Sveitarstjórn

33. fundur 06. desember 2023 kl. 09:18 - 13:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Gunnhildur F. Valgeirsdóttir - í Fjarveru Bjarna H. Ásbjörnssonar
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Gunnar Ö. Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202311-0021

Fundargerð: 33. sveitarstjórnarfundur

 

Mætt til fundar:

Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Axel Á. Njarðvík og Gunnhildur Valgeirsdóttir í fjarveru Bjarna H. Ásbjörnssonar.

Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

Oddviti óskaði eftir því að bæta tveimur málum á dagskrá, annars vegar síðari umræðu samþykktar Sorpstöðvar Suðurlands (SOS) og hins vegar erindi vegna forkaupsréttar í Vottunarstofunni Túni. Var það samþykkt samhljóða með fimm erindum og verða þau mál nr. 24 og 25 á dagskrá fundar.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 33. sveitarstjórnarfundi

Skipulag í Árnesi - vinna landslagsarkitekts.

Endurskoðun á Almannavarnarkerfinu.
Húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Fundur með Umhverfis- orku- og loftslagasráðherra.
Fundur með Límtré Vírnet.
Hleðslulausnir ON.
Heimsókn í 10. bekk Flúðaskóla.
Fundur vegna skólamála.
Fundur með Fjármála- og efnahagsráðherra.
Aðalfundur Veiðifélags Kálfár.
Jólahlaðborð Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Samstarf Flothettu og Skeiðalaugar.
Fundur vegna ferðaþjónustu fatlaðra.
Heimsókn í gróðurhús í Hollandi

 

2. Álagningarforsendur og gjaldskrár 2024

Gjaldskrár lagðar fram til síðari umræðu.

Sveitarstjóri og fjármálastjóri gerðu grein fyrir helstu breytingum á forsendum álagningar og gjaldskrárbreytingum fyrir árið 2024.

 

Álagningarforsendur 2024:

Fasteignaskattur:

A liður fasteignaskatts eins og hann er skilgreindur í a lið 3. mgr. 3, gr. laga nr. 4/1995 verður 0,43% af heildarfasteignamati í stað 0,4%

B liður fasteignaskatts eins og hann er skilgreindur í a lið 3. mgr. 3, gr. laga nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.

C liður fasteignaskatts eins og hann er skilgreindur í a lið 3. mgr. 3, gr. laga nr. 4/1995 verður 1,65% af heildarfasteignamati.

 

Tekjuviðmið til afsláttar af fasteignagjöldum taka breytingum frá árinu 2023 í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu 1. des 2022- 1. des 2023.

 

Vatnsgjald:

Vatnsgjald er óbreytt 0,2% af heildarfasteignamati íbúðarhúsnæðis, lóða, og atvinnuhúsnæðis, þó að hámarki 39.850 kr. á íbúðarhúsnæði. Ekkert hámarksgjald er á atvinnuhúsnæði. Eitt vatnsgjald er á frístundahúsnæði að fjárhæð 31.500 kr.

 

Lóðarleiga:

Lóðarleiga er 1% af heildarfasteignamati í þéttbýli sveitarfélagsins. Lóðarleigugjöld innheimtast að öðru leyti skv. lóðarleigusamningum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum álagningarforsendur fasteignaskatts, breytingar á tekjuviðmiðum til afsláttar af fasteignagjöldum, vatnsgjaldi og lóðarleigu fyrir árið 2024.

 

Gjaldskrá Leikholts og Þjórsárskóla:

Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrár fyrir fæði og vistun í leikskólanum Leikholti og Þjórsárskóla. Lagt er upp með að gjaldskrár hækki um 7,3%.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að gjaldskrár Leikholts og Þjórsárskóla varðandi vistun og fæði hækki um 7,3% á árinu 2024.

 

Gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs:

Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir árið 2024 og felur fjármálastjóra að auglýsa hana í stjórnartíðindum.

 

Gjaldskrá fráveitu:

Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrá vegna fráveitu og meðhöndlunar seyru.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum gjaldskrá um fráveitu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir árið 2024 og felur fjármálastjóra að auglýsa hana í stjórnartíðindum.

 

Tómstundastyrkur:

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að tómstundastyrkur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til barna á aldrinum 6-18 ára verði áfram 80.000 kr. á ári.

 

Fæði til starfsmanna:

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að fæðisgjald starfsmanna verði 680 kr.

 

3. Fjárhagsáætlun 2024 og 2025-2027- seinni umræða.

​Sveitarstjóri og fjármálastjóri gerðu grein fyrir helstu forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að álagningarprósenta útsvars haldist óbreytt 14,74%.

Gert er ráð fyrir hækkun verðlags og að verðbólga verði 7,3% árið 2024 og að útsvar hækki um 7,2%.

