Stofnframlag sjóðsins skal verða 2.000.000 kr. og tekur hann til starfa á árinu 2024. Fjármálastjóra falið að gera ráð fyrir framlaginu í núverandi vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024.

4. Vinnustytting í Þjórsárskóla

​Lagt fram bréf frá trúnaðarmanni f.h. kennara í Þjórsárskóla, er varðar útfærslu á vinnutímastyttingu í Þjórsárskóla.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar erindinu til umfjöllunar í skólanefnd.

 

5. Jafnlaunakerfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, innri og ytri úttekt

​​Innri úttekt og ytri úttekt jafnlaunavottunar fór fram í september og október. Samhliða var gerð launagreining og eru niðurstöðurnar mjög góðar. Frávik voru 2,4% konum í hag og fylgni milli starfaflokkunar og þeirra launa sem greidd eru (R2) er 97,5%. Eru niðurstöður vel innan markmiða skv. jafnréttisáætlun sveitarfélagsins. Innri úttektin var gerð af Strategía ehf. og ytri úttekt af BSI á Íslandi ehf. Engin frávik eða athugasemdir komu fram í úttektunum og er það mat úttektaraðila að jafnalaunakerfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps sé í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals ÍST 85:2012. Voru úttektirnar liður í viðhaldsúttekt á kerfinu og endurútgáfu á jafnlaunavottorði sem mun gilda til ársins 2026. Áfram verður unnið að umbótum á kerfinu eins og verið hefur. Skýrslur úttektaraðila lagðar fram til kynningar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar góðri niðurstöðu jafnlaunavottunar sem sýnir skýrt að verið er að nota jafnlaunakerfið ekki bara til jöfnunar heldur við reksturinn í heild.

 

6. Skipun fulltrúa í starfshóp vegna móttökuáætlunar

​​Í aðgerð númer 5 í Atvinnumálastefnu Uppsveitanna er lagt til að stofnaður verði vinnuhópur um móttökuáætlun. Hlutverk vinnuhópsins er að vinna móttökuáætlun vegna móttöku nýrra íbúa. Skipa þarf einn aðalmann og einn til vara.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skipar Sáru Annamária Herczeg sem aðalmann og Hrönn Jónsdóttur til vara.

 

7. Þjóðveldisbærinn - deiliskipulag

​Í sumar tók nýr rekstraraðili við rekstri á Þjóðveldisbænum. Fyrir liggur að byggja þarf upp og bæta innviði eins og móttöku, salernisaðstöðu, starfsmannaaðstöðu, frárennsli og fleiri þætti. Þjóðveldisbærinn er í þjóðlendum og mikilvægt er að deiliskipuleggja svæðið og skilgreina þær heimildir sem leyfa ber á svæðinu. Hússtjórn Þjóðveldisbæjarins mun leiða vinnuna við deiliskipulagið sem vinna þarf í samráði við Forsætisráðuneytið og Umhverfisstofnun.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir Þjóðveldisbæinn.

8. Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands leitar að styrktaraðilum

​Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands hefur verið starfræktur frá árinu 2002 og hefur það markmið að veita styrki til námsfólks sem vinnur að rannsóknarverkefnum til lokaprófs á háskólastigi. Verkefnin skulu tengjast Suðurlandi og þjóna ótvíræðum atvinnu- og/eða fræðilegum tilgangi fyrir landshlutann eða hluta hans.

Afgreiðslu frestað. Sveitarstjóra falið að afla meiri upplýsinga um sjóðinn.

 

9. Kvennaverkfall 24. október

Boðað hefur verið kvennaverkfall þriðjudaginn 24. október þar sem konur eru hvattar til að leggja niður störf. Um 90% af starfsfólki Skeiða- og Gnúpverjahrepps eru konur. Sveitarstjórn metur vinnuframlag kvenna mikils og styður heilshugar við réttindabaráttu kvenna. Kjósi konur sem starfa hjá sveitarfélaginu að leggja niður störf þennan dag mun það óhjákvæmilega leiða til þess að ekki verður hægt að halda opnum leikskóla og grunnskóla. Það er í höndum skólastjórnenda að gera ráðstafanir ef þess verður þörf og upplýsa foreldra um stöðuna.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að laun þeirra kvenna sem leggja niður störf 24. október, til að taka þátt samstöðufundi um réttindabaráttu kvenna, verða ekki skert.

