- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
Kynning fyrir stjórn Samorku.
Fundur með Rauðukömbum
Fundur með Steypustöðinni.
Stjórnarfundur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ).
Fundur með HSU.
Fundur Seyrustjórnar.
Kynning byggðaþróunarfulltrúa og ferðamálafulltrúa.
Fundir með foreldrum í Þjórsárskóla.
Fundur með þingflokki Flokki fólksins.
Fundir með Vegagerðinni vegna Búðafossvegur.
Vígsla lyftu í Þjórsárskóla.
Samráðsfundur sveitarstjóra vegna aðstæðna við Grindavík.
Stjórnarfundur Umhverfis- og tæknissviðs Uppsveita (UTU).
Vinnufundir sveitarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar.
Afmæli Ásaskóla og Brautarholtsskóla
Íbúafundur.
2. Álagningarforsendur 2024
Lögð er fram tillaga að álagningarprósentu útsvars árið 2024 verði óbreytt 14,74%.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að álagningarprósenta útsvars fyrir árið 2024 verði 14,74%.
3. Innviðaráðuneytið, beiðni um frumatkvæðisathugun
Lagt er fram til kynningar erindi sem barst Innviðaráðuneytinu og er ráðuneytið með í skoðun hvort ástæða sé til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 128/2011.
4. Skólamál, breytingar og uppbygging framundan
Lagt er til að staðfest verði sú tímalína sem ákveðin var á sveitarstjórnarfundi þann 18. október síðastliðinn. Einnig er lagt til að sveitarstjórn samþykki að láta vinna fjárhagslega greiningu á fjárfestingu á nýrri byggingu í Árnesi sem mun hýsa íþróttahús, fablab/verknámsaðstöðu, fyrirtækjakjarna og skrifstofur sveitarfélagsins. Áætluð fjárfesting á árunum 2024-2026 er samtals að fjárhæð 1.200 milljónir kr.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með fimm atkvæðum framangreinda tímalínu og felur sveitarstjóra að hefja formlegar viðræður við sveitarstjórn Hrunamannahrepps um breytingu á núgildandi samningi um samstarf í skólamálum.
Fjármálastjóra er falið að koma af stað fjárhagslegri greiningu á fjárfestingunni og mati á áhrifum hennar á fjárhag sveitarfélagsins í samræmi við 66. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
5. Umsókn um atvinnulóð í Árnesi
Lögð er fram umsókn frá Steypustöðinni Námum ehf. um 4-5 hektara lóð undir atvinnustarfsemi í landi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Á lóðinni þarf að vera heimild til að vinna efni, reisa mannvirki í formi skjólgarða til geymslu á vikri ásamt því að byggja lager- og vinnsluhúsnæði.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur vel í umsóknina og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram. Sveitarstjórn ítrekar þó mikilvægi þess að tryggt verði að ekki verði fok á uppsöfnuðu efni með þar til gerðum skjólgörðum eða húsnæði.
6. Lífúrgangur. Kaup á jarðgerðarvél
Þann 1. janúar sl. tók í gildi breyting m.a. á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 sem ætlað var að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarkerfis til að stuðla að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndum úrgangs. Sveitarfélögum er skylt að vera með sérstaka söfnun við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnun lífúrgangs í sveitarfélaginu hefur verið misjöfn og hefur söfnun á hluta lífúrgangs í þéttbýli verið í höndum starfsmanna sveitarfélagsins sem svo hafa keyrt úrganginn á Selfoss til jarðgerðar. Með lífúrgangi er átt við lífbrjótanlegan garðaúrgang, matar- og eldhúsúrgang frá heimilum, skrifstofum veitingastöðum, mötuneytum og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.
