Sveitarstjórn

38. fundur 21. febrúar 2024 kl. 09:43 - 12:05 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Árnesi, 21. febrúar 2024

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202402-006

 

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 38. sveitarstjórnarfundi

Jarðgerðavél
Hitaveitur í sveitarfélaginu
Stjórnarfundur SVÁ
Vinnufundur um Árnes uppbyggingu
Fundur sveitarstjóra vegna dagdvalar aldraðra
Flothetta samstarf
Opinn fundur í Leikholti vegna leikskólalóðar
Fyrirhuguð heimsókn í Búrfell
Íbúafundur í mars

2. Stofnun framkvæmdanefndar vegna uppbyggingar í Árnesi

​Samkvæmt 42. gr. samþykkta Skeiða- og Gnúpverjahrepps getur sveitarstjórn skipað nefnd til að vinna að afmörkuðum verkefnum. Lögð er fram tillaga að stofnun framkvæmdanefndar vegna uppbyggingar í Árnesi. Hlutverk nefndarinnar er nánar skilgreint í erindisbréfi um nefndina og er í megindráttum ætlað að skipuleggja og halda utan um komandi framkvæmdir. Umboð nefndarinnar fellur niður sjálfkrafa í lok kjörtímabils sveitarstjórnar eða fyrr ef verki nefndarinnar er lokið. Í samræmi við samþykktir getur sveitarstjórn afturkallað umboð slíkrar nefndar hvenær sem er. Greitt er fyrir störf nefndarinnar í samræmi við reglur Skeiða- og Gnúpverjahrepps um laun sveitarstjórnarfulltrúa og nefndarmanna.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með fimm atkvæðum að stofna framkvæmdanefnd vegna uppbyggingar í Árnesi. Í nefndina eru skipaðir Haraldur Þór Jónsson, Gunnar Örn Marteinsson og Lilja Loftsdóttir. Formaður nefndarinnar er Haraldur Þór Jónsson.

 

 

Axel Árnason Njarðvík lagði fram eftirfarandi bókun:
Þar sem fyrirhuguð er mikil umbylting á svæðinu kringum félagsheimilið Árnes þá vil ég beina því til sveitarstjórnar að tryggt verði að ríkt samráð verði við íbúa sveitarfélagsins um mótun þeirrar uppbyggingar og þeirra umbreytingar á samfélaginu sem verður. Verkefnið er viðamikið og svo afdrifaríkar ákvarðanir verða teknar að heildarmyndin verður að vera fólki ljós áður en umbyltingin rennur af stað.

 

3. Tenging Búðafossvegar við Þjórsárdalsveg

​Stefnt er að því að framkvæmdir við Búðafossveg hefjist í sumar. Í núverandi deiliskipulagi fyrir Árnes er gert ráð fyrir hefðbundnum T-gatnamótum en í nýju deiliskipulagi sem er í vinnslu er gert ráð fyrir að vegtengingin verði með hringtorgi sem muni þá stýra umferð inn í Árnes. Lögð fram teikning að fyrirhuguðu hringtorgi og óskar Vegagerðin eftir staðfestingu frá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að fyrirhugað hringtorg sé í samræmi við óskir sveitarstjórnar ásamt því að sýna staðsetningu hringtorgsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með fimm atkvæðum að í fyrirhuguðu deiliskipulagi í Árnesi sé gert ráð fyrir vegtengingu Búðafossvegar við Þjórsárdalsveg með hringtorgi og hún sé í samræmi við framlagða teikningu.

 

 

4. Niðurstöður starfshóps um endurskoðun á skattaumhverfi orkuvinnslu

Þann 15. febrúar 2023 var bókað í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að tölulegar staðreyndir sýna fram á það að nærsamfélagið nýtur mjög takmarkaðs ávinnings af þeirri orkuframleiðslu sem á sér stað á meðan efnahagslegur ávinningur kemur fram þar sem orkan er nýtt. Sú staðreynd gerir það að verkum að orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess til framtíðar í óbreyttri mynd. Frá þeim tímapunkti hætti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að skipuleggja orkumannvirki. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur mest raforka verið framleidd á Íslandi og er uppsett afl virkjana Landsvirkjunar um 500MW sem er orkuframleiðsla sem dugar öllum heimilum og fyrirtækjum á Íslandi, að undanskilinni stóriðjunni. Frá þessum tíma hafa útreikningar KPMG sýnt fram á beint fjárhagslegt tap sveitarfélagsins af þeirri orkuvinnslu sem á sér stað í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ljóst er að slík staða setur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps í erfiða stöðu, en sveitarstjórn skal vinna samkvæmt sveitarstjórnarlögum og í VII kafla sveitarstjórnarlaga eru ítarleg ákvæði um fjármál sveitarfélaga þar sem sveitarstjórn beri að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.

Í júní 2023 stofnaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að endurskoða skattaumhverfi orkuvinnslu á Íslandi. Þetta var í þriðja sinn á átta ára tímabili sem starfshópur er skipaður um skattaumhverfi orkuvinnslu, en fyrri tveir starfshóparnir skiluðu ekki niðurstöðu. Þann 8. febrúar 2024 kynnti fjármála- og efnahagsráðherra niðurstöður starfshópsins. Starfshópurinn var einróma um þær tillögur sem lagðar voru fram og í hvaða skrefum væri æskilegt að koma þeim í framkvæmd. Starfshópurinn lagði fram tillögu að áfangaskiptingu við innleiðingu og að fyrsta skrefið væri að:

A. Undanþága á fasteignamatsskyldu verði afnumin strax og sérstakt skattþrep lögfest vegna virkjanamannvirkja.

B. Settar verði reglur sem feli í sér að fasteignamat virkjunar í heild sinni fari fram, og þar sem virkjun er í fleiri en einu sveitarfélagi, þá verði hlutdeild sveitarfélaga skipt eftir endurstofnverði mannvirkjana.

