- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Mætt til fundar:
Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.
Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
1. Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
Skýrsla odddvita á 59. sveitarstjórnarfundi
Kostnaðarskipting Brunavarna Árnessýslu.
Veitumál.
Eftirlitsnefnd Hvammsvirkjunar.
BAU sýning.
Tjaldsvæðið í Árnesi.
2. Lóðamál Árnesi
Aukin eftirspurn hefur verið eftir lóðum til bygginga í Árnesi. Einungis þrjár einbýlishúsalóðir eru lausar til úthlutunar og engar rað- eða parhúsalóðir. Nýtt deiliskipulag er í vinnslu sem áætlað er að verði tilbúið í sumar. Lagt er fram minnisblað frá sveitarstjóra er varðar lóðamál í Árnesi. Á árunum 2021-2023 hefur verið úthlutað 11 lóðum í Árnesi fyrir 16 íbúðir. Lóðaúthlutanir eru gerðar á grundvelli reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fyrst útgefnar í ágúst 2021 og uppfærðar í janúar 2024. Í reglum um úthlutun lóða kemur fram að hefja skuli framkvæmdir innan 12 mánaða. Allar nú þegar úthlutaðar lóðir eru komnar fram yfir gildistíma til að hefja framkvæmdir og aðeins hafa framkvæmdir hafist á einni lóð. Takmarkaðar upplýsingar hafa komið frá lóðahöfum um þeirra byggingaráform eða tímasettar áætlanir um framkvæmdir verið lagðar fram. Er því kominn grundvöllur til að innkalla lóðir og aflýsa lóðarleigusamningum. Þrátt fyrir að frestur til framkvæmda sé liðinn og að þar með sé grundvöllur að gildistíma lóðarleigusamningsins fallinn, er í samræmi við góða stjórnsýsluhætti lagt til að sent verður bréf til allra þeirra aðila sem fengið hafa úthlutaðri lóð á tímabilinu 2021-2023 og þeim gefinn kostur á skila inn upplýsingum um byggingaráform og staðfestingu á fjármögnun viðkomandi húsbyggingar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atvæðum að fela sveitarstjóra að senda út bréf til allra þeirra aðila sem fengið hafa úthlutaða lóð á tímabilinu 2021-2023 og gefa þeim kost á að skila inn upplýsingum um byggingaráform og staðfestingu á fjármögnun innan tveggja vikna. Með byggingaráformum skal leggja fram teikningar, raunhæfa tímaáætlun um upphaf og lok byggingarframkvæmda, með hliðsjón af tímaramma skv. lóðarleigusamningi, og staðfestingu frá banka eða lánastofnun um greiðsluhæfi og möguleika á lánafyrirgreiðslu vegna fyrirhugaðrar húsbyggingar. Komi engar upplýsingar innan tveggja vikna telst leiguréttur lóðahafa fallinn úr gildi skv. samningnum og mun sveitarfélagið þá afturkalla lóðina og aflýsa lóðarleigusamningi. Gatnagerðargjöld sem hafa verið greidd, munu við afturköllun lóðar, verða endurgreidd í samræmi við 9. gr. samþykktar um gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og laga um gatnagerðargjöld nr. 153/2006, án vaxta og verðbóta.
3. Samningur um undirbúning umsóknar um dagþjónustu
Lögð fram drög að samningi sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Hrunamannahreppi við Sólrúnu Erlu Gunnarsdóttur um ráðgjöf og undirbúningsvinnu vegna umsóknar um heimild fyrir dagþjónusturýmum fyrir eldri borgara í sveitarfélögunum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlögð drög að samningi um undirbúning umsóknar um dagþjónustu og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
4. Erindisbréf skólanefndar
Með innleiðingu á nýrri skólastefnu, eflingu á frístundastarfi ásamt rekstri félagsmiðstöðvar í Þjórsárskóla er að mati sveitarstjórnar æskilegt að endurskoða erindisbréf skólanefndar með tilliti til frístundarstarfs og félagsmiðstöðvar í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra og formanni skólanefndar að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.
