Sveitarstjórn

58. fundur 08. janúar 2025 kl. 09:00 - 11:00 Árnesi
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni H. Ásbjörnsson
  • Gunnar Ö. Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir


Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla odddvita á 58. sveitarstjórnarfundi
Jólafrí.
Snjómokstur.
Kostnaðarskipting Brunavarna.
Veitur í sveitarfélaginu.

2. Tekjuviðmið 2025 vegna afsláttar af fasteignagjöldum
Lögð fram til samþykktar tekjuviðmið fyrir árið 2025 sem miða að uppreiknuðum viðmiðunarfjárhæðum til lækkunar á fasteignaskatti í samræmi við samþykkt um afslátt af fasteignaskatti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Einstaklingar 67 ára og eldri og einstaklingar sem eru 75% öryrkjar eða meira geta sótt um afslátt af fasteignagjöldum þeirrar íbúðar í sveitarfélaginu sem þeir eiga lögheimili í og miðast afslættir við árstekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks skv. skattframlagi RSK. Afslættir eru reiknaðir í upphafi hvers ár samhliða álagningu fasteignagjalda fyrir komandi ár. Útreikningar um tekjuviðmið 2024 taka breytingu á milli ára samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu desember 2023 til desember 2024.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atvæðum tekjuviðmið 2025 vegna afsláttar af fasteignagjöldum fyrir árið 2025.

3. Húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2025 lögð fram. Í áætluninni er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi úr 623 í 955 á næstu fimm árum og er áætlað að íbúðaþörf til næstu fimm ára verði 143 íbúðir. Í byrjun árs 2025 eru 28 íbúðir í byggingu. Deiliskipulag fyrir fyrirhugaða uppbyggingu íbúða í Árnesi er áætlað að verði tilbúið sumarið 2025 og með því er búið að tryggja nægt framboð lóða til að standa undir spá um fjölgun íbúa í samræmi við húsnæðisáætlun.
Umræður urðu um húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar sveitarstjórnar.

 

4. Drög að flokkun tíu vindorkukosta í Rammaáætlun

Í samráðsgátt stjórnvalda er í fyrra umsagnarferli drög að tillögum verkefnisstjórnunar 5. áfanga rammaáætlunar er varðar flokkun 10 vindorkuverkefna. Eitt af þeim vindorkuverkefnum sem er fjallað um er Hrútmúlavirkjun sem er á jörðinni Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Gunnar Örn Marteinsson vék af fundi við afgreiðslu þessa máls og lagði áður fram eftirfarandi bókun:
Ég er ósáttur við þær miklu hugmyndir sem uppi eru um uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi og tel að nauðsynlegt sé að marka skýra stefnu um hvar á landinu kemur til greina að reka slíka starfsemi áður en teknar verða frekari ákvarðanir í þeim efnum.
Einn af þeim vindorkuverskostum sem til umfjöllunar eru í verkefnastjórn rammaáætlunar er Hrútmúlavirkjun, þær myllur sem næst munu standa mínu heimili eru í um 4 til 5 km fjarlægð og vindorkuverið er staðsett í nánast sömu hæði yfir sjó og munu spaðar þess ná í um 200 metra hæð. Það er því ljóst að komi til þess að þetta orkuver verði reist mun það þýða verðfall eigna minna eins og dæmin frá nágrannalöndum okkar sýna, auk þess sem það mun hafa neikvæð áhrif á frekari möguleika til uppbyggingar í ferðaþjónustu bæði hjá mér og víðar á svæðinu eins og til dæmis í Árnesi.
Afstaða mín til Hrútmúlavirkjunar lá ljós fyrir áður en ég var kosin í sveitarstjórn í síðustu sveitarstjórnarkosningum og ég tel mig ekki vanhæfan til að fjalla um málið á þessu stigi en ég tel hins vegar rétt að ég víki af fundi við afgreiðslu málsins á þessum fundi svo ekki verði farið að efast um þá umfjöllun verður á fundinum.
Ég áskil mér rétt til að koma að málinu ef það kemur til umfjöllunar síðar í sveitarstjórn en mun áður en til slíks kæmi leita álits um hæfi mitt hjá lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Að mati sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps er engar forsendur til þess að verkefnastjórn rammaáætlunar fjalli um virkjanakosti í sveitarfélaginu án þess að formlega hafi verið fjallað um verkefnið í sveitarstjórn. Eins og fram kemur í umfjöllun verkefnastjórnunar hefur verkefnið mætt töluverðri andstöðu í nærsamfélaginu, enda hefur það fengið litla kynningu og umfjöllun. Hrútmúlavirkjun myndi hafa veruleg neikvæð sjónræn áhrif, bæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en einnig í nærliggjandi sveitarfélögum eins og Hrunamannahreppi þar sem engin kynning hefur átt sér stað á virkjanakostinum.
Sú umgjörð sem fráfarandi ríkisstjórn skapaði í undirbúningi vindorkuvera þar sem engin stefnumörkun hefur verið tekin hvorki um staðarval né eignarhald hefur orsakað miklar reiði í nærsamfélögum mögulegra vindorkuvera um land allt. Það er algjör forsenda að ríkisstjórnin klári stefnumörkun í staðarvali, eignarhaldi ásamt því að klára tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga áður en lengra verður haldið.
Sveitarstjórn felur oddvita að skila inn umsögn sveitarstjórnar í samráðsgátt stjórnvalda.

