- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 8. maí 2024
Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202404-0017
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla sveitarstjóra á 43. sveitarstjórnarfundi
Fundur Sambandsins vegna skatta og orkuvinnslu.
Fundur vegna ferðamannasvæðis við Búrfell.
Aðalfundur Háskólafélags Suðurlands.
Fréttamannafundur Samfylkingarinnar í Árnesi.
Skoðun Brunavarna í Skeiðalaug.
Vinnufundur stjórnar SVÁ.
Samorku fundur um skatta og orkuvinnslu.
Sveitarstjóramót í Múlaþingi.
Fundur með skólabílstjórum.
Samráðsfundur Vegagerðarinnar um almenningssamgöngur.
Opið hús í Nauthaga 2 - nýjum íbúðakjarna fyrir fatlað fólk.
Fundur oddvita Uppsveita og Flóa og Ásahrepps.
Þjórsárdalurinn.
2. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 - seinni umræða
Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 lagður fram til seinni umræðu. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.258,0 millj. kr. í A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.225,6 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 137,1 millj. kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 153,6 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 1.145,7 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi en eigið fé A hluta nam 1.217,7 millj. kr.
Útsvarstekjur hækkuðu um 38,6 millj. kr. á milli ára og útsvarstekjur og fasteignaskattur um samtals 44,2 millj. kr. Heildartekjur eru samtals 1.258,0 millj. kr. og rekstrarkostnaður um 1.120,9 millj kr. Framlegð af rekstri A og B hluta nam 188 millj., kr. eða 14.98% af tekjum.
Handbært fé á reikningum sveitarfélagsins og B hluta fyrirtækja var um 184,2 millj. kr. í lok árs.
Veltufé frá rekstri var 17,3% og hækkar úr 14,2% frá árinu sem er mjög jákvætt en veltufé frá rekstri sýnir það svigrúm sem reksturinn hefur til að standa undir afborgunum lána og framkvæmdum.
Fjárfestingar á árinu námu 190 millj. kr. og fólust þær helst í gatnagerð við Vallarbraut í Brautarholti, breytingum á húsnæði Skeiðalaugar og á félagsheimilinu í Brautarholti sem einnig hýsir leikskólann Leikholt, sett var upp lyft í Þjórsárskóla og er þar með búið að bæta aðgengi allra í skólahúsnæðinu, keypt var grafa og móttökugámur á gámasvæði, og athafnalóðir við Þingbraut, auk annarra smærri fjárfestinga.
Jafnvægisregla rekstrarjöfnunar er 248,9 millj. kr. og skuldaviðmið skv. reglugerð 8,7 % og lækkar úr 9,9% frá árinu áður. Engin lán voru tekin hjá sveitarfélaginu á árinu. Skuldahlutfall samstæðunnar lækkar á milli ára úr 38,8% í 36,7%.
Umræður urðu um ársreikninginn. Ánægjulegt er að sjá að niðurstaða ársins 2023 sýnir styrk sveitarfélagsins til að fara í áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn þakkar stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir þeirra framlag í átt að ábyrgum rekstri.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir ársreikninginn með fimm atkvæðum og staðfestir hann með undirritun.
3. Ársreikningur Hitaveita Brautarholts 2023 - seinni umræða
Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2023 lagður fram til seinni umræðu. Rekstrartekjur námu 5,1 millj. kr. á árinu 2023 og hækkuðu um 1 millj. kr. milli ára. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 0,6 millj. kr. Eigið fé í árslok var jákvætt um 15 millj. kr.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir ársreikninginn með fimm atkvæðum og staðfestir hann með undirritun.
4. Endurskoðunarskýrsla KPMG fyrir árið 2023
Endurskoðunarskýrsla KPMG fyrir árið 2023 lögð fram til kynningar fyrir sveitarstjórn. Skýrslan hefur verið gerð í tengslum við endurskoðun KPMG á ársreikningi sveitarfélagsins
fyrir árið 2023, sem gerður hefur verið í samræmi við lög um ársreikninga. Skýrslan er gerð fyrir stjórnendur, sem við teljum vera sveitarstjórn og sveitarstjóri, í því skyni að upplýsa um atriði sem máli geta skipt samkvæmt alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum (ISA), þar á meðal samkvæmt ISA 260 Samskipti við stjórnendur, og önnur atriði sem við höfum komist að við endurskoðun okkar og teljum að geti verið áhugaverð, en ekki í neinu öðru skyni.