Fasteignamat í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hækkar um 9,2% að meðaltali í sveitarfélaginu fyrir árið 2024 og er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 50 manns á árinu þannig að íbúafjöldi verði orðinn 650 í lok árs 2024.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi í sveitarfélaginu verði áfram í lágmarki eða að meðaltali 0,35%.

Byggist grunnur að fjárhagsáætlun 2024-2027 á fjárhagsáætlun 2023 með viðaukum.

Aðrar forsendur:

Gert er ráð fyrir að álagningarforsendur á íbúðahúsnæði hækki úr 0,4% í 0,43%. Árið 2022 var álagningin 0,45% og var lækkuð í 0,4% árið 2023 til að koma til móts við mikla hækkun á fasteignamati. Byggist sú áætlun um fasteignaskatt á bráðabirgðaáætlun fyrir árið 2024 sem keyrð er út úr álagningarkerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Við hækkun fasteignaskatts úr 0,4% í 0,43% hækka skatttekjur á álagningu á íbúðarhúsnæði um 6,5 millj. kr. Vísast að öðru leyti til ákvörðunar sveitarstjórnar í lið 2 hér að framan í fundargerð um forsendur fasteignaskatts, vatnsgjalds, og lóðarleigu. Gert er ráð fyrir að gjalddagar fasteignaskatts og annarra gjalda sem innheimt eru samhliða verði 10 talsins líkt og áður frá febrúar til nóvember.

 

Fráveita: Gert er ráð fyrir að svokallað rotþróargjald, sem innheimt er árlega skv. 18. gr. samþykktar um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi vegna niðurjöfnunar á kostnaði við tæmingu rotþróa, verði 15.841 kr. Holræsagjald í þéttbýlunum er innheimt sem hlutfall af fasteignamati og hækkar í takti við þá breytingu. Rekstrartap fráveitunnar er að lækka á milli ára en fráveitan er þó í tapi upp á 14,7 millj. kr. sem stafar af verðbótagjöldum. Gera má ráð fyrir að tekjur í þennan málaflokk aukist verulega á árunum 2025-2027 vegna fjölgunar íbúða bæði í Brautarholti og Árnesi.

Fyrir auka hreinsun, að beiðni eiganda greiðist 46.350 kr. í tengslum við aðra hreinsun.

Meðhöndlun úrgangs: 1. janúar 2023 tóku í gildi lagabreytingar sem ætlað er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Gert er ráð fyrir að söfnun á grófum úrgangi í sveitarfélaginu verði óbreytt en að söfnun á pappa, pappír og plasti verði fækkað um eitt skipti á árinu. Söfnun á lífúrgangi verður áfram í þéttbýlinu en lagt er upp söfnun við grenndarstöðvar á lífúrgangi frá íbúum í dreifbýli. Mikilvægt er að fjölga grenndarstöðvum í sveitarfélaginu og er lagt upp með að svo verði. Að sama skapi verði sorpmóttökustöð sveitarfélagsins í Árnesi skipulögð til að mynda frekari skilyrði fyrir sjálfbærri auðlindanotkun og myndun hringrásakerfisins. Gjald fyrir grunneiningu íláta við íbúðarhúsnæði verður eftirfarandi af tegund og skiptist gjaldið niður á ílát:

Grátunna óflokkaður úrgangur 240 l ílát 41.100 kr.

Græntunna pappír og pappi 660 l 8.200 kr.

Svarttunna plast 360 l 8.000 kr.

Lífúrgangur 25 l 8.000 kr.

 

Stækkun á tunnum til viðbótar við grunneiningargjald

Blandaður úrgangur úr 240 l í 660 l tunnu             47.900 kr.

Blandaður úrgangur úr 240 l í 1.100 l tunnu 76.900 kr.

Pappír úr 660 l í 1100 l tunnu 8.900 kr.

Auka plast tunna 8.900 kr.

 

Annar kostnaður vegna meðhöndlunar úrgangs við íbúðarhúsnæði:.

Breytingakostnaður við ílát gildir frá 01.09.2024. 3.500 kr.

Endurnýjunargjald tunnu 240 l með flutningi á staðfang 20.000 kr.

Endurnýjunargjald tunnu 660 l með flutningi á staðfang 70.500 kr.

Endurnýjunargjald tunnu 1.100 l með flutningi á staðfang 80.000 kr.

Endurnýjunargjald lífræn tunna 5.500 kr.

 

Gjald fyrir fastan kostnað, rekstur grenndar- og móttökustöðvar og meðhöndlun úrgangs.

Innheimta skal gjald fyrir fastan kostnað vegna reksturs grenndar- og móttökustöðva. Gjaldið miðast við kostnað sem til fellur vegna fasts kostnaðar á grenndar- og móttökustöð sveitarfélagsins, s.s. launa, gámaleigu, flutnings og annars fasts kostnaðar við móttöku, flokkun og förgun sorps.