5. Beiðni um leyfi vegna hjólreiðaviðburðar 21. júní 2025
Lagt fram bréf frá Reiðhjólabændum, grasrótarsamtök hjólreiðafólks, þar sem óskað er eftir leyfi frá sveitarstjórn vegna hjólreiðaviðburðarins Chase the Sun sem félagið óskar eftir að halda laugardaginn 21. júní 2025.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við fyrirhugaðan hjólreiðaviðburð en leggur áherslu á að leiðir og áætluð tímasetning viðburðarins verði kynnt vel fyrir íbúum í aðdraganda hjólreiðaviðburðarins.

 

6. Fyrirhuguð uppbygging á Malarbraut 4-6
Lagt fram erindi frá eigendum South Central er varða frekari uppbyggingu á gisti starfsemi á lóðunum Malarbraut 4-6, við hlið núverandi gististaðar. Markmiðið er að byggja í áföngum matsal, þvottahús, tæknirými og 10 herberja álmu á Malarbraut 4 og 12 herbergja álmu ásamt setuskála á Malarbraut 6. Framkvæmdin myndi hefjast sumarið 2025 og fyrsti áfangi tekinn í notkun 2027.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við framkvæmdina enda er hún að fullu í samræmi við núverandi deiliskipulag í Brautarholti og felur eigendum South Central að vera í sambandi við skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um næstu skref.

 

7. Ársfundur Brákar íbúðafélags hses. 15. janúar 2025
Lagt fram fundarboð til ársfundar Brákar íbúðafélags hses sem haldinn verður miðvikudaginn 15. janúar 2025 í fjarfundi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að fela sveitarstjóra að mæta á fundinn fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

8. Fundargerð 17. fundar Loftslags- og umhverfisnefndar
Fundargerð lögð fram til kynningar.

9. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 24-217
Fundargerð lögð fram til kynningar.

10. Fundargerð sameiginlegs fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum
Fundargerð lögð fram til kynningar.

11. Fundargerð 24. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu
Fundargerð lögð fram til kynningar.

12. Fundargerð 960. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.

13. Viðhorf til Sigurhæða - skýrsla.
Skýrsla um viðhorf til Sigurhæða lögð fram til kynningar.

Fundi slitið kl. 11:00
Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 21. janúar, kl. 9.00, í Árnesi.

Fundargerð undirrituð rafrænt.