- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 20. mars 2024
Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202403-0011
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Oddviti óskaði eftir að bæta tveimur málum á dagskrá sem er annars vegar fundarboð á aðalfund Veiðifélags Þjórsár og hins vegar fundarboð á aðalfund Rangárbakka, þjóðaleikvangs íslenska hestsins. Var það samþykkt samhljóða og verða málin nr. 26. og 27 á dagskrá fundar.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla sveitarstjóra á 40. sveitarstjórnarfundi
Minnisblað vegna Dagþjónustu fyrir aldraða.
Umfjöllun um orkumálin.
Heimsókn í Búrfell.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.
Héraðsþing HSK í Árnesi.
Ráðstefnan: Er íslensk orka til heimabrúks.
Íbúafundur um uppbyggingu í Árnesi.
Málþing um framtíð Rammaáætlunar.
Íbúðabyggð í Árnesi.
Kosning um nafn og íbúafundur. Í ljósi þessa hve íbúafundur, sem ákveðinn var hinn 25. Mars, lendir nálægt páskum og páskafríi er ákveðið að fresta íbúafundi til sunnudagsins 7. apríl kl 20.
2. Uppgjör 2023
Vinna við uppgjör fyrir árið 2023 hefur gengið vel og búið er að skila öllum gögnum til endurskoðenda sem vinna nú að uppsetningu ársreiknings. Aðalbók kynnt fyrir sveitarstjórn en endanleg staðfesting á ársreikningi fer fram á sveitarstjórnarfundi í maí.
3. Staðgreiðsluyfirlit jan-feb 2024
Lagt fram til kynningar fyrir sveitarstjórn staðgreiðsluyfirlit fyrir janúar og febrúar 2024.
4. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi – fyrri umræða
Lögð fram til fyrri umræðu uppfærð samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Samþykkt tekur mið að breytingum í úrgangsmálum í tengslum við borgað þegar hent er.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar samþykktunum til umfjöllunar í Loftslags- og umhverfisnefnd. Eftir umfjöllun nefndarinnar verður tekin fyrir síðari umræða.
5. Stóra-Laxá - Brú
Lögð fram drög að samningi er varðar yfirtöku Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Hrunamannahrepps að gömlu brúnni yfir Stóru Laxá sem Vegagerðin mun breyta í brú fyrir umferð hestamanna.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir samningsdrögin með fimm atkvæðum og þeim formerkjum að ákvæði verði sett í samninginn um að enginn kostnaður muni falla á sveitarfélagið við niðurrif og/eða skil á brúnni komi til þess á einhverjum tímapunkti. Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn.
6. Ósk um samráðsfund um landsbyggðarstrætó
Lagt fram bréf frá Vegagerðinni er snýr að endurskoðun á núverandi leiðarkerfi landsbyggðarstrætó. Markmið endurskoðunarinnar er að skoða hverja akstursleið út frá gæðum, nýtni og gagnsemi. Fyrirhuguð er fundarröð til að hitta fulltrúa sveitarfélaga og landshlutasamtaka sem hafa hagsmuni að gæta samkvæmt núverandi leiðarkerfi.
7. Ósk um viðbótarstyrk v. fræðsluferðar
Lögð fram beiðni frá starfsfólki Þjórsárskóla um viðbótarstyrk til námsferðar starfsfólks Þjórsárskóla sem hluti af undirbúningi vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi skólans í samræmi við skólastefnu og áherslur.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um málið.
8. Ósk um lóð í Árnesi undir hóteluppbyggingu.
Rauðukambar ehf. óska eftir lóð í Árnesi undir hótel byggingu, verslun og þjónustu. Horft er til þess að byggingin verði á tveimur til þremur hæðum. Á efri hæðum verði hótelherberbergi en á hluta jarðhæðar verði rými sem henta verslunum, þjónustu og veitingasölu en slíkt rými styrki Árnes sem byggðakjarna. Óskað er eftir að stærð lóðarinnar verði allt að 5.000 fm.