5. Tónlistarskóli Árnesinga - ósk um fjölgun kennslustunda fyrir árið 2025
Tónlistarskóli Árnesinga óskar eftir fjölgun klukkustunda til tónlistarkennslu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fyrir árið 2025. Minni aðsókn hefur verið í tónlistarnám í framhaldi af covid, svo nemendum fækkaði lítillega ár frá ári, en nú virðist komin viðspyrna og umsóknum á biðlista fjölgar á ný. 3 aðilar eru á biðlista í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, öll börn á grunnskólaaldri. Skólaárið 2024 – 2025 eru kenndar 16,5 klst. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Frá 1. febrúar 2025 er óskað eftir 2 klst. aukningu og frá 1. ágúst er óskað eftir 2 klst. til viðbótar, alls 4 klst. viðbót frá og með næsta skólaári.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum beiðni Tónlistarskóla Árnesinga um fjölgun kennslustunda fyrir árið 2025. Aukning kennslustunda rúmast innan núverandi fjárhagsheimilda.
6. Yfirdráttarheimild
Sveitarfélagið hefur haft 50 milljóna króna yfirdráttarheimild allt kjörtímabilið. Sjaldan hefur komið til þess að nota heimildina en hún er hluti af stýringu á sjóðsstreymi í rekstri sveitarfélagsins. Núverandi heimild rennur út 2. febrúar nk. og óskað er eftir að sveitarstjórn samþykki að sækja um framlengingu til 12 mánaða.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að framlengja yfirdráttarheimild að upphæð 50 milljónir og felur sveitarstjóra af óska eftir framlengingunni til 12 mánaða hjá Landsbankanum.
7. Húsnæðisáætlun SKOGN 2025
Húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2025 lögð fram. Í áætluninni er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi úr 623 í 955 á næstu fimm árum og er áætlað að íbúðaþörf til næstu fimm ára verði 143 íbúðir. Í byrjun árs 2025 eru 28 íbúðir í byggingu. Deiliskipulag fyrir fyrirhugaða uppbyggingu íbúða í Árnesi er áætlað að verði tilbúið sumarið 2025 og með því er búið að tryggja nægt framboð lóða til að standa undir spá um fjölgun íbúa í samræmi við húsnæðisáætlun.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2025.
8. Fundargerð 294. fundar skipulagsnefndar
37. Reykir L166491; Murneyrar; Stofnun lóðar - 2412053
Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu dags. 01.12.2024, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar stofnun nýrrar landeignar. Óskað er eftir að stofna 75.861,29 fm landeign, Murneyrar, úr landi Reykja L166491 sem verður 374,4 ha eftir skiptingu. Staðvísirinn Murneyrar er örnefni á svæðinu skv. upplýsingum umsækjanda.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum stofnun og afmörkun landsins skv. framlagðri merkjalýsingu. Sveitarstjórn bendir á að framkvæmdir innan lóðar eru að jafnaði háðar gerð deiliskipulags sem tekur til svæðisins.
38. Húsatóftir 1A L166474 og Húsatóftir 1B L220253; Sameining lóða - 2412052
Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu dags. 20.12.2024, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar sameiningu landeigna. Óskað er eftir að sameina Húsatóftir 1B L220253 við íbúðarhúsalóðina Húsatóftir 1A L166474 sem verður 9.446,5 fm eftir sameiningu. Ekkert deiliskipulag er á umræddu svæði.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum sameiningu lóðanna og breytta stærð skv. framlagðri merkjalýsingu.
39. Skriðufell L166597; Fjölgun og breyttar stærðir lóða; Deiliskipulagsbreyting - 2412058
Lögð er fram tillaga óverulegrar deiliskipulagsbreytingar sem tekur til Selhöfða úr landi Skriðufells L166597 í Þjórsárdal. Í breytingunni felst að lóð undir smáhýsi er skipt í 2 lóðir, Selhöfða 4 og 6. Byggingarreitur B helst óbreyttur sem og byggingarheimildir. Lóð kringum tjaldsvæði er einnig skipt í tvennt, Selhöfða 3 og 5, og stærð breytist lítillega vegna aðlögunar að Selhöfðum 1.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
40. Hlemmiskeið 1 L166464; Staðfesting á afmörkun og breytt stærð jarðar - 2501015
Lögð er fram umsókn ásamt undirritaðri merkjalýsingu dags. 12.12.2024, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar staðfestingu á hnitsettri afmörkun jarðarinnar Hlemmiskeið 1 L166464 sem ekki hefur legið fyrir áður. Jörðin, sem samanstendur af tveimur aðskildum skikum, er í dag skráð 115 ha en heildarstærð hennar mælist 114,3 ha skv. meðfylgjandi merkjalýsingu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytta skráningu jarðarinnar skv. framlagðri merkjalýsingu.
