- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 21. ágúst 2024
Mætt til fundar:
Haraldur Þór Jónsson, oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Gunnhildur Valgeirsdóttir í fjarveru Bjarna H. Ásbjörnssonar, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.
Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Oddviti óskar eftir að bæta einu máli á dagskrá undir afgreiðslu fundargerð skipulagsnefndar, mál Gunnbjarnarholt (L166549); byggingarheimild; starfsmannahús – 2405056 en afgreiðslu málsins var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 5. júní 2024. Samþykkt með þremur atkvæðum að bæta málinu á dagskrá. Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarvík sitja hjá. Verður málið 13. mál á dagskrá fundar. Færast aðrir liðir neðar sem því nemur.
Gunnar Örn Marteinsson óskaði eftir því að mál vegna lokunar á Þjórsárdalsvegi við fjárrekstur yrði bætt við dagskrá fundarins. Var það samþykkt samhljóða af sveitarstjórn og verður málið 17. mál á dagskrá fundar.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla sveitarstjóra á 49. sveitarstjórnarfundi
Fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga.
Fundur með Landslögum.
Prufukeyrsla á sýningu Rauðukamba.
Fundur með Steypustöðinni.
Fundur með Lögmálum.
2. Rekstraruppgjör - 6 mánaða uppgjör
Lagt fram rekstraryfirlit fyrir fyrstu 6 mánuð ársins. Útsvarstekjur hækka um 15,9% fyrstu sex mánuði ársins og heildarskatttekjur eru að hækka um 5,9% á milli ára. Laun og launatengd gjöld eru að hækka um 24% frá sama tíma árið og annar rekstrarkostnaður hækkar um 9,2%.
Búið er að staðfesta nýja kjarasamningi við starfsmenn sem greiða í Foss og Báruna en ekki er búið að semja við Kennarafélag Íslands.
Framkvæmdir hafa gengið vel það sem af er ári. Viðhaldi utanhúss á Skeiðalaug er að mestu lokið og nýir pottar voru teknir í notkun núna í sumar. Framkvæmdum innanhúss í húsnæði félagsheimilis og leikskólans Leikholts í Brautarholti eru að mestu komnar en eftir á að saga fyrir nýrri hurð út á leiksvæði barnanna. Framundan eru svo framkvæmdir á lóðinni sjálfri sen hefja á í áföngum núna á næstunni. Framkvæmdir við Þjórsárskóla gengu framar vonum í sumar og var breytingum á húsnæðinu að mestu lokið þegar starfsmenn skólans komu til starfa. Breytingar standa enn yfir á kjallara hússins þar sem staðsett verður fablab smiðja og félagsmiðstöð ungmenna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Heildarframkvæmdir fyrstu sex mánuði ársins nema, samtals 46. millj kr.
Veturinn lítur vel út, framundan mun hefjast bygging nýs íþróttahúss. Mikil uppbygging er framundan í sveitarfélaginu. Engin lán hafa verið tekin þar sem af er ári og staða handbærs fjár er góð.
3. Reglur um launað námsleyfi starfsfólks í leikskóla
Reglur um launað námsleyfi háskólamenntaðs starfsfólks í leikskóla lagðar fram til staðfestingar. Með útgáfu reglnanna er tilgangurinn að skapa háskólamenntuðu starfsfólki leikskóla sveitarfélagsins möguleika á að afla sér viðbótarþekkingar í leikskólakennarafræðum eða fræðum sem nýtast á sérsviði þeirra í starfi leikskóla.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum reglur um launað námsleyfi starfsfólks í leikskóla.
4. Bréf til sveitarstjórnar varðandi land Húsatófta 1E
Lagt fram bréf til sveitarstjórnar frá Lex lögmannsstofu fyrir hönd Einars G. Harðarsonar er varðar skipulag og nýtingu á landi Húsatófta 1E.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra í samráði við lögmann sveitarfélagsins að svara erindinu.
5. Úrskurður Umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2024
Lagður fram til kynningar úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er varðar kæru á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma.