Lagt er til að fjárfest verði í jarðgerðarvél sem breytir lífúrgangi í jarðvegsbæti og hann svo nýttur áfram til íbúa og fyrirtækja á svæðinu til ræktunar og uppgræðslu. Fengin voru tvo tilboð í jarðgerðarvél. Við mat á vélunum er önnur talin betri kostur þar sem hún hitar afurðina þannig að vottun ætti að nást á hana. Lagt er til að sú vél verði keypt, að söfnun verði áfram í höndum starfsmanna sveitarfélagsins og henni hagað þannig í þéttbýlunum að afkastageta vélarinnar sé nýtt sem best. Jafnframt er lagt upp með að settir verði upp söfnunarkassar á grenndarstöðvum sveitarfélagsins þannig að íbúar í dreifbýli geti skilað lífúrgangi sínum þangað til frekari vinnslu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að kaupa framangreinda jarðgerðarvél. Kaupin rúmast innan fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.
7. Svar Landsnets við áskorun sveitarstjórnar Skeiða-og Gnúpverjahrepps
Á fundi sveitarstjórnar hinn 16. ágúst sl. skoraði sveitarstjórn á ríkisstjórn Íslands og stjórnar Landsvirkjunar, Landsnets og Rarik að hefja stefnumótun til framtíðar þar sem höfuðstöðvar fyrirtækja verði í nærumhverfi orkuvinnslunnar.
Lagt er fram til kynningar svar Landsnets við framangreindri áskorun sveitarstjórnar.
8. Beiðni um endurnýjun samnings við Markaðsstofu Suðurlands
Lagt er fram bréf frá Markaðsstofu Suðurlands þar sem óskað er eftir endurnýjum á núverandi samningi óbreyttum sem svarar 430kr. á hvern íbúa til næstu þriggja ára. Uppbygging ferðaþjónustu á okkar svæði verður mikil á komandi árum. Markaðsstofan hefur unnið gott starf við ímyndarsköpun, þróun og markaðssetningu Suðurlands í heild sem áfangastaðar. Jafnframt óskar Markaðsstofan eftir því að gera frekari grein fyrir starfseminni og uppfærðri áfangastaðaáætlun Suðurlands í formi kynningar fyrir fulltrúa sveitarfélagsins. Lagt er til að samþykkt verði að framlengja samstarfið við Markaðsstofu Suðurlands.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að framlengja samstarf sveitarfélagsins við Markaðsstofu Suðurlands á grundvelli óbreytts samnings og til næstu þriggja ára. Sveitarstjóra falið að undirrita samning fyrir hönd sveitarfélagsins og kynna hann í framhaldinu fyrir Atvinnu- og samgöngunefnd. Sveitarstjórn telur jafnframt vel í og telur mikilvægt að fá frekari kynningu á starfi Markaðsstofunnar.
9. Beiðni um tilnefningu í samstarfshóp um áætlanir í Kerlingafjöllum
Lögð er fram beiðni frá Umhverfisstofnun um samstarf við Skeiða- og Gnúpverjahrepp í tengslum við vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landslagsverndarsvæðið Kerlingarfjöll og óskar stofnunin jafnframt eftir tilnefningu fulltrúa sveitarfélagsins í samstarfshóp um gerð áætlunarinnar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur vel í erindi Umhverfisstofnunar um samstarf og skipar Harald Þór Jónsson í samstarfshóp um gerð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landslagsverndarsvæðið Kerlingarfjöll.
10.Umsagnarbeiðni um mál nr. 0816/2023 - Búrfellslundur
Lögð er fram umsagnarbeiðni frá Rangárþingi Ytra vegna deiliskipulags fyrir Búrfellslund í Rangárþingi Ytra.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að vinna umsögn fyrir hönd sveitarfélagsins um deiliskipulagið.
11. Umsókn um breytingu á rekstrarleyfi
Lögð er fram umsókn um breytingu á rekstrarleyfi til sölu gistingar eða veitingu veitinga að Ásólfsstöðum Miðhól þar sem verið er að bæta við gistihúsi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við breytingu á rekstrarleyfi.
12. Umsókn um rekstraleyfi
Lögð er fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar Skaftholts, sjálfseignarstofnunar, um leyfi til reksturs gististaðar í flokki III- tegund: D Gistiskáli.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við umsókn um rekstur gististaðar í flokki III, Gistiskáli.