Íbúðarhúsnæði 8.800 kr.

Frístundahúsnæði, atvinnuhúsnæði og það

íbúðarhúsnæði sem ekki hefur grunneiningu íláta 36.600 kr.

 

Gjaldskrá móttökustöðvar

Um gjaldskyldu og flokka úrgangs gildir gjaldskrá fyrir móttökustöð Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Móttökugjald á 0,25 m3 af óflokkuðum úrgangi: 4.600 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af grófum úrgangi: 4.600 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af lituðu timbri 3.500 kr.

Móttökugjald á 0,25 m3 af ólituðu timbri 2.500 kr.

 

Ekki er tekið gjald fyrir móttöku á brotamálmum, úrgangi sem ber úrvinnslugjald Úrvinnslusjóðs né garðaúrgangs og annars óvirks úrgangs, t.d. múrbrot, gler og uppmoksturs.


Gjald fyrir meðhöndlun á dýrahræ

Sorpeyðingargjald vegna hrædýra er lagt á alla aðila með búrekstur.

 

Gjaldflokkur 1  (mikil notkun)180.000 kr.

Gjaldflokkur 2 67.500 kr.

Gjaldflokkur 3 (Örbú) 18.000 kr.

 

Skilgreiningar á gjaldflokkum:

Gjaldflokkur 1:

  1. Öll kúabú með yfir 300.000 l. greiðslumark.
  1. Kúabú með umtalsverða aðra starfsemi t.d. með fleiri en 100 fjár.
  1. Sauðfjárbú með yfir 1000 fjár
  1. Svínabú með gripafjölda yfir 600 svín.

 

Gjaldflokkur 2:

Stærð búa sem ekki falla undir gjaldflokk 1 eða örbú

 

Gjaldflokkur 3:

Örbú:

Öll bú eða aðilar sem eru með undir 50 hross og 50 fjár og ljóst er að landbúnaður er aukabúgrein en ekki í raun atvinna viðkomandi

 

Undaþágur og afslættir:

  • Eldri borgarar geta sótt um afslátt af gjaldi minni búa. Á það einungis við um bú sem rekin eru á kennitölu viðkomandi eldri borgara. Veittur er þá 40% afsláttur af gjaldi, 60.000 kr. fara þá niður í 36.000 kr.
  • Ef bú getur sýnt fram á að það sjái sjálft um löglega afsetningu sinna hræja er hægt að fá gjaldið fellt niður.
  • Hægt er að sækja um 40% afslátt af gjaldi ef sýnt er fram á að velta tengd dýrahaldi sé undir 5 milljónum, fer gjald þá úr 60.000 kr. í 36.000 kr.
  • Aðilar með búrekstur og ársveltu undir 5 mkr geta sótt um 40 % afslátt af gjaldi fyrir dýrahræ.              

Texti gjaldskráa eins og þær eru birtar í B-deild stjórnartíðinda gengur framar þessum texta ef misræmi reynist vera.

Fjárhagsáætlun 2024:

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024, eins og hún er lögð fyrir sveitarstjórn er gert ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 5,7 millj. kr. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta.

 

Útsvarstekjur hafa farið vaxandi á árinu og í áætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að útsvarstekjur nemi samtals með eftiráálagningu 428 millj. kr. Byggist sú forsenda á spá frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2023. Hækka útsvarstekjur um 9,7% milli ára skv. áætlun 2024 m.v. fjárhagsáætlun með viðaukum fyrir árið 2023. Fasteignaskattur er áætlaður 417 millj kr.

Í fjárhagsáætluninni er fylgt áætlun frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga um þróun greiðslna úr jöfnunarsjóði og eru framlög sjóðsins til Skeiða- og Gnúpverjahrepps að hækka 21,8% milli ára m.v. fjárhagsáætlun 2023 með viðaukum.

Lóðarleiga sem innheimt er með fasteignagjöldum verður áfram 1% af fasteignamati og er áætluð um 5,8 millj. kr. Skatttekjur eru að hækka um 10,7% á milli ára

 

Rekstrargjöld hækka á milli ára vegna aukinnar verðbólgu sem og óvissu á launamarkaði í tengslum við nýja kjarasamninga árið 2024. Kemur hækkun vegna verðbólgu fram í liðum er snúa að vöru- og þjónustukaupum en einnig er gert ráð fyrir hækkun launakostnaðar í sveitarfélaginu.