Niðurstaða skýrslunnar sýnir að engar athugasemdir eru gerðar við endurkoðun KPMG á rekstri og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í skýrslunni kemur skýrt fram að sveitarfélagið er vel í stakk búið að ráðast í fyrirhugaða uppbyggingu sem er framundan.
Endurskoðunarskýrsla KPMG lögð fram til kynningar.
4. Umsókn um lóð - Þingbraut 2
Búnaðarfélag Gnúpverja óskar eftir að fá úthlutað lóðinni Þingbraut 2 í Árnesi. Á sveitarstjórnarfundi þann 5. apríl 2023 tók sveitarstjórn jákvætt í erindi Búnaðarfélags Gnúpverja um atvinnulóð til uppbyggingar á iðnaðarhúsnæði en á þeim tíma voru ekki lausar lóðir.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að úthluta Búnaðarfélagi Gnúpverja lóðinni Þingbraut 2 í samræmi við áður gefið vilyrði og 18. gr. reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
5. Ósk eftir lóð fyrir gistiheimili
Árnes ferðaþjónusta ehf. óskar eftir lóð undir gistiheimili fyrir allt að 48 herbergi sem yrði byggt í áföngum. Í dag er ekki til nein laus lóð undir slíka starfssemi en vinna við nýtt deiliskipulag í Árnesi er langt komið. Með tilkomu nýs deiliskipulags verða fjölmargar lóðir sem gætu hentað fyrir slíka starfssemi.
Sveitarstjórn þakkar erindið. Í samræmi við 18. gr. reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps með fimm atkvæðum að veita vilyrði fyrir lóð undir gistiheimili í Árnesi til sex mánaða sem samræmist því deiliskipulagi sem er í vinnslu. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram í samráði við Árnes ferðaþjónustu ehf.
6. Umsókn um framkvæmdaleyfi
Hólasmári ehf. sækir um framkvæmdaleyfi vegna áframhaldandi efnistöku í tilraunaskyni í Búrfelllshólma upp á 50.000 m3. Efnistökusvæðið að Búrfellshólma er staðsett innan þjóðlendu og heyrir því undir forsætisráðuneyti en Skeiða- og Gnúpverjahreppur fer með leyfisveitingar á svæðinu. Tilgangur rannsóknarinnar er að öðlast betri skilning á vinnslu á svæðinu, bæði hvað varðar efnisgæði sem og að ákvarða hvernig best skuli haga vinnslu og nýtingu á efni innan svæðisins. Áætlað er að hefja rannsóknir á vordögum 2024 og munu þær standa yfir fram á haust 2024.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3.
7. Umsögn vegna Búrfellshólmsnámu
Lögð fram umsögn oddvita/sveitarstjóra vegna matsáætlunar fyrir vikurnámur á Búrfellshólma. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við matsáætlunina.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum framlagða umsögn og felur oddvita/sveitarstjóra að skila henni til Skipulagsstofnunar.
8. Forkaupsréttur á Flötum
Lagt fram kauptilboð vegna fasteignarinnar Flatir 0, 0101, 804 Selfoss, fastanúmer: 222-8587 þar sem Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur forkaupsrétt. Óskað er eftir staðfestingu á því hvort Skeiða- og Gnúpverjahreppur hyggst nýta forkaupsrétt sinn.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að nýta ekki forkaupsrétt sinn.
9. Fyrirspurn umboðsmanns alþingis
Lagt fram til kynningar bréf frá umboðsmanni Alþingis.
Sveitarstjórn felur oddvita/sveitarstjóra að svara erindinu til umboðsmanns Alþingis.
10. Umsagnarbeiðni v. starfsleyfis
Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi í flokk II – H frístundahús að Skógarskarði, 804 Selfoss. Umsækjandi er Draumahöll ehf.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemdir við að rekstrarleyfið verði veitt.
