Sveitarstjórn

57. fundur 03. mars 2021 kl. 16:00 - 21:00 Árnesi

Árnesi, 3 mars, 2021

Raðnúmer fundar í GoPro skjalakerfi 202102-0012

 

Fundargerð:

  1. Sveitarstjórnarfundur

 

Mætt til fundar:

 

Anna Sigríður Valdimarsdóttir, Björgvin Skafti Bjarnason, Einar Bjarnason, Ingvar Hjálmarsson og Matthías Bjarnason. Auk þess sat Kristófer A. Tómasson sveitarstjóri fundinn og ritaði hann fundargerð.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Oddviti stjórnaði fundi. Georg Pálsson og Olivera Ilic starfsfólk Landsvirkjnar sátu fundinn undir lið nr. 1, með Teamas fjarfundarbúnaði. Gunnar Örn Marteinsson og Sigurður Loftsson sátu fundinn undir lið nr.11.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

  1. Samtal við starfsmenn Landsvirkjunar í Búrfelli.

Olivera Ilic verkefnastjóri og Georg Pálsson stöðvarstjóri í Búrfelli tóku til máls og sögðu frá helstu verkefnum og starfsemi Landsvirkjunar í Búrfelli og á Tungnársvæði. Fjöldi heilsársstarfsmanna þar eru 45. Við það bætast sumarstarfsmenn og verktakar. Vatnsbúskapur á svæðinu er frekar rýr um þessar mundir að sögn Oliveru. Meðal verkefna eru sauðfjárveikivarnargirðingar, skógrækt. Helstu endurbótaverkefni um þessa mundir varða aflvélar í Sultartangastöð, endurnýjun íbúðarhúsa starfsmanna í Búrfelli. Ásamt breytingum á skrifstofuhúsnæði. Lokið verður við styrkingu grjótvarna neðan yfirfalls í Sporðöldulóni. Sagt var frá umhverfisbókhaldi. Sagt var frá framkvæmd við göngubrú yfir Þjórsá. Auk þess var sagt frá stöðu mála varðandi undirbúning Búrfellslundar. Um er að ræða vindorkuver. Áform eru um að hann verði minni áður stóð til eða 150 mw í stað 200 mw. Fjöldi vindmylla er fyrirhugaður 30 í stað 63. Er þar lögð áhersla á að draga úr sýnileika vindmyllanna. Gögnum um Búrfellslund var skilað inn í 4 áfanga rammaáætlunar. Greint var frá samstarfsverkefninu Orkide um nýsköpun og rannsóknir, en Landsvirkjun á aðild að því verkefni með samtökum sveitarfélaga.

  1. Gjaldskrá Hitaveitu Brautarholts

Sveitarstjóri lagði fram tillögu að hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Brautarholts. Gjald fyrir rúmmeter vatns hefur verið 51 kr síðan 2010. Samkvæmt hækkun vísitölu neysluverðs síðan í lok árs 2010 til febrúar 2021 myndi hækkun nema 17 kr og gjaldið færi í 68 kr pr rúmmeter. Mælagjöld pr mánuð eru kr. 849 fyrir mæla allt að ¾ tommu sverleika og kr. 1.698 fyrir mæla 1 – 2 tommur að sverleika. Sveitarstjóra falið gera samanburð á gjaldskrám hitaveitna og leggja fram fullmótaða tillögu að nýrri gjaldskrá Hitaveitu Brautarholts á næsta fundi sveitarstjórnar. Stefnt að því að hún taki gildi sem fyrst.

  1. Fasteignir - sala eða leiga.

Sveitarstjóri lagði fram hugmyndir um að húsið sem hýsir bókasafn sveitarfélagsins verði auglýst til sölu eða leigu. Þar sem breytingar eru framundan varðandi framtíð bókasafnsins. Húsið er 157 fermetrar að stærð og í góðu ástandi. Einnig voru nefndar um að Skeiðalaug verði boðin til sölu. Hugmyndir lagðar fram og kynntar til skoðunar og afgreiðslu frestað.

  1. Fjárhagsmál - sjóðsstreymi -yfirdráttur

Sveitarstjóri lagði fram stjóðsstreymisáætlun frá 3. mars til 1. júní 2021. Undanfarið hefur yfirdráttarheimild að fjárhæð 90 mkr verið á ráðstöfunarreikningi sveitarfélagsins. Sveitarstjóri óskaði eftir að heimild til að framlengja yfirdráttarheimildinni til 5. maí nk.