Óverulegar breytingar eru á rekstri deilda og eininga sveitarfélagsins. Málaflokkur félagsþjónustu er að hækka töluvert á milli ára eða um 23,1% og nema útgjöld hans 9,1% af skatttekjum. Kemur þar helst til aukin þjónusta í liðveislu, velferð einstaklinga og fjárhagsaðstoð. Nýtt samlag um skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. tók til rekstrar á árinu 2023, hefur það starf verið að þróast hingað til og koma áhrif þess að fullu árið 2024. Gert er ráð fyrir að í Þjórsárskóla verði kennt börnum í 1-8 bekk frá haustönn 2024 og sama skapi fjölgun barna í leikskólanum Leikholti en í upphafi árs 2024 verða nemendur leikskólans ríflega 50 talsins. Gert er ráð fyrir að gjaldskrár vegna fæðis og vistunar í bæði Leikholti og Þjórsárskóla hækki um 7,3% á árinu 2024. Áfram er gert ráð fyrir að veittur verði tómstundastyrkur til barna á aldrinum 6-18 ára að fjárhæð 80.000 kr. á barn á ári. Málaflokkur fræðslu og uppeldis hækkar um 19,2% á milli ára og mun hann kosta um 470 millj. kr. árið 2024 eða sem nemur 56% af skatttekjum. Áfram verður unnið að því að þróa skólaumhverfi og umhverfi frístundastarfs fyrir börn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Lagt er áherslu á að efla starf íþróttamannvirkja sveitarfélagsins, s.s. Skeiðalaug, Neslaug og íþróttaaðstöðu í Brautarholti en gert er þrátt fyrir það ráð fyrir að kostnaður vegna þess málaflokks lækki um 11,9% á milli ára með tilkomu meiri nýtingar á húsnæðunum og meiri tekjumyndunar. Gert er ráð fyrir að innleiðing Borgað þegar hent er fyrirkomulags verði áfram í vinnslu á árinu. Gjaldskrá þess málaflokks hækkar töluvert en gert er jafnframt ráð fyrir að greitt verði að fullu fyrir afsetningu á sorpi á móttökustöð. Að sama skapi kemur til nýtt gjald vegna fasts kostnaðar við rekstur grenndar- og móttökustöðvar sveitarfélagsins. Áfram er gert ráð fyrir þróun í úrgangsmálum þannig að sveitarfélagið geti stuðlað að sjálfbærni og auðlindanotkun.

Í málaflokki atvinnumála er gert ráð fyrir talsverðri hækkun sem er tilkomin vegna mögulegs reksturs á þjóðlendunni í Þjórsárdal, m.a. við stíga- og bílastæðagerð.

Flestar gjaldskrár sveitarfélagsins eru að hækka um 7,3% nema kveðið sé á um annað í viðkomandi gjaldskrám

 

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 er tekið er tillit til hlutdeildar sveitarfélagsins í byggðasamlögum og samstarfsverkefnum sveitarfélagsins og áhrifa þess á fjárhag sveitarfélagsins. Útgjöld þeirra aukast líkt og sveitarfélagsins í takt við þróun verðlags og kjarasamningshækkana. Um er að ræða byggðasamlög eða samstarfsverkefni þar sem sveitarfélagið ber ótakmarkaða ábyrgð, en þetta eru

  • Brunavarnir Árnessýslu
  • Héraðsnefnd Árnesinga
  • Byggðasafn Árnesinga
  • Listasafn Árnesinga
  • Tónlistarskóli Árnesinga
  • Héraðsskjalasafn Árnesinga
  • Umhverfis- og tæknisvið uppsveita bs (UTU)
  • Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs.
  • Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs.
  • Bergrisinn bs.

 

Einungis samþykktir rekstrarreikningar í samþykktum fjárhagsáætlunum ofangreindra samlaga lágu fyrir við gerð fjárhagsáætlunar en ekki efnahagsreikningar eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Er því ekki tekið tillit til byggðasamlaga né samstarfsverkefna í efnahagsreikningi við fjárhagsáætlun 2024.

 

Framkvæmdir við fasteignir sveitarfélagsins eru annars vegar að skiptast í viðhald og hins vegar í fjárfestingu. Áfram verður varið töluverðum fjármunum í viðhald á eignum sveitarfélagsins, m.a. við Skeiðalaug, félagsheimilið Árnes og Þjórsárskóla.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða á árinu 2024 og er gert ráð fyrir fjárfestingum á árinu að fjárhæð 625 millj. kr., m.a. við Skeiðalaug, húsnæði leikskólans í Brautarholti, gatnagerð, við gámasvæðið og við Þjórsárskóla þar sem gert er ráð fyrir töluverðri breytingu á núverandi húsnæði sem og byggingu nýs fablab/verknámshúss og upphafi af byggingu íþróttahúss.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi aðal- og deiliskipulagsvinnu í Árnesi þar sem þróuð verður frekari íbúabyggð en gert er ráð fyrir gatnagerð í Árnesi á næsta ári og úthlutun lóða í Brautarholti.