6. Erindi Hólasmára ehf
Lögð er fram umsókn Hólasmára ehf. um framkvæmdaleyfi, sem formlega barst 20. ágúst 2024, vegna efnistöku sem nemur 25-45.000 m3. Erindið barst í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi framkvæmdaleyfi vegna áframhaldandi efnistöku í tilraunaskyni í Búrfellshólma upp á 50.000 m3 úr gildi. Var það mat meirihluta nefndarinnar að taka hefði þurft rökstudda afstöðu til þess í upphafi hvort úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um vikurnámu í Hekluhafi við Búrfell í Gnúpverjahreppi frá 1. mars 2000 og umhverfismat þeirrar framkvæmdar sem þar var fjallað um, næði til þeirrar framkvæmdar sem heimiluð var með hinu kærða leyfi og meta hvort framkvæmdin yrði þá eftir atvikum felld í þann farveg að tilkynnt yrði um áformin til Skipulagsstofnunar sem nýja eða breytta framkvæmd.
Samkvæmt umsókn Hólasmára ehf. er efnistakan enn takmarkaðri en ráðgert var þegar upphaflegt erindi barst sveitarstjórn eða 25-45.000 m3. Efnistakan mun fara fram á núverandi námusvæði í skilgreindu aðalskipulagi og spanna svæði sem er innan við 1 hektari og því ekki stærra en 0,4% af þegar skilgreindu námusvæði í aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Efnistakan á svæðinu sætti umhverfismati í tíð eldri laga. Efnistakan er óveruleg að umfangi í samanburði við þá framkvæmd sem var háð mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi var veitt fyrir í heild sinni og felur ekki í sér aukið álag á umhverfið og breytir ekki ásýnd núverandi námu. Efnistakan innan rúmmáls- og flatarmálsviðmiða sem greinir í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. liði 2.02 og 13.02 í viðauka við lögin. Því er ekki skylt að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar sem nýja eða breytta framkvæmd, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021.
Óskað er eftir því að framkvæmdaleyfi verði gefið út á grundvelli 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins 2017-2029 gerir grein fyrir námunni, sbr. kafla 2.3.9; að um sé að ræða námu E33 sem geymi 2.000.000 m3 af efni á 235 ha svæði námu. Náman hefur ekki verið fullnýtt.
Náman er innan þjóðlendu og fyrir liggur fullnægjandi heimild frá forsætisráðuneytinu fyrir efnistökunni sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun um marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Efnistakan felur ekki í sér hnignun vatnsgæða sem fara í bága við meginreglur laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né heldur fer hún í bága við skilyrði laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fyrir framkvæmdum í grennd við veiðivötn. Efnistakan er ekki háð leyfi Orkustofnunar, sbr. 1. mgr. 8. gr. a. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem sveitarstjórn er falið það hlutverk að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku.
Eru því skilyrði til útgáfu framkvæmdaleyfis í samræmi við umsókn Hólasmára ehf., til allt að 7 mánaða og til töku allt að 45.000 m3 vikurs. Hvert svæði innan hins afmarkaða efnistökusvæðis skal unnið niður á hraunbotn. Ganga skal frá efnistökusvæði strax og efnistöku lýkur, þannig að það falli aftur að umhverfi sínu og líkist sem mest landformum og nágrenni þess. Leitast skal við að jafna út efni sem mokað er ofan af aftur í botn þar sem búið er að taka vikurefni þannig að ummerki efnistökunnar séu sem minnst á þeim svæðum þar sem búið er að nýta upp allan vikur. Vegna almenns frágangs efnistöku skuli jafnframt miða við leiðbeiningar í Námur – efnistaka og frágangur gefið út m.a. af Vegagerð og Umhverfisráðuneyti.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólmsnámu fyrir allt að 45.000 m3.
7. Siðareglur starfsfólks Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Lagðar fram siðareglur starfsfólks í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Markmið með reglum þessum er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að starfsfólk Skeiða- og Gnúpverjahrepps sýni af sér við störf sín fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps og efla þannig fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Reglur þessar ná alls starfsfólks sveitarfélagsins og skal hver og einn gæta að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir siðareglum þessum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum siðareglur starfsfólks Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sveitarstjóra falið að kynna reglurnar fyrir starfsfólki sveitarfélagsins.
8. Efnistaka í Sandártungu - umsagnarbeiðni
Lögð fram umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun um fyrirhugað efnistökusvæði í Sandártungu.
Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða efnistöku í Sandártungu.
Axel Á Njarðvík sat hjá afgreiðslu málsins og bókaði eftirfarandi:
Ég er á móti því að heimiluð sé umfangsmikil efnistaka á svæði sem er friðlýst menningarlandslag og náttúrufyrirbæri sem njóti sérstakrar verndar.
