21. desember Jólablót á vetrarsólstöðum

Mynd frá jólablóti í Öskjuhlíð - fengin af heimasíðu Morgunblaðsins
Mynd frá jólablóti í Öskjuhlíð - fengin af heimasíðu Morgunblaðsins

Jólahátíð okkar hefur þróast eftir því sem við eldumst og þroskumst. Okkar jól eru frekar hefðbundin svona í amstri dagsins, við bökum smákökur, skreytum með ljósum og jóladóti, kaupum jólapakka, skerum og steikjum laufabrauð og annað sem margir gera. Þó er sjálf hátíðin sennilega aðeins ólíkari en hjá flestum sveitungum okkar. Við fögnum hátíð ljóssins sem er við vetrarsólhvörf, þar sem sólin fer hækkandi og daginn tekur að lengja. Á þessum tímamótum hefst hringrás lífsins á ný.

Við förum á jólablót, sem er núna 21. desember (vetrarsólstöður) og haldið er í Öskjuhlíðinni. Þar er blótað til árgæsku, til heilla Freys og til árs og friðar. Allsherjargoði helgar blótið og fleiri goðar segja sögur og fara með kvæði úr Hávamálum og Völuspá. Þeir þakka fyrir árið sem er að líða og senda góðar kveðjur inn í nýtt ár með því að drekka minni Goða og Vætta. Kveiktur er eldur sem allir standa kringum og undir lok blótsins gengur stóra hornið með miðinum manna á milli ef einhverjir fleiri vilja drekka minni einhvers. Í blálokin áður en farið er til veislu er boðið upp á hangikjöt, harðfisk og mandarínur sem gott er að bragða á í kuldanum. Já blótin eru úti undir berum himni og sumir koma með kyndla með sér. Margir fara svo til sameiginlegrar veislu þar sem borðað er og börnin taka þátt í ljósaathöfn, þar sem þetta er einnig hátíð barnanna.

Jólamatinn höfum við alltaf borðað með fjölskyldu okkar á aðfangadag og haldið í þær hefðir sem við vorum alin upp við. Annars koma jólin heim með því að hlusta á jólakveðjurnar á rás 1, allan daginn. Mikilvægast fyrir okkur er þó að vera með fjölskyldunni á jólunum og hugsa vel um dýrin okkar, sem þýðir já glænýjar rúllur út á tún og harðfiskur handa öðrum ferfætlingum okkar. Á annan í jólum er stórt boð hjá okkur þar sem fjölskylda Bjarna kemur og ver deginum með okkur. Þessi hefð byrjaði fyrir mörgum árum þegar við bjuggum í Reykjavík og gaman að segja frá því að systkinabörn Bjarna eru þau sem rukka mest hvort þetta boð verður ekki örugglega og mæting ávallt frábær.

 

Njótið hátíðanna og gleðileg jól

Lilja, Bjarni og viðhengi í Hraunbrún