 

Rekstur:

Í fjárhagsáætlun 2024 nema samanlagðar tekjur fyrir A og B hluta sveitarfélagsins 1,3 millj kr., þar af útsvars- og fasteignaskattur að fjárhæð 836 millj. kr. og framlag frá jöfnunarsjóði að fjárhæð 150 millj. kr. Gert er ráð fyrir að launakostnaður verði um 513 millj. kr. og annar rekstrarkostnaður 675 millj. kr. Inni í þessum liðum er gert ráð fyrir áhrifum tekna og gjalda þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélagið ber ótakmarkaða ábyrgð á. Heildarlaunakostnaður er áætlaður 40% af heildartekjum, annar kostnaður er 52,8% af heildartekjum.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarfélagsins án afskrifta og fjármagnsliða sé jákvæð um 91 millj. kr. Afskriftir hækka og eru áætlaðar um 53 millj. kr. Fjármagnskostnaður er áætlaður um 31 millj. kr. Heildarniðurstaða A og B hluta er því jákvæð um 5,7 millj. kr.

 

Fjárfestingar:

Nettófjárfestingar eru áætlaðar 766 millj. kr. þar af eru fjárfestingar í byggðasamlögunum að fjárhæð 21,2 millj. kr. Gert er ráð fyrir að á móti komi framlag vegna gatnagerðargjalda að fjárhæð 120 millj. kr. Samtals fjárfestingar sveitarfélagsins á árinu að fjárhæð 625 millj. kr. en fjárfestingin skiptist í:

Fjármögnun:

Gert er ráð fyrir lántöku langtímaláns á árinu að fjárhæð 390 mill. kr. og skammtímaláni að fjárhæð 55 millj. kr.

 

Fjárhagsáætlun 2025-2027.

Í þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2027 er ekki staðfest fjárhagsáætlun heldur einungis yfirlit fyrir árin 2025-2027. Byggist þriggja ára áætlun á grundvelli áætlun fyrir árið 2024 en ekki er gert ráð fyrir breytingu á rekstri einstakra málaflokka að undanskilinni áframhaldandi innleiðingu skólaumhverfis og markmiða um heildstæðan skóla í Þjórsárskóla frá og með árinu 2026.

Skatttekjur byggjast á áætlaðri þróun íbúafjölgunar og skatttekjum frá árinu 2024. Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám sveitarfélagsins en gert er ráð fyrir að verðlag þróist og að verðbólga verði 3,6% árið 2025, 2,8% árið 2026 og 2,5% árið 2027.

Áfram er gert ráð fyrir fjárfestingum í innviðum sveitarfélagsins og lögð rík áhersla á uppbyggingu skóla- og íþróttahúsnæðis. Tekið verði nýtt langtímalán að fjárhæð 396 millj. kr. á tímabilinu og önnur lán greidd niður um 96,7 millj. kr. Reynt var að dreifa lántöku út frá þörf og til að lámarka fjármagnskostnað.

Lokaorð.

Fjárhagsáætlun sem lögð er fram til síðari umræðu hefur verið unnin í samráði við sveitarstjórn og stjórnendur deilda sveitarfélagsins.

Útlit er fyrir að íbúafjölgun verði töluverð á næstu árum m.a. í tengslum við uppbyggingu og reksturs Fjallabaðanna inn í Þjórsárdal og nýrra atvinnutækifæra tengdri grænmetisrækt og vinnslu á efni úr Búrfellsnámu og fleiri þátta. Reynt hefur verið að taka tillit til þess þjónustuauka sem sveitarfélagið mun standa fyrir í tengslum við þá fjölgun í fjárhagsáætlun næstu ára en ekki hefur verið tekið tillit að fullu til aukinna tekna sem því nemur. Framundan er mikil íbúðauppbygging með tilkomu úthlutunar á lóða í Brautarholti og frekari deiliskipulagsvinnu í Árnesi. Áhugi manna á lóðum hingað til sem og áhugi rekstraraðila á að koma í sveitarfélagið ber þess merki um að trú sé á uppbyggingu í sveitarfélaginu og framtíðaráformin eru björt. Tækifærin eru víða til staðar. Sveitarfélagið mun áfram kappkosta við að halda þjónustustigi sínu háu þannig að lögbundin þjónusta verði veitt á jafnréttisgrundvelli.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir og staðfestir með fimm atkvæðum fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og felur fjármálastjóra að annast skil á áætluninni til viðkomandi aðila.

 

4. Fjárhagsáætlun 2023- Viðauki IV

Lagður er fram viðauki IV við fjárhagsáætlun 2023. Með breytingu á 20. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 var kveðið á um að byggðasamlög, sameignarfélög, sameignarfyrirtæki og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags, skuli færð inn í samantekin reikningsskil sveitarfélags miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélags, þ.e. sveitarfélag skal færa hlutdeild þess í einstökum liðum rekstrar og efnahags, óháð stærð eignarhluta.