10. Fundargerð skipulagsnefndar nr. 267

Grandi L166643; Votadæl 1, 3 og 5; Fjölgun lóða; Deiliskipulagsbreyting - 2211025

Lögð er fram tillaga er varðar breytingu á deiliskipulagi lóðar Granda L166643 (Votadæl) úr jörð Sandlækjar eftir auglýsingu. Í breytingunni felst fjölgun lóða og byggingarreita innan svæðisins. Eftir breytingu er gert ráð fyrir 3 lóðum á svæðinu þar sem heimilt verði að reisa allt að 3 hús á hverri lóð innan nýtingarhlutfalls 0,03. Heimilt er að byggja íbúðarhús m/bílskúr, gestahús og skemmu/geymslu í samræmi við nýtingarhlutfall. Athugasemdir bárust við gildstöku deiliskipulagsbreytingarinnar frá Skipulagsstofnun og er sú afgreiðsla lögð fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt andsvara.

Í athugasemdum Skipulagsstofnunar er tilgreint að samkvæmt ákvæðum aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps sé ekki gert ráð fyrir nýjum byggingum á landbúnaðarsvæðum í flokki I og II. Að mati sveitarstjórnar er viðkomandi ákvæði aðalskipulags mikilvægt til að vernda gott landbúnaðarland gagnvart ágangi uppbygginga, sérstaklega innan bújarða. Hins vegar telur sveitarstjórn að viðkomandi land sem tillagan tekur til sé ekki þess eðlis að veruleg skerðing á góðu landbúnaðarlandi hljótist af við uppskiptingu þess og skilgreiningu byggingarreita þar sem landið tekur eingöngu til 5 ha svæðis sem hingað til hefur ekki verið nýtt til landbúnaðar. Í stefnu aðalskipulags má ráða að framlögð ákvæði teljist ekki bindandi heldur séu háð mati hverju sinni. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögn Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti í framlagðri bókun. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

11. Fundargerð Atvinnu- og samgöngunefndar nr. 2

Fundargerð lögð fram til kynningar.

Varðandi lið 1, beiðni til sveitarstjórnar um að reisa atvinnuhúsnæði, þá hefur sveitarfélagið úthlutað lóð til Búnaðarfélags Gnúpverja sem er að undirbúa byggingu á húsnæði með iðnaðarbilum. Einnig hefur sveitarfélagið nýverið gengið frá kaupum á landi þar sem skipulagðar eru 10 lóðir undir atvinnustarfsemi. Stofnun lóðanna er í vinnslu og munu þær verða auglýstar á komandi mánuðum.

Varðandi lið 2, þá hefur engin ákvörðun verið tekin um lokun tjaldsvæðisins. Vinna er í gangi við að móta skipulag til framtíðar í Árnesi. Ljóst er að mikil uppbygging er framundan sem mun skapa traustan grunn undir núverandi atvinnustarfsemi í Árnesi og byggja undir starfsemi allt árið um kring. Miðað við framtíðarskipulag í Árnesi liggur fyrir að tjaldsvæðið er víkjandi á því svæði sem það er á í dag. Gera má ráð fyrir mikilli uppbyggingu íbúða, hótels, stækkun skóla og byggingu fyrirtækjamiðstöðvar og íþróttahúss.

12. Fundargerðir Bergrisans bs.

Fundargerðir 62. og 63. fundar lagðar fram til kynningar.

13. Fundargerð Hússtjórnar Þjóðveldisbæjarins 3.10.2023

Fundargerð lögð fram til kynningar.

14. Fundargerðir stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga

Fundargerðir nr. 208. og 209. lagðar fram til kynningar.

15. Fundargerð framkvæmdaráðs Almannavarna Árnessýslu

Fundargerð 3. fundar lögð fram til kynningar.

 

16. Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu

Fundargerðir nr. 11., 12. og 13. lagðar fram til kynningar.

 

17. Fundargerð stjórn Sambands Íslenskra sveitarfélaga

Fundargerð nr. 934. lögð fram til kynningar.

 

18. Fundargerð stjórnar SOS

Fundargerð frá 2.10.2023 lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 11.45. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 1. nóvember, kl. 9.00, í Árnesi.