Sveitarstjórn

47. fundur 03. júlí 2024 kl. 09:00 - 11:40 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Axel Á. Njarðvík
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir

Árnesi, 3. júlí 2024

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202406-0031

 

Mætt til fundar:

Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.

Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 47. sveitarstjórnarfundi

Vinnufundur Héraðsnefndar Árnessýslu.

Fundur m/Landslögum.

Sumarlokun skrifstofunnar.

 

Vilborg Ástráðsdóttir víkur af fundi.

2. Tillaga framkvæmdanefndar um íþróttamiðstöð í Árnesi

​​Þann 21. febrúar stofnaði sveitarstjórn framkvæmdanefnd vegna uppbyggingar skóla- og íþróttasvæðis í Árnesi. Í erindisbréfi nefndarinnar kemur fram að hlutverk nefndarinnar er að vera sveitarstjórn til ráðgjafar varðandi uppbyggingu skóla- og íþróttasvæðis í þéttbýli Árness og þurfa tillögur hennar að berast sveitarstjórn til umfjöllunar og staðfestingar. Nefndin hefur fundað 10 sinnum og unnið að þarfagreiningu og hönnun á íþróttamiðstöð og kjarna sem þjónar þörfum samfélagsins til næstu áratuga. Aðaluppdrættir eru tilbúnir og næstu skref eru að hefja framkvæmdir. Framkvæmdanefnd leggur til við sveitarstjórn að framkvæmdinni verði skipt upp í þrjá áfanga. Í fyrsta áfanga verði húsið byggt og jarðhæð með anddyri, matsal, búningsklefum og íþróttasal tekin í notkun. Byggð verði tengibygging milli íþróttamiðstöðvar og Þjórsárskóla ásamt því að aðkomuvegur, bílastæði og lóð verði frágengin. Í öðrum áfanga verði innréttaður tækjasalur fyrir lóð og upphitunartæki ásamt því að 900fm efri hæð sem mun innihalda skrifstofuaðstöðu verði innréttuð að fullu. Í þriðja áfanga verði byggt nýtt sundlaugarsvæði með 25 metra sundlaug, heitum pottum, leiklaug og rennibrautum. Sundlaugasvæðið mun samnýta anddyri, móttöku og búningsklefa íþróttamiðstöðvarinnar.

Framkvæmdin er yfir viðmiðunarfjárhæð innkaupum opinberra aðila og er því útboðsskyld.

Ljóst er að ekki eru margir aðilar á svæðinu sem hafa getu til að taka að sér slíka framkvæmd í heild sinni og því telur framkvæmdanefnd mikilvægt að útboðinu verði skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga um afmarkaða þætti verksins í samræmi við 53. gr. laga um opinber innkaupa þar sem lögð er áhersla á það í tilskipuninni að liðka fyrir þátttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja í opinberum innkaupum. Í þessu skyni og til að auka samkeppni eru kaupendur hvattir til að skipta niður stórum samningum þannig að stærð samninga henti betur getu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Kostnaður við hönnun á aðaluppdráttum íþróttamiðstöðvarinnar er kominn í um 3 milljónir króna og hefur verkfræðistofan Húmfaxi ehf unnið aðaluppdrættina. Framkvæmdanefndin leggur til að samið verði við verkfræðistofuna Húmfaxa ehf um að verða aðalhönnuður hússins. Einnig leggur framkvæmdanefnd til að Ingvar Þrándarson verði ráðinn byggingarstjóri yfir framkvæmdinni. Að öðru leyti leggur framkvæmdanefndin til að oddvita verði falið að bjóða út alla helstu verkþætti framkvæmdarinnar í fleiri sjálfstæðum samningum um afmarkaða þætti verksins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir samhljóða að hefja fyrsta áfanga byggingar íþróttamiðstöðvar í samræmi við tillögur framkvæmdanefndar. Einnig samþykkir sveitarstjórn samhljóða að ráða verkfræðistofuna Húmfaxa ehf til að verða aðalhönnuð hússins og að ráða Ingvar Þrándarson sem byggingarstjóra. Oddvita falið að undirbúa og hefja útboð fyrstu verkþátta í samræmi við lög um opinber innkaup. Sveitarstjóra falið að ganga frá samningum við ofangreinda aðila um þeirra verkþátt í framkvæmdinni.

 

Vilborg Ástráðsdóttir kemur aftur inná fundinn.

 

3. Erindi frá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps til Brunavarna Árnessýslu

​​Lagt fram bréf stílað á stjórn Brunavarna Árnessýslu er varðar ósk sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps til stjórnar Brunavarna Árnessýslu að slökkviliðsstjóra verði falið að taka saman tölfræði um verkefni síðustu 5 ára. Þannig verði kortlagt hvernig verkefni Brunavarna Árnessýslu skiptist á brunavarnir, slys í umferð, önnur slys, almannavarnir og verkefni tengt flugumferð og sjóumferð. Þegar slík gögn liggja fyrir er það ósk sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að gerð verði tillaga að nýrri kostnaðarskiptingu í samræmi við öll verkefni sem Brunavarnir Árnessýslu sinnir, en ekki horfa einungis til brunabótamats fasteigna og íbúafjölda eins og núverandi kostnaðarskipting er.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að senda framlagt erindi til stjórnar Brunavarna Árnessýslu og ásamt því að senda afrit af bréfinu til sveitarstjóra/bæjarstjóra allra sveitarfélaga sem eru aðilar að Brunavörnum Árnessýslu.