11. Erindi frá stjórn Foreldrafélagsins Leiksteins
Framundan er árlegt Guggusund og eins og áður er óskað eftir akstursstyrk fyrir Guggu. Einnig skorar foreldrafélagið á sveitarstjórn að lækka aldur fyrir frístundastyrk, mögulega niður í 4 ára.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum akstursstyrk fyrir Guggusund eins og áður hefur verið gert. Styrkurinn rúmast innan fjárhagsáætlunar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps leggur mikinn metnað í Leikskólann Leikholt þar sem tekið er við börnum frá 12 mánaða aldri og er enginn biðlisti. Stuðningur sveitarfélagsins við fjölskyldur með börn á leikskólaaldri er með því besta sem gerist á landsvísu ásamt því að núverandi gjaldskrá leikskólans er verulega hófstillt. Sveitarstjórn telur því ekki tilefni til þess að lækka aldur fyrir frístundastyrk.
12. Erindi frá Nesey
Nesey ehf óskar eftir því við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að reisa steypustöð á lóð sinni við Suðurbraut 12.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur að jákvætt væri ef starfsrækt væri steypustöð á svæðinu með tilliti til þeirrar miklu uppbyggingar sem er framundan í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn áréttar þó að Suðurbraut 12 er staðsett mjög nálægt núverandi íbúðabyggð í Árnesi og ljóst er að vel þyrfti að standa að málum til að slík starfssemi geti þrifist í svo mikilli nálægt við íbúðabyggð. Sveitarstjórn óskar því eftir mun ítarlegri upplýsingum frá Nesey ehf. um hvernig staðsetning og hönnun steypistöðvarinnar yrði á lóðinni, hvernig tryggt væri að ekki skapist ónæði frá starfsseminni með foki efna sem þarf í steypuvinnsluna ásamt því hvernig tryggt verði að umgengni svæðisins verði til fyrirmyndar. Sveitarstjóra falið að hafa samtal við Nesey um málið.
13. Umsókn um rekstur fjallaskála á Gnúpverjaafrétti
Í apríl var auglýst eftir umsjónaraðila að fjallaskálum sveitarfélagsins á Gnúpverjaafrétti. Umsókn barst frá Íslandshestum ehf. Íslandshestar hafa verið með ferðamannarekstur, m.a. á afréttum, undanfarin ár.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að ræða frekar við félagið og fá frekari upplýsingar frá umsækjanda.
14. Boð á ársfund Náttúruhamfaratrygginga Íslands
Lagt fram boð á ársfund Náttúruhamfaratryggingar Ísland til allra sveitarstjórnarfulltrúa. Ársfundurinn fer fram fimmtudaginn 16. maí kl. 11:30-13:00 á Grand hótel.
15. Fundargerð 12. fundar skólanefndar - þróunarsjóður
Tekin fyrir í annað sinn erindi skv. 13. tl. 12. fundargerðar skólanefndar um umsókn kennara í Þjórsárskóla fyrir styrk til námsferðar fyrir 13 starfsmenn Þjórsárskóla til fjögurra skóla á Spáni sem allir starfa með fjölbreyttum áherslum í samræmi við meginmarkmið nýrrar skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Lagt fram bréf frá starfsfólki Þjórsárskóla sem útskýrir áherslur hvers skóla og hvernig þær samræmast skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktir með fimm atkvæðum að veita styrk til námsferðarinnar í gegnum þróunarsjóðinn að upphæð 70.000 krónur fyrir hvern starfsmann sem fer í ferðina. Gerð er krafa um skriflegan samning við styrkþega í samræmi við reglur sjóðsins. Að verkefni loknu skulu styrkþegar skila greinargerð um verkið í samræmi við 6. gr. reglna um sjóðinn. Styrkurinn rúmast innan fjárhagsáætlunar.
16. Fundargerðir 13., 14. og 15. fundar Menningar- og æskulýðsnefndar
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
17. Fundargerðir 12. og 13. fundar Afréttarmálanefndar Gnúpverja
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
18. Fundargerð 71. fundar stjórnar Bergrisans
Fundargerð lögð fram til kynningar.