41. Nautavað 3 L233469; Íbúðarhúsalóð í verslunar- og þjónustusvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2501007
Lögð er fram umsókn um aðalskipulagsbreytingu sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029 en svæðið sem breytingin nær til er Nautavað 3 L233469. Í gildandi aðalskipulagi er lóðin skilgreind sem landbúnaðarsvæði en með breytingunni er lóðinni breytt í verslunar- og þjónustusvæði.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur verið í heildarendurskoðun deiliskipulags fyrir íbúðarsvæðið í og við Árnes. Í framtíðaráformum sveitarfélagsins er ekki gert ráð fyrir verslun- og þjónustu á umræddu svæði og hafnar því sveitarstjórn umsókninni.
42. Minni-Ólafsvellir L166482; Breytt landnotkun; Deiliskipulagsbreyting - 2501019
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til Minni-Ólafsvalla L166482. Í breytingunni felst aukning á heimildum fyrir uppbyggingu á svæðinu í takt við breytingu á aðalskipulagi þar sem skilgreint var verslunar- og þjónustusvæði og íbúðarbyggð. Innan byggingarreita A1, A3 og A4 er gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja allt að 10 gestahús, íbúðarhús auk bygginga tengdum hestamennsku. Hámarksbyggingarmagn er 1.200 fm. Á reit A2 er gert ráð fyrir allt að þremur íbúðum, sambyggðum eða stakstæðum. Hámarksbyggingarmagn er 600 fm.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi
43. Áshildarmýri; Vatnsból og Vatnsverndarsvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2406076
Lögð er fram eftir auglýsingu tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til nýs vatnsverndarsvæðis í Áshildarmýri. Vatnsbólið sem vatnsverndarsvæðið tekur til er í Flóahreppi og er lögð fram sambærileg tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna skilgreiningar á vatnsbóli innan Flóahrepps. Umsagnir bárust á auglýsingartíma og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar og telur sveitarstjórn ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við þeim umsögnum sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar. Sveitarstjórn óskar eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
44. Markhóll L230917; Deiliskipulag - 2501020
Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til landspildunnar Markhóls L230917. Í deiliskipulaginu felst skilgreining á byggingarreit og byggingarheimildum innan spildunnar þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir íbúðarhúsi, bílskúr, skemmu auk tveggja gestahúsa.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
45. Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Stækkun á Búðanámu; Aðalskipulagsbreyting - 2411052
Lögð er fram tillaga breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Breytingin felur í sér stækkun á Búðanámu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Búðafossvegi. Stærð námunnar er 1 ha og heimiluð efnistaka er 50.000 m3. Náman verður stækkuð í 4,5 ha og efnismagn sem heimilt verður að taka er hækkað í 60.000 m3.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
46. Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Minni-Ólafsvellir; Aðalskipulagsbreyting - 2310031
Lögð er fram, eftir auglýsingu, breytingartillaga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Aðalskipulagsbreytingin nær yfir hluta Minni-Ólafsvalla L166482. Gert er ráð fyrir að hluta landbúnaðarsvæðis er breytt í íbúðarbyggð og verslunar- og þjónustusvæði. Heimilt er að vera með íbúðarhús og gestahús með gistingu fyrir allt að 70 gesti. Einnig er heimilt að vera með ýmiss konar afþreyingu, einkum tengda hestum. Fyrir er á Minni-Ólafsvöllum íbúðarhús, skemma og geymsluhúsnæði og verður áfram heimiluð föst búseta. Umsagnir bárust við tillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Ekki er talin ástæða til að bregðast sérstaklega við þeim umsögnum sem bárust við breytinguna. Sveitarstjórn óskar eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
9. Fundargerð stjórnar SVÁ frá 17.12.2024
Fundargerð lögð fram til kynningar.
10. Fundargerð 79. fundar stjórnar Bergrisans bs.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
11. Fundargerð 117. fundar stjórnar UTU bs.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
12. Fundargerð 241. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands
Fundargerð lögð fram til kynningar.
13. Fundargerð 20. fundar stjórnar Arnardrangans hses.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Fundi slitið kl. 12:15. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 5. febrúar, kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.