Heimild til framlengingar yfirdráttarheimildar samþykkt samhljóða. Sveitarstjóra falið að kanna aðra möguleika á lántöku.

  1. Skipulagsnefnd 212. Fundargerð frá 24. Febrúar 2021.

Mál 27. Ásar L166523; Skútás; Stofnun lóðar - 2102045

Lögð er fram umsókn Höllu Guðmundsdóttur og Viðars Gunngeirssonar, dags. 14. janúar 2021, um stofnun landeignar úr landi Ása L166523. Um er að ræða 78.800 fm lóð miðað við afmörkun út í miðja á en 75.725 fm miðað við þurrlendi. Óskað er eftir að lóðin fái staðfangið Skútás sem dregur nafn sitt af kennileiti innan lóðarinnar. Fyrir liggur samþykki Vegagerðarinnar fyrir aðkomu að landinu sem er frá Gnúpverjavegi (325-01).

Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun landeignarinnar né staðfangið skv. fyrirliggjandi umsókn. Ekki er gerð athugasemd við staðfestingu landskipta skv. 13. gr. jarðalaga. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða ofangreint erindi er varðar lóðina Skútás.

 

Mál 28. Hvammsvirkjun; Virkjun Þjórsár norður af Skarðsfjalli; deiliskipulag - 2008048

Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi virkjunar í neðanverðri Þjórsár norður að Skarðsfjalli, skilgreind á aðalskipulagi innan svæðis I15 - Hvammsvirkjun, eftir kynningu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining heimilda vegna framkvæmda og uppbyggingar á virkjun Þjórsár norður af Skarðsfjalli undir heitinu Hvammsvirkjun. Inntakslón hennar, Hagalón, verður í farvegi Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Lónið verður í um 116 m y.s. og um 4 km2 að stærð og rúmmál lónsins verður um 13,2 milljón m3. Stöðvarhús verður að mestu leyti neðanjarðar við norðurenda Skarðsfjalls, í landi Hvamms 1 í Landsveit. Framkvæmdarsvæði Hvammsvirkjunar er í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Fjöldi athugasemda og umsagna bárust á kynningartíma skipulagsins og eru þær lagðar fyrir skipulagsnefnd til kynningar.

Nefndin mælist til þess að athugasemdir sem bárust á kynningartíma skipulagsins skuli jafnframt teljast til athugasemda við auglýsingu skipulagsins nema ný berist frá sama aðila á auglýsingatíma skipulagsins. Viðkomandi aðilum sem athugasemdir gerðu skal tilkynnt um það. Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins. Leitað verði umsagna helstu samráðs- og umsagnaraðila sem tilteknir eru innan greinargerðar deiliskipulagsins.

Sveitarstjórn samþykkir ofangreint deiliskipulag er varðar Hvammsvirkjun með fjórum atkvæðum. Anna Sigríður sat hjá og vísaði til fyrri bókana sinna um málið. Einnig samþykkir sveitarstjórn að deiliskipulagið verði auglýst á grundvelli 41. Gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Leitað verður umsagnar samráðs – og umsagnaraðila.

Sveitarstjórn tekur undir með skipulagsnefnd og leggur til að athugasemdir sem bárust á kynningartíma skipulagsins skuli jafnframt teljast til athugasemda við auglýsingu skipulagsins nema ný berist frá sama aðila á auglýsingatíma skipulagsins.

Mál 29. Þrándartún; Vegtenging við þjóðveg; Deiliskipulagsbreyting - 2102060

Lögð er fram umsókn frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi er varðar breytingu á deiliskipulagi að Þrándartúni. Í breytingunni felst breytt vegtenging að svæðinu við Þjórsárdalsveg nr. 32.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt.

Sveitarstjórn samþykkir ofangreinda breytingu á deiliskipulagi vegna vegtengingar að Þrándartúni.

Samþykkt jafnframt að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Samþykkt að málið verði grenndarkynnt.

  1. Sorpþjónusta - lífrænt sorp.

Svokallaðir Hörputurnar hafa verið notaðir um nokkurra ára skeið til að afsetja lífrænt sorp við heimili í dreifbýli. Hörputurnar eru plaströr 45 cm í þvermál, sveitarfélagið hefur lagt turnana til ásamt vinnu við það. Nú liggur fyrir að sú aðferð er ekki lengur viðurkennd sem jarðgerð á lífrænum úrgangi. Sveitarstjórn samþykkir að leggja af umrædda aðferð við afsetningu á lífrænu sorpi. Unnið er að öðrum útfærslum í þessum efnum.