Í samræmi við 18. gr. reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er sveitarstjórn heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum. Ljóst er að allt að 5.000 fm lóð undir byggingu hótels er ekki til í núverandi skipulagi, en unnið er að nýju deiliskipulagi fyrir nýja byggð í Árnesi. Í samræmi við 18. gr. reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps með fimm atkvæðum að veita vilyrði fyrir lóð undir hótel byggingu, verslun og þjónustu til sex mánaða og að gert verði ráð fyrir slíkri lóð í nýju deiliskipulagi fyrir Árnes.
9. Ósk um lóðir í Árnesi fyrir íbúðauppbyggingu
Lögð fram beiðni frá Karli Georg Sigurbjarnasyni og Jóni Kristjánssyni þar sem lýst er yfir vilja til að sækja um lóðir og vinna með sveitarfélaginu að íbúðauppbyggingu sem framundan er í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn tekur vel í erindið og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.
10. Kynning á dagskrá í tilefni 80 ára afmæli lýðveldisins
Lagt fram bréf frá afmælisnefnd um 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins sem vinnur að mótun hátíðardagskrár með ósk um samstarf í tengslum við hátíðardagskrána.
Sveitarstjórn tekur vel í erindið og vísar því til Menningar- og æskulýðsnefndar.
11. Yfirlýsing um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambandsins
Lögð fram til kynningar yfirlýsing um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga í mars 2024 sem ætlað er að greiða fyrir gerð langtímakjarasamninga á vinnumarkaði með það að markmiði að kveða niður vexti og verðbólgu.
12. Áskorun til sveitarstjórna v. kjarasamninga
Lögð fram til kynningar áskorun til sveitarfélaga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varðar yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga sem voru undirritaðir þann 8. mars sl. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar því að búið sé að undirrita langtíma kjarasamninga á almennum markaði sem geti orðið grundvöllur verðstöðugleika til framtíðar.
Gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga. Í áskoruninni eru sveitarfélög hvött til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira og sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Nýjar gjaldskrár sem miða við að gjald hækki ekki meira en um 2,5% frá gjaldskrá 2023 lagðar fram.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að lækka gjaldskrár er varða vistun og fæði í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Nýjar gjaldskrár í leik- og grunnskóla taki gildi 1. apríl 2024.
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Í áskoruninni kemur fram að útfærð verði leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans. Lagt er upp með að kostnaðarþátttaka ríkisins verði 75% af núverandi gjaldskrá skólamáltíða. Sveitarstjórn tekur vel í hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hvetur ríkið til að koma sem fyrst með útfærðar leiðir að gjaldfrjálsum skólamáltíðum.
Húsnæðismál. Í áskoruninni er sérstaklega tekið fram mikilvægi öflugrar íbúðauppbyggingar og að sveitarfélög tryggi nægilegt framboð byggingarsvæða og lóða til skemmri og lengri tíma. Sveitarstjórn tekur undir mikilvægi íbúðauppbyggingar, en nú þegar er búið að úthluta íbúðalóðum fyrir 47 íbúðir sem er um 17% fjölgun íbúða í sveitarfélaginu. Því til viðbótar er í undirbúningi skiplagningu á svæðum fyrir verulega fjölgun íbúða til viðbótar og mun því Skeiða- og Gnúpverjahreppur styðja vel við markmið um öfluga íbúðauppbyggingu til skemmri og lengri tíma.
13. Svæðisskipulag Suðurhálendis
Lögð er fram tillaga að svæðisskipulagi Suðurhálendisins 2022-2042 eftir auglýsingu. Innan tillögunnar er mótuð framtíðarsýn fyrir Suðurhálendið um sterka innviði, umhyggju fyrir auðlindum, ábyrga nýtingu auðlinda, aðgerðir fyrir loftslagið og góða samvinnu. Tillögunni fylgir greinargerð um landslagsgreiningu fyrir Suðurhálendi, sem er fylgirit svæðisskipulagsins. Tillagan nær yfir hálendishluta sveitarfélaganna Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar, og Grímsnes- og Grafningshrepps. Auk þeirra hafa sveitarfélögin Flóahreppur og Árborg tekið þátt í verkefninu. Tillagan var auglýst frá 15. nóvember 2023 til og með 19. janúar 2024. Athugasemdir og umsagnir bárust við tillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins eftir auglýsingu auk samantektar á andsvörum og viðbrögðum svæðisskipulagsnefndar fyrir Suðurhálendið.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum fyrirliggjandi tillögu með framlögðum fylgiskjölum að svæðisskipulagi Suðurhálendis.