19. Fundargerð 108. fundar stjórnar UTU
Fundargerð lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð stjórnar Þjóðveldisbæjar mánudaginn 8. apríl 2024
Fundargerð lögð fram til kynningar.
21. Fundargerð 70. og 71. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
22. Aðalfundur Landskerfis bókasafna
Ársreikningur Landskerfi bókasafna hf. ásamt samþykktum lagt fram til kynningar.
23. Fundargerð 947. fundar stjórnar Sambands Ísl. sveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
24. Fundargerð 325. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands
Fundargerð lögð fram til kynningar.
25. Fundargerð vorfundar Héraðsnefndar Árnesinga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
26. Fundargerð 279 fundar skipulagsnefndar.
17. Þingbraut 4 (L236662); byggingarleyfi; aðstöðuhús - 2404024
Móttekin er umsókn, þ. 26.03.2024, um byggingarleyfi fyrir 1.337 m2 aðstöðuhús á iðnaðar- og athafnalóðinni Þingbraut 4 L236662 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Útgáfa byggingarleyfis er háð breytingu á deiliskipulagi svæðisins sem tekur til heimilda er varðar hámarksmænishæð innan lóðarinnar. Afgreiðslu málsins frestað.
18. Búrfells- og Skeljafellsland L223324; Ljósleiðari og rafmagnsstrengur við Hvammsvirkjun; Framkvæmdaleyfi - 2404054
Lögð er fram umsókn frá Orkufjarskipti er varðar framkvæmdaleyfi fyrir Ljósleiðara (Orkufjarskipti) og rafmagnsstreng 11Kw (Landsvirkjun) frá Búrfellsstöð 2 að Hvammsvirkjun til að tengja Hvammsvirkjun við fjarskiptakerfi Orkufjarskipta. Tilgangur lagnarinnar er að tengja Hvammsvirkjun við fjarskiptakerfi Orkufjarskipta og taka með í leiðinni rafstreng inn á svæðið. Sá hluti framkvæmdarinnar sem er innan sveitarfélagsmarka Skeiða- og Gnúpverjahrepps er innan lands L223324, Búrfells og Skeljafells.
Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við þann hluta framkvæmdarinnar sem fer um Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Áður en leyfið verður samþykkt til útgáfu verði leitað umsagna viðeigandi umsagnaraðila og forsætisráðuneytisins þar sem um svæði á þjóðlendu er að ræða. Sveitarstjórn mælist til þess að úrvinnsla framkvæmdaleyfis verði unnin í samráði við Rangárþing ytra. Sett verði fram skilyrði fyrir útgáfu leyfisins á grundvelli þeirra umsagna sem berast vegna málsins. Málsaðili skal samhliða gera nánari grein fyrir umfangi og eðli framkvæmdarinnar.
Axel Á. Njarðvík sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég tel óeðlilegt að veita með þessum hætti hliðar framkvæmdum Hvammvirkjunnar brautargengi og binda þannig hendur sveitarfélags með framkvæmdum sem háðar eru meginframkvæmd sem enn hefur ekki fengið tilskilin leyfi.
19. Árnes; Þéttbýli; Breytt hæð húsa; Deiliskipulagsbreyting - 2404049
Lögð er fram tillaga óverulegrar breytingar á deiliskipulagi sem tekur til þéttbýlisins við Árnes. Í breytingunni felst að skilmálum er varðar hæð húsa á athafnasvæðum er breytt. Núverandi skilmálar gera ráð fyrir mænishæð að 7.5 m. Eftir breytingu verður hámarksmænishæð 9,0 m.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
27. Fundargerð 947. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
28. Ársreikningur UTU bs.
Ársreikningur lagður fram til kynningar.
29. Fundargerð 6. fundar oddvitanefndar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Varðandi lið 1 í fundargerð samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að styrkja verkefnið fjölmennningarsamfélag í Uppsveitum Árnessýslu um 100.000 krónur.
Varðandi lið 3 í fundargarð samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að greiddar verði til sveitarfélaganna í samræmi við fundargerðina.
30. Fundargerð SVÁ og ársreikningur SVÁ
Fundargerð og ársreikningur lagt fram til kynningar.
Fundi slitið kl. 12:00. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 22. maí, kl. 9.00, í Árnesi.