  1. GoPro skjalavistunarkerfi.

Sveitarstjóri vakti athygli á miklum kostnaði við skjalavistunarkerfið. Samþykkt að kalla eftir afslætti á viðskiptakjörum við kerfið.

  1. Samningar um persónuverndarsþjónustu

Máli frestað.

  1. Ferðamálafulltrúi uppsveita- aðild

Rætt var um aðild sveitarfélagsins að samstarfi með Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi og Grímsnes- og Grafningshreppi um . Kostnaður Skeiða- og Gnúpverjahrepps við samstarfið er um 3,5 mkr á ári. Samþykkt að segja upp aðild að ofangreindum samningi. Sveitarstjóra falið að útfæra aðra möguleika um verkefni ferðamálafulltrúa er snúa að sveitarfélaginu.

  1. Erindi frá Kvenfélagi Skeiðahrepps- v. Brautarholts

Lagt fram erindi frá stjórn Kvenfélags Skeiðahrepps

  1. Athugasemd nágranna vegna fyrirhugaðrar Hrútmúlavirkjunar.

Gunnar Örn Marteinsson og Sigurður Loftsson mættu til fundar undir þessum lið. Fyrir fundin var lagt fram bréf undirritað af þeim. Þeir gerðu athugsemdir við áform um fyrirhugaða Hrútmúlavirkjun. Um ræðir áform um 85 megawatta vindaflsvirkjun á jörðinni Skáldabúðum. Jörð Gunnars og Sigurðar, Steinsholt liggur í næsta nágrenni við Skáldabúðir. Gunnar og Sigurður mótmæltu ofangreindum áformum. Þeir gagnrýndu sveitarstjórn fyrir skort á upplýsingagjöf og meðferða málsins til þessa. Þeir gagnrýndu meðal annars sjónrænum áhrifum vindorkuvirkjunarinnar. Fyrir fundinn höfðu þeir óskað eftir öllum gögnum um málið. Af þeirra hálfu var óskað eftir stefnu sveitarstjórnar gagnvart landbúnaði og vernd ræktarlands, uppbyggingu vindorkuvera, ásamt stefnu sveitarstjórnar gagnvart eignarhaldi og nýtingu bújarða. Miklar umræður urðu um málið. Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að fresta því til næsta fundar að svara ofangreindum athugasemdum og spurningum.

  1. Samningur um félagsheimilið Árnes.

Lagður fram undirritaður samningur milli sveitarfélagsins og Árness Íslandi ehf um leigu á félagsheimilinu Árnesi. Samningur staðfestur. Lögð fram drög að samningi um rekstur skólamötuneytis í félagsheimilinu Árnesi. Samningsdrög samþykkt.

Lögð fram drög að samningi um rekstur skólamötuneytis og drög að samningi um gistiheimilið Nónstein við Árnes Íslandi ehf. Samningsdrög samþykkt og sveitarstjóra falið að undirrita samninga fyrir hönd sveitarfélagsins og vinna að viðeigandi ráðstöfunum.

  1. Fjalaskálar - samningur Gylfi og Hrönn.

Lögð fram drög að samningi um rekstur fjallaskálanna Gljúfurleitar, Tjarnarvers og Bjarnalækjarbotna sumarið 2021 við Hrönn Jónsdóttur og Gylfa Sigríðarson. Samningsdrög samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins

  1. Frumvörp og þingsályktanir
  2. Breyting á reglugerð um reikningsskil Sveitarfélaga
  3. Skólanefnd Flúðaskóla Fundargerð 14.fundur 18. feb 2021
  4. Sameiginleg vatnsveita í uppsveitum. Fundargerð
  5. Afgreiðslufundur byggingafulltrúa 21-137
  6. Fundargerð Stjórnar SASS 5. febrúar 2021

 

Fundi slitið kl. 19:30. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 24. mars nk. kl 16.00. í Árnesi.

_______________________

Björgvin Skafti Bjarnason

Einar Bjarnason

Ingvar Hjálmarson

Matthías Bjarnason

Anna Sigríður Valdimarsdóttir