9. Umsagnarbeiðni Flóahrepps v. aðalskipulagsbreytingar
Lögð fram umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun er varðar vatnsból og vatnsvernarsvæði við Hjálmholt og Áshildarmýri.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemdir við umrædda aðalskipulagsbreytingu.
10. Ársfundur Arnardrangans hses
Aðalfundur Arnardrangs hses verður haldinn á teams fimmtudaginn 29. ágúst kl. 13:00. Skipa þarf fulltrúa sem fer með atkvæðisrétt Skeiða- og Gnúpverjahrepps á fundinum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur Haraldi Þór Jónssyni, oddvita, með fimm atkvæðum, að fara með atkvæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps á aðalfundi Arnardrangs hses.
11. Aðalfundur Vottunarstofunnar Túns
Aðalfundur Vottunarstofunnar Túns ehf verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst kl. 15:30 á Grand Hótel. Skipa þarf fulltrúa sem fer með atkvæðisrétt Skeiða- og Gnúpverjahrepps á fundinum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur Haraldi Þór Jónssyni, oddvita, með fimm atkvæðum, að fara með atkvæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps á aðalfundi Vottunarstofunnar Túns ehf.
12. Fundargerð skipulagsnefndar nr. 285
Miðhraunsvegur 2 L231673; Hraunból; Breytt heiti lóðar - 2408016
Lögð er fram beiðni um breytt heiti lóðar Miðhraunsvegar 2, L231673. Í breytingunni felst að lóðin fái staðfangið Hraunból. Fyrir liggur rökstuðningur eigenda fyrir nýju staðfangi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við breytt staðfang lóðarinnar. Komi til þess til framtíðar að fleiri lóðir verði við götuna sem lóðin stendur við taki þær upp sama staðfang með viðeigandi hlaupandi númerum í takt við reglugerð um skráningu staðfanga.
13. Gunnbjarnarholt (L166549); byggingarheimild; gestahús – 2405056
Umsókn um byggingarheimild fyrir starfsmannahúsi að Gunnbjarnarholti var lögð fram á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 5. júní síðastliðinn þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Staðsetning hússins var ekki talin fullnægjandi samkvæmt afstöðumynd. Lögð er fram uppfærð umsókn þar sem sótt er um íbúðarhús í stað starfsmannahúss innan íbúðarsvæðis á lóð Sandholts 1, L228777.
Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við framlagða beiðni á grundvelli gildandi deiliskipulags svæðisins. Byggingarfulltrúa falin útgáfa byggingarleyfis með fyrirvara um að fullnægjandi hönnunargögn berist embætti UTU.
Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík sitja hjá við afgreiðslu málsins og telja að málið eigi að fara í formlegan farveg fyrir afgreiðslu skipulagsnefndar UTU áður en sveitarstjórn tekur afstöðu til málsins.
14. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 18.08.2024 24-209
Fundargerð lögð fram til kynningar.
15. Samningur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Skaftholti með langvarandi stuðningsþarfir
Lagður fram samningur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Skaftholti með langvarandi stuðningsþarfir.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagðan samning og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn.
16. Fundargerðir stjórnar Markaðsstofu Suðurlands nr. 1 og 2.
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
17. Lokun Þjórsárdalsvegar vegna fjárrekstrar
Þann 2. ágúst 2023 bókaði sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að hún teldi ekki æskilegt að umferð um Þjórsárdalsveg sé lokuð af vegna fjárrekstrar og óskaði eftir útfærslu að breytingum til framtíðar á fjárrekstri um veginn af hálfu Afréttamálanefndar Gnúpverja og Afréttamálafélags Skeiða og Flóa. Ekki hefur verið brugðist við af hálfu Afréttamálanefndar Gnúpverja og Afréttamálafélags Skeiða og Flóa.
Ítrekar sveitarstjórn erindi sitt til Afréttamálanefndar Gnúpverja og Afréttamálafélags Skeiða og Flóa um útfærslur til breytingar á þessum fjárrekstri til framtíðar og óskar sveitarstjórn eftir formlegum svörum fyrir næsta fund sveitarstjórnar hinn 4. september nk.
Fundi slitið kl. 11.45. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 4. september nk., kl. 9.00, í Árnesi.