13. Lögð er fram umsagnarbeiðni frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vegna frumvarps til laga um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að skila inn umsögn fyrir hönd sveitarfélagsins.
14. Kvikmyndatökur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Lögð fram beiðni frá Truenorth Nordic ehf. um samstarf við sveitarfélagið vegna stuttra kvikmyndaverkefna í sveitarfélaginu í samstarfi við landeigendur.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.
15. Skógræktarframkvæmdir í Þjórsárdal
Lagt er fram erindi frá Skógræktinni vegna skógræktar í Þjórsárdal. Áhersla á kolefnisbindingu með skógrækt hefur aukist á undanförnum árum og hefur Skógræktin unnið að gróðursetningu í Þjórsárdal, m.a. með samstarfi við Landlife company sem er hollenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að binda kolefni með skógrækt víða um heim. Í tengslum við þetta samstarf hefur á síðustu þremur árum verið gróðursett í svæði við Vikrana í Þjórsárdal, á landi sem áður var örfoka en hefur verið grætt upp að stærstu leyti á síðustu áratugum. Landið er skilgreint á aðalskipulagi sem landgræðslu- og skógræktarsvæði. Á árunum 2021 og 2022 var ákveðið í samstarfi við Landlife company að gróðursetja ýmsar trjátegundir í ógróðursett svæði, þ.e. eyður milli þegar uppvaxinna lunda. Birki var gróðursett í jaðri svæðisins auk ýmissa hrað vaxnari trjátegunda. Markmiðið er auk kolefnisbindingar að græða landið nokkuð samfelldum skógi sem mun skapa varanlega vörn fyrir sandfoki af Vikrunum og hlífa þeirri uppbyggingu sem er að fara af stað í Þjórsárdal, þ.e. stækkun tjaldsvæði og uppbyggingu á þjónustumiðstöð. Gera má ráð fyrir að skógarnir bindi tugi þúsunda tonna af CO2 á næstu áratugum sem talin verða fram í loftslagsbókhaldi Íslands. Auk þess munu skógarnir draga úr áhrifum öskufoks í kjölfar eldgosa í Heklu og hlífa þeirri uppbyggingu í ferðaþjónustu sem fyrirhuguð er á svæðinu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir umrætt skógræktarverkefni í Þjórsárdal til uppgræðslu á Vikrunum. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma á fundi með Skógræktinni um framtíðaráform Skógræktarinnar í Þjórsárdal.
16. Samþykkt Sorpstöðvar Suðurlands- fyrri umræða
Lagðar fram til fyrri umræðu nýjar samþykktir Sorpstöðvar Suðurlands (SOS) sem samþykkt var á aðalfundi SOS hinn 27. október sl.
Sveitarstjórn vísar nýjum samþykktum Sorpstöðvar Suðurlands til síðari umræðu.
17. Fundargerð 269. fundar skipulagsnefndar
Lögð er fram umsókn um óverulega breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Holtstagl í Brautarholti. Í breytingunni felst breyting á stærðum lóða innan svæðisins.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til skilgreiningar á námusvæði í landi Haga 2 L166551 eftir kynningu. Með breytingunni verður sett inn 1,5 ha efnistökusvæði þar sem heimilt er að vinna allt að 45 þús. m3 af efni. Markmið með breytingunni er að heimila meiri efnistöku en getur fallið undir að vera til eigin nota og er því skilgreint sem efnistökusvæði.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna skilgreiningar á námusvæði í landi Haga 2, í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skal tillagan auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
Lögð er fram tillaga er varðar nýtt deiliskipulag á lóð Brjánsstaða lóð 4 (Laugatún) L213014 eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst heimild til að byggja þyrpingu lítilla gistihúsa auk þjónustuhúsa og húsnæðis fyrir starfsfólk með fasta búsetu ef á þarf að halda. Nýtingarhlutfall lóðar geti orðið allt að 0.1. Samhliða er afgreidd breyting á aðalskipulagi sem tekur til svæðisins.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Lögð er fram skipulagstillaga sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps í landi Brjánsstaða lóðar 4 L213014 (Laugatún) eftir auglýsingu. Með breytingunni verður sett inn 1 ha verslunar- og þjónustusvæði með heimild fyrir fasta búsetu, gestahús fyrir allt að 50 gesti og þjónustuhús. Markmið með breytingunni er að efla atvinnustarfsemi og bæta þjónustu við íbúa og gesti.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar. Sveitarstjórn óskar eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
18. Fundargerð 9. fundar Menningar- og æskulýðsnefndar
Tekið er til afgreiðslu 1. og 3 tl. fundargerðar er varðar úthlutun fjármagns til 17. júní hátíðarhalda og til byggðahátíðarinnar Upp í sveit sem og fjármagns til að halda íþróttakeppni næsta sumar.
