- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
Fundur með Húnabyggð.
Fundir milliþinganefnda SASS.
Íþróttamiðstöð - framkvæmdir og útboð.
Framkvæmdir við félagsmiðstöð/fablab í Þjórsárskóla.
Vinnufundur v/deiliskipulag Árnesi.3
Vinnufundur Héraðsnefndar Árnesinga.
Styrkur Rauðukamba v/Fablab.
Kjördæmavika.
Vígsla á Stöng.
Fjármalaráðstefna framundan.
Árshátíð Skogn framundan.
2. Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2025 og 2026-2028
Lagt fram minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlanagerðar sem greiningarteymi þróunarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur unnið. Fjárhagsáætlun sveitarfélaga byggir á forsendum um hvernig hagstærðir muni þróast yfir það tímabil sem áætlunin tekur til. Í lögum um opinber fjármál (nr. 123/2015) er lögð áhersla á að fjárhagsáætlanir skuli byggðar á traustum forsendum og gögnum. Í reglugerð nr. 1212/2015 segir með beinum hætti í 17. gr. að við vinnslu fjárhagsáætlana skuli sveitarfélög styðjast við þjóðhagsspár Hagstofu Íslands þar sem við á. Til viðbótar getur verið gagnlegt að styðjast við þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands og greiningardeilda viðskiptabankanna, auk mannfjöldaspár Hagstofunnar og Byggðastofnunar. Spárnar gefa vísbendingar um skattheimtu sveitarfélaga á komandi árum. Auk þess sem að verðlagsþróun og gerðir kjarasamningar nýtast vel til áætlunar um þróun kostnaðarliða.
Þó er vert að hafa í huga að spám fylgir ætíð óvissa um raunverulega framvindu. Í áætlunargerðinni í ár er verðbólgu- og vaxtaþróun mikilli óvissu undirorpin og í því samhengi þróun húsnæðisverðs. Þessu til viðbótar á enn eftir að ganga frá langtímakjarasamningum við nær helming starfsfólks sveitarfélaga.
Ætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga með minnisblaði þessu er