C. Fasteignaskattur verði lagður á af sveitarfélögum sem mannvirkin eru í skv. þessu og skili sér til þeirra.

D. Tryggja verður jöfnun í báðar áttir og að innleiðing taki tillit til meðalhófs, í samræmi við framangreindar tillögur starfshópsins.

E. Áfram verði unnið að skilgreiningu nærsamfélaga og þróaðar aðferðir sem taka tillit til eðlis hverrar auðlindar um sig og áhrifa hennar á nærsamfélög.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vill þakka starfshópnum fyrir vel unna vinnu og að fyrir liggi skýrar tillögur til breytinga á núverandi skattaumhverfi orkuvinnslu með það að markmiði að nærumhverfið njóti sanngjarns ávinnings af starfseminni. Nauðsynlegt er að kynnt verði fyrir sveitarfélögunum nánar þær sviðsmyndir sem fjallað er um í skýrslunni til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir heildar áhrifum breytinganna. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ítrekar nauðsyn þess að breytingar á skattaumgjörð orkuvinnslu verði kláruð í meðferð Alþingis og verði að lögum áður en boðuð lög um vindorku og afgreiðsla á rammaætlun fari í þinglega meðferð, en að mati sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps er forsenda boðaðra orkuskipta að fyrst þurfi að endurskoða skattaumhverfi orkuvinnslu svo orkuvinnsla greiði lögbundnar tekjur til sveitarfélaga eins og allar aðrar atvinnugreinar þurfa að gera í dag.

 

 

5. Niðurstaða frá innviðaráðuneytinu vegna stjórnsýslukæru og kvörtunar yfir háttsemi sveitarstjóra

​Lagður fram úrskurður innviðaráðuneytisins er varðar beiðni um stjórnsýslukæru sem barst til innviðaráðuneytisins þann 19. júní 2023 ásamt niðurstöðu vegna kvörtunar um háttsemi oddvita og sveitarstjóra er barst innviðaráðuneytinu 18. október 2023. Í úrskurði innviðaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið sjái ekki tilefni til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Málinu er því lokið að hálfu innviðaráðuneytisins

6. Kynning á starfsemi Lands & Skóga

​​Trausti Jóhannesson frá Landi & Skógum kom inná fundinn til að kynna starfsemina, þá sérstaklega með áherslu á þá skógrækt sem hefur átt sér stað í Þjórsárdal.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar Trausta fyrir kynninguna.

 

 

7. Samantekt á regluverki v. Búfjárbeitar

​Lagt fram minnisblað frá matvælaráðuneytinu er varðar regluverk um búfjárbeit – sjónarmið matvælaráðuneytis.

 

8. Skil á lóð

​Lóðarhafi að Hamragerði 4 hefur óskað eftir því að skila lóðinni.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að lóðinni að Hamragerði 4 verði skilað og að lóðin verði auglýst aftur.

 

 

9. Fundargerð 274. fundar skipulagsnefndar

Skeiða- og Gnúpverjahreppur: Brautarholt (L166445); byggingarleyfi; sundlaug - viðbygging - 2402004 ,

Móttekin er umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum og 434,4 m2 viðbyggingu við mhl 09 sundlaug á viðskipta- og þjónustulóðinni Brautarholt L166445 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Heildarstærð eftir stækkun verður 806 m2.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Málið verði grenndarkynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða að Holtabraut 14-20.

 

 

Hagi 2 L166551; Náma og aðkoma; Aðalskipulagsbreyting - 2306043

Lögð er fram, eftir auglýsingu, tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til skilgreiningar á námusvæði í landi Haga 2 L166551. Með breytingunni verður sett inn 1,5 ha efnistökusvæði þar sem heimilt er að vinna allt að 45 þús. m3 af efni. Markmið með breytingunni er að heimila meiri efnistöku en getur fallið undir að vera til eigin nota og er því skilgreint sem efnistökusvæði.

Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar.

 

Búrfells- og Skeljafellsland L223324; Þjóðveldisbær 1 og 2; Stofnun lóða - 2402022

Lögð er fram umsókn um stofnun tveggja landeigna úr þjóðlendunni Búrfells og Skeljafellsland L223324. Um er að ræða annars vegar 10.000 m2 landeign, Þjóðveldisbær 1, undir núverandi sýningarsal og kirkju og hins vegar 10.000 m2 landeign, Þjóðveldisbær 2, sem er áætluð fyrir starfsemi og rekstur Þjóðveldisbæjarins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna skv. fyrirliggjandi umsókn. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir erindið með 5 atkvæðum.

 

 

10. Fundargerð Afréttarmálanefndar Gnúpverja

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

11. Fundargerð stjórnar Sambands Ísl. sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

12. Fundargerð stjórnar SASS

Fundargerð lögð fram til kynningar.

13. Fundargerð 105. fundar stjórnar byggðasamlagsins UTU

Fundargerð lögð fram til kynningar.

14. Fundargerð framkvæmdaráðs Almannavarna Árnessýslu

Fundargerð og ársreikningur lagðir fram til kynningar.

 

​15. Fundargerð 233. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:05. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 6. mars, kl. 9.00, í Árnesi.