Í meðfylgjandi viðauka er búið að færa inn hlutdeild eftirfarandi stofnana í áætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2023:

Bergrisinn bs. (2,16%)

Brunavarnir Árnessýslu (5,78%)

Héraðsnefnd Árnesinga (2,76%)

Byggðasafn Árnesinga (2,76%)

Listasafn Árnesinga (2,76%)

Héraðsskjalasafn Árnesinga (2,76%)

Tónlistarskóli Árnesinga (2,76%)

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs. (1,85%)

Umhverfis- og tæknisvið uppsveita bs. (14,20%)

Ekki er hægt að meta heildaráhrif á eignir og skuldir þar sem að ekki eru allar áætlanir samstarfsverkefnanna með áætlaðan efnahag og sjóðstreymi 2023.

Í viðaukanum er jafnframt tekið tillit til aukinna útsvarstekna og breytinga á framlagi til byggðasamlags. Að auki er tekið tillit til verðbótagjalda og fjárfesting vegna gatnagerðar lækkuð til móts við fjárfestingar í innviðum hita- og vatnsveitu í Brautarholti. Áhrif á viðaukans á rekstri A hluta eru jákvæð upp á 29. millj. kr. en neikvæð á B hluta vegna fjármagnsgjalda, að fjárhæð 2,3 millj. kr. Samtals áhrif viðauka á rekstur eru jákvæð um 27 millj. kr. Fjárfestingar eru að lækka um 25 millj. kr. Áhrif viðaukans á handbært fé er hækkun upp á 58,2 millj. kr.

Heildaráhrif allra viðauka ársins á rekstur er jákvæð um 80,2 millj. kr. Rekstrarniðurstaða fyrir árið 2023 á samstæðu skv. áætlun er 93 millj. kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðauka IV við fjárhagsáætlun 2023 og felur fjármálastjóra að skila honum til viðkomandi aðila.

 

5. Fjárhagsáætlun 2023- Afskrift ársins

​​Lögð fram tillaga að afskriftum ársins. Um er að ræða fyrndar kröfur sem ekki hefur tekist að innheimta að hluta eða fullu. Fjárhæð afskrifta er að 1.393.217 kr. Gert er ráð fyrir afskriftunum í fjárhagsáætlun 2023 með viðaukum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum framlagða tillögu að afskriftum og felur fjármálastjóra að færa kröfurnar úr viðskiptamannabókhaldi sveitarfélagsins.

 

6. Byggðaþróunarfulltrúi Uppsveitanna - kynning

​Lína Björg Tryggvadóttir, byggðaþróunarfulltrúi Uppsveitanna, kemur inná fundinn og kynnir hlutverk byggðaþróunarfulltrúa og fer yfir verkefnin fyrstu mánuðina í starfi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar Línu Björg fyrir góða kynningu

 

7. Minnisblað með uppfærðum forsendum fjárhagsáætlana

​Lagt fram til kynningar uppfært minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlanagerðar í samræmi við nýja spá Hagstofunnar sem kom út 17. nóvember sl.

 

8. Minnisblað um skattlagningu á vindorkuver

​Lagt fram til kynningar minnisblað sem unnið var fyrir Samtök orkusveitarfélaga og fjallar um skattlagningu orkumannvirkja í Noregi og sérstök gjöld sem eru sett á vindorkuver í Noregi.

 

9. Hleðslulausnir fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp

Lagt fram erindi frá Orku Náttúrunnar sem hefur óskað eftir að fá að setja upp fjórar hleðslustöðvar í Árnesi og 4 hleðslustöðvar í Brautarholti. Stöðvarnar kæmu í stað þeirra stöðva sem sveitarfélagið hefur rekið, en breytingin felur í sér verulega fjölgun hleðslustöðva á svæðinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að semja við ON um að settar verði upp fjórar hleðslustöðvar í Árnesi og fjórar hleðslustöðvar í Brautarholti.

 

10. Ósk um upplýsingar um fráveitu

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem kallað er eftir því að meiri gangur verði settur í fullnægjandi frágang og umgjörð um leyfismál fráveitna í þéttbýli á Suðurlandi. Nokkur þéttbýli á Suðurlandi hafi þegar gild starfsleyfi en óskað er eftir upplýsingum um núverandi stöðu fráveitumála í þéttbýli. Einnig er farið fram á að sótt verði um starfsleyfi fyrir allar fráveitur í þéttbýli hvort sem hreinsikerfi séu fyrir hendi eða ekki fyrir 15. febrúar 2024.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að taka saman upplýsingar í samræmi við óskir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og svara erindinu.