 

4. Húsnæðisreglur í málefnum fatlaðs fólks á þjónustusvæði Bergrisans

​Lagðar fram til samþykktar reglur Bergrisans um húsnæði fyrir fatlað fólk.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum húsnæðisreglur í málefnum fatlaðs fólks á þjónustusvæði Bergrisans.

 

5. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

​​​Lagður fram tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varðar afstöðu sveitarstjórnar til gjaldfrjálsa skólamáltíða frá og með næsta hausti.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að taka upp gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna haustið 2024 í samræmi við viljayfirlýsingu sem ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir þann 7. mars 2024 en þar kom fram að ríkið myndi greiða 75% kostnaðarþáttöku forráðamanna vegna skólamáltíða og sveitarfélögin 25%.

 

6. Bréf frá Jafnréttisstofu

​​​​Lagt fram bréf frá Jafnréttisstofu er varðar ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir erindið og vekur athygli á því að slíkt bil milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla er ekki til staðar hjá sveitarfélaginu. Tekið er á móti börnum frá 12 mánaða aldri í Leikholti, leikskóla Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

7. Umsókn um launað starfsleyfi

Lögð fram umsókn frá starfsmanni um námsleyfi í samræmi við heimildarákvæði í grein 10.5 í kjarasamningi Félags leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga um námsleyfi.

Sveitarstjóra falið að útfæra reglur um umsóknir um launað starfsleyfi fyrir starfsfólk leikskólans. Afgreiðslu málsins fresta til næsta fundar.

 

8. Fundargerð 283. fundar skipulagsnefndar

12. Hjálmholt og Áshildarmýri; Vatnsból og Vatnsverndarsvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2406076

Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Í breytingunni felst skilgreining vatnsbóls og vatnsverndarsvæðis.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

25. Rauðukambar L234185; Vegur að Fjallaböðunum; Framkvæmdarleyfi - 2406069

Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til vegagerðar frá Gestastofu í Þjórsárdal að Fjallaböðunum í Rauðukömbum. Vegurinn er um 9,5 km langur og veglínan í samræmi við skipulagsuppdrætti. Búið er að ganga svæðið til að leggja veginn sem best í landslagið. Vegurinn liggur á mörkum friðlýsts svæðis í Þjórsárdal og fer inn fyrir friðlýsingu næst Fjallaböðunum. Af þessum sökum verður einnig sótt um framkvæmdaleyfi til Umhverfisstofnunar og afrit af umsóknum send Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun og Forsætisráðuneytinu. Vegurinn verður gerður í áföngum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með þremur atkvæðum útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um að umsagnir viðeigandi umsagnaraðila ásamt heimild Umhverfisstofnunar liggi fyrir við útgáfu leyfisins.

 

Axel Á. Njarvík og Gunnar Örn Marteinsson sitja hjá við afgreiðslu málsins

 

26. Húsatóftir 4D (L230548); byggingarheimild; geymsla - 2405072

Móttekin er umsókn þ. 17.05.2024 um byggingarheimild fyrir 44,4 m2 geymslu á landinu Húsatóftir 4D L230548 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Skipulagsnefnd og sveitarstjórn vísuðu málinu í deiliskipulagsgerð. Að beiðni umsækjanda í samráði við skipulagsfulltrúa er málið tekið fyrir að nýju.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar þar sem ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á landinu samkvæmt upplýsingum frá landeigenda. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Komi til uppbyggingar á íveruhúsi á lóðinni telur sveitarstjórn nauðsynlegt að unnið verði deiliskipulag sem tekur til framkvæmdaheimilda innan hennar.

 

9. Fundargerð 112. fundar stjórnar UTU bs.

​Fundargerð lögð fram til kynningar ásamt nýrri gjaldskrá vegna móttöku og hreinsunar á seyru hjá Umhverfis- og tæknisviði uppsveita bs.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum nýja gjaldskrá vegna móttöku og hreinsunar á seyru hjá Umhverfis- og tæknisviði uppsveita bs. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.

 

10. Fundargerð 14. fundar stjórnar Arnardrangans hses.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

​11. Ársreikningur Arnardrangans hses 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

 

12. Fundargerð 74. fundar stjórnar Bergrisans bs.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

13. Fundargerð aukaaðalfundar SASS 7. júní 2024

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

14. Fundargerð 20. fundar stjórnar Héraðsnefndar Árnessýslu

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

15. Fundargerðir framkvæmdanefndar nr. 4-10

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

 

16. Fundargerð 949. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

17. Fundargerð 950. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 11:40. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 7. ágúst, kl. 9.00, í Árnesi.