Sveitarstjórn samþykkir að veitt verði sambærilegt fjármagn til hátíðarhalda nefndarinnar og auka fjármagns til að halda íþróttakeppni sumarið 2024. Gert verður ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.
19. Fundargerð 9. fundar Afréttarmálanefndar Gnúpverja
Fundargerð lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð stjórnar Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS)
Fundargerðir 601., 602. og 603. fundar stjórnar SASS lagðar fram til kynningar.
21. Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands (SOS)
Fundargerðir 321. og 332. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands lagðar fram til kynningar.
22. Fundargerð haustfundar Héraðsnefndar Árnesinga
Fundargerð 31. fundar Héraðsnefndar Árnesinga lögð fram.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með fimm atkvæðum aukaframlag við fjárhagsáætlun Byggðasafns Árnesinga fyrir árið 2023 líkt og samþykkt var á fundinum. Aukaframlag rúmast innan fjárhagsáætlunar 2023. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.
23. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra Sveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
24. Fundargerð aðalfundar Sorpstöðvar Suðurlands (SOS)
Fundargerð aðalfundar SOS sem haldinn var 27. október sl. lögð fram til kynningar.
25. Fundargerð fagnefndar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ)
Lögð er fram fundargerð 1. fundar fagnefndar SVÁ. Lagðar eru fram tillögur um hækkun á fjárhagsaðstoð, greiðslum vegna stuðningsfjölskyldna og gjaldskrár vegna heimaþjónustu og akstursþjónustu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum hækkun á greiðslum og gjaldskrám. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.
26. Fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ)
Fundargerð fundar stjórnar SVÁ frá 6. nóvember sl. lögð fram til kynningar.
27. Fundargerð hússtjórnar Þjóðveldisbæjar
Fundargerð hússtjórnar Þjóðveldisbæjar frá 9. október sl. lögð fram til kynningar.
28. Fundargerð seyrustjórnar
Fundargerð 12. fundar stjórnar seyrustjórnar lögð fram til kynningar.
29. Fundargerð stjórnar Héraðsskjalasafns Árnesinga
Lögð fram fundargerð fundar stjórnar Héraðsskjalasafns Árnesþings frá 10. nóvember sl.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum húsaleigusamning milli Héraðsskjalasafns Árnesinga og Sveitarfélagsins Árborg.
30. Fundargerð framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga bs.
Fundargerð 15. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga bs. lögð fram til kynningar.
31. Jarðhræringar í og við Grindavík
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sendir Grindvíkingum og aðstandendum þeirra hlýjar kveðjur vegna þeirra erfiðu óvissutíma sem upp hafa komið vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur lýsir sig reiðubúið að veita alla þá aðstoð sem möguleg er í því skyni að létta undir. Standa þar með grunn- og leikskóli sveitarfélagsins opnir þeim börnum sem flytja þurfa tímabundið í sveitarfélagið vegna þessa. Að sama skapi er sveitarfélagið reiðubúið til að aðstoða Grindvíkinga við öflun húsnæðis á meðan á þessu ástandi stendur.
Fundi slitið kl. 12:15. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 6. desember nk., kl. 9:00 í Árnesi.