 

11. Fjallaskálar

Lagt er til að auglýst verði eftir umsjónaraðila með fjallaskálunum Bjarnalækjarbotnum, Gljúfurleit og Tjarnarverum frá og með sumrinu 2024. Ákveða þarf fyrirkomulag rekstrar varðandi nýtingu, innheimtu leigutekna og viðhald á skálunum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er samþykk því að auglýsa eftir rekstraraðila með fjallaskálunum. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram og koma með málið betur útfært fyrir sveitarstjórn.

12. Erindi frá HSK

Lagt fram bréf frá Héraðssambandi Skarphéðins um þann möguleika á að halda héraðsþing HSK í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að leggja til húsnæði í Árnesi fyrir þingið í formi styrks.

 

13. Erindi frá Fjölskylduhjálp

Lagt fram bréf frá Fjölskylduhjálp Íslands vegna söfnunar fyrir jólin 2023

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að styrkja Fjölskylduhjálp Íslands um 50.000 kr. og fellur það innan heimilda núverandi fjárhagsáætlunar.

14. Styrkbeiðni frá sönghópnum Tvennum tímum

Lagt fram bréf frá sönghópnum Tvennir tímar um styrkbeiðni til þess að létta undir við rekstur kórsins

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur skv. fjárhagsáætlun styrkt kórastarf og félagasamtök í sveitarfélaginu í formi styrkfærðar húsaleigu með aðgengi að húsnæði sveitarfélagsins. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að Söngsveitinni Tvennum Tímum verði veitt sambærilegur styrkur í formi styrkfærðar húsaleigu og aðgengis að húsnæði sveitarfélagsins.

 

15. Fundargerð skipulagsnefndar

Fjallaskálar í Flóa- og Skeiðamannaafrétti og Gnúpverjaafrétti; Aðalskipulagsbreyting – 2207018.

Lögð fram tillaga vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029 eftir auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér breytingu á skipulagi fjallaskála á Flóa- og Skeiðamannaafrétti og Gnúpverjaafrétti. Flóa- og Skeiðamannaafréttur telst vera milli Stóru-Laxár og Fossár að austanverðu og Gnúpverjaafréttar milli Fossár og Þjórsár. Svæðið er allt innan skipulagssvæðis Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Skálarnir eru skilgreindir í gildandi aðalskipulagi sem afþreyingar- og ferðamannasvæði. Um er að ræða skálasvæði og fjallasel: AF16 Klettur, AF17 Hallarmúli, AF18 Sultarfit, AF19 Skeiðamannafit, AF20 Gljúfurleit, AF21 Bjarnalækjarbotnar, AF22 Tjarnarver og AF23 Setrið. Að auki er bætt við skálum í greinargerð aðalskipulags þar sem ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu en heimilt verði að viðhalda núverandi mannvirkjum. Markmiðið með aðalskipulagsbreytingunni er að fjölga gistiplássum í fjallaskálum í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags. Verið er að setja ramma utan um mannvirki á hverju svæði fyrir sig og uppbyggingu þeirra og viðhaldi til framtíðar. Vatnsverndarsvæði skálanna eru sett inn á uppdrátt aðalskipulags og einnig er heimild veitt fyrir minniháttar efnistöku vegna úrbóta á aðkomuvegum. Skipulagsstofnun gerði athugasemd við gildistöku skipulagsbreytinga og er umsögn þeirra ásamt tillögu að viðbrögðum lögð fram við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar. Að mati sveitarstjórnar er brugðist við athugasemdum Skipulagsstofnunar með viðeigandi hætti innan greinargerðar skipulagsins í kafla 5.3 og innan samantektar á athugasemdum og viðbrögðum. Sveitarstjórn óskar eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Reykir L166491; Breytt landnotkun, skógrækt í frístundasvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2311057.

Lögð er fram beiðni um breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps er varðar hluta skógræktarsvæðis í landi Reykja L166491. Í breytingunni felst að hluti skógræktarsvæðis breytist í frístundasvæði.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vinna skipulagslýsingu sem tekur til breytingar á skógræktarsvæði í frístundasvæði innan lands Reykja. Sveitarstjórn mælist til þess að skipulagslýsing verði kynnt og leitað umsagnar við hana á grundvelli 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Álfsstaðir II L215788; Nýbyggingar; Deiliskipulag - 1806055

Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til Álfsstaða II L215788 eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Í deiliskipulaginu felst heimild til uppbyggingar á íbúðarhúsi, gestahúsa, reiðhallar/hesthúss og skemmu á fjórum byggingarreitum. Umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðu skipulagi. Athugasemdir voru gerðar við gildistöku skipulagsins af hálfu Skipulagsstofnunar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögn sem barst vegna málsins með fullnægjandi hætti innan uppfærðra deiliskipulagsgagna og samantektar á athugasemdum og viðbrögðum sem lögð eru fram við afgreiðslu málsins. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Ásbrekka L166535; Byggingareitir og afmörkun skógræktar; Deiliskipulag – 2301045.

Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til jarðar Ásbrekku eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Á jörðinni er m.a. stunduð skógrækt. Innan deiliskipulagsins eru skilgreindir fjórir byggingarreitir þar sem m.a. er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsa, gestahúsa og útihúsa. Athugasemdir voru gerðar við gildistöku málsins af hálfu Skipulagsstofnunar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunar er varðar að heimildir til uppbyggingar á skógaræktar- og landgræðslusvæðum geri ekki ráð fyrir þeirri uppbyggingu sem fram kemur innan deiliskipulagsins. Að mati sveitarstjórnar er nauðsynlegt að skýra heimildir skógræktar- og landgræðslusvæða innan aðalskipulags þar sem um jarðir í ábúð er að ræða og skógrækt jarðarinnar getur talist til landbúnaðartengdrar starfsemi. Innan aðalskipulags er jörðin Ásbrekka nánast í heild sinni fyrir utan bæjarstæði jarðarinnar skilgreint sem skógræktar- og landgræðslusvæði alls 112 ha þótt svo að stór hluti jarðarinnar sé tún og ræktað land. Afgreiðslu málsins er frestað þar til unnið hefur verið breyting á aðalskipulagi sem tekur til svæðisins.

 

Kílhraunsvegur 1-56; Úr frístundabyggð í íbúðabyggð; Aðalskipulagsbreyting – 2311027.

Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps og deiliskipulagi er varðar Kílhraunsveg 1-56. Í breytingunni felst að landnotkun svæðisins breytist úr frístundabyggð í íbúðarbyggð.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Árnes; Þéttbýli; Landnotkunarflokkar; Aðalskipulagsbreyting – 2303052.

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar er varðar þéttbýlið í Árnesi. Breytingin nær yfir vesturhluta þéttbýlisins í Árnesi, þann hluta sem er vestan við Heiðarbraut (nr.3357). Á allra næstu árum sér sveitarfélagið fram á að mikil þörf verði fyrir íbúðarhúsnæði í Árnesi og snýst breytingin um að koma til móts við áætlaða þörf fyrir íbúðarhúsnæði samhliða uppbyggingu á þjónustu sem því fylgir. Þetta kallar á ný svæði fyrir íbúðarbyggð. Fjölgun íbúa kallar á meiri þjónustu og sveigjanleika í landnýtingu, því er hluti svæðisins gerður að miðsvæði með rúmum heimildum fyrir atvinnustarfsemi, þjónustu og íbúðir.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

16. ​Fundargerð vinnuhóps um móttökuáætlun

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

17. Fundargerð og fjárhagsáætlun UTU

Fundargerð og fjárhagsáætlun lagðar fram til kynningar

 

18. Fundargerð stjórnar Samtaka Orkusveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

19. Fundargerð stjórnar SVÁ og fjárhagsáætlun

Fundargerð og fjárhagsáætlun lagðar fram til kynningar

 

20. Fundargerð stjórnar Seyrufélags og fjárhagsáætlun

Fundargerð og fjárhagsáætlun lagðar fram til kynningar

 

21.Fundargerðir HSL

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

22. Fundargerð stjórnar Sambands Ísl. sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

23. Fundargerð ársþings SASS

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

24. Samþykkt Sorpstöðvar Suðurlands- seinni umræða

Lagðar fram til síðari umræðu nýjar samþykktir Sorpstöðvar Suðurlands (SOS) sem samþykktar voru á aðalfundi SOS hinn 27. október sl.  Helstu breytingar felast m.a. í breyttu félagaformi en Sorpstöð Suðurlands verður nú byggðasamlag. Eignarhluti hvers sveitarfélaga munu hér eftir miðast við íbúafjölda og nú ber hvert sveitarfélag einfalda fjárhagslega ábyrgð. Heimild samlagsins til að skuldbinda aðildarsveitarfélög hefur verið skýrð. Verkefni samlagsins hafa verið uppfærð í takt við breytingar sem orðið hafa á starfseminni og markmið skýrð. Ákvæði um aðalfundi og aukaaðalfundi voru endurskrifuð og sem og breytingar á orðalagi varðandi starf stjórnar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum nýjar samþykktir Sorpstöðvar Suðurlands.

25. Vottunarstofan Tún

Erindi barst frá Vottunarstofunni Túni vegna forkaupsréttar sveitarfélagsins í 1,46% hlut í Vottunarstofunni Túni.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með fimm atkvæðum að sveitarfélagið hyggist ekki nýta sér forkaupsrétt í hlutum félagsins að þessu sinni.

Fundi slitið kl. 12:30. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 20. desember, kl. 9.00, í Árnesi.

Haraldur Þór Jónsson

Gunnar Örn Marteinsson

Vilborg Ástráðsdóttir

Gunnhildur Valgeirsdóttir

Axel Á. Njarðvík