14. Fundargerð 276 fundar skipulagsnefndar UTU
Skeiða- og Gnúpverjahreppur; Áhrifasvæði Búrfellslundar og nýtt afþreyingar og ferðamannasvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2403001
Sett er fram skipulagslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Með breytingunni verður mörkuð stefna um áhrifasvæði fyrirhugaðs Búrfellslundar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sett inn nýtt afþreyingar- og ferðamannasvæði austan við Sultartangastöð og skammt vestan Þjórsár. Sveitarfélagið metur stefnu gildandi aðalskipulags þannig að hún komi ekki í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif innan sveitarfélagsins sem verða vegna framkvæmda eða landnotkunar í nágrannasveitarfélögum. Því sé þörf á breyttri stefnu. Stefna vegna áhrifasvæðis Búfellslundar verður á þá leið að öll neikvæð umhverfisáhrif sem kunna að verða vegna fyrirhugaðs Búrfellslundar og geta skert möguleika til landnýtingar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps eru óheimil innan marka sveitarfélagsins. Til dæmis á þetta við um skuggavarp frá vindmyllum, ískast vegna ísingar á spöðum, skerðingu á víðernum, sýnileika og ásýnd vindmylla ásamt hljóðvist. Á afþreyingar- og ferðamannasvæði verður heimilt að vera með skálasvæði, áningarstað, gistingu og veitingar í tengslum við útivist. Gert er ráð fyrir að starfsemi verði rekin allt árið. Stærð svæðis er um 2 ha. Gerð verður breyting á stefnu í greinargerð og sett inn nýtt afþreyingar- og ferðamannasvæði á sveitarfélagsuppdrætti fyrir afrétt.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
15. Fundargerð SVÁ frá 13. febrúar 2024
Tekinn var til umræðu 6 liður í fundargerð, tillögu stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu um skipan formanns og varaformanns í Öldungaráði Uppsveita og Flóa.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að Sigríður Kolbrún Oddsdóttir, Grímsnes- og Grafningshreppi, verði formaður Öldungaráðs Uppsveita og Flóa og að Þröstur Jónsson, Hrunamannahreppi, verði varaformaður. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.
16. Fundargerð 1. fundar framkvæmdanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Fundargerð lögð fram til kynningar.
17. Fundargerð fundar með Vegagerðinni frá 29. febrúar 2024
Fundargerð lögð fram til kynningar.
18. Fundargerð skólanefndar Hrunamannahrepps
Fundargerð lögð fram til kynningar.
19. Fundargerð 5. fundar oddvitanefndar
Fundargerð, ásamt ásreikningi fyrir Laugaráshérað vegna ársins 2023 lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð 18. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu
Fundargerð lögð fram til kynningar.
21. Fundargerð 70. fundar stjórnar Bergrisans.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
22. Fundargerðir 9., 10. og 11. fundar stjórnar Byggðarsafns Árnesinga ásamt ársskýrslu.
Fundargerðir og ársskýrsla lagðar fram til kynningar.
23. Fundargerð stjórnar hússtjórnar Þjóðveldisbæjar frá 7. mars 2024.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
24. Fundargerð 69. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
25. Fundargerð 945. fundar stjórnar Sambands Ísl. Sveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
26. Aðalfundarboð Veiðifélags Þjórsár
Aðalfundur Veiðifélags Þjórsár fyrir árið 2023 verður haldinn á Stracta Hótel, Hellu 27. mars nk. kl.14.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að Haraldur Þór Jónsson sæki fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.
27. Aðalfundarboð Rangárbakka, þjóðaleikvangs íslenska hestsins
Aðalfundur Rangárbakka, þjóðaleikvangs íslenska hestsins ehf. fyrir árið 2023, verður haldinn í Rangárhöllinni á Hellu mánudaginn 25. mars nk. kl. 20:00.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að Gunnar Örn Marteinsson sæki fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.
Fundi slitið kl. 12:50. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 3. apríl, kl. 9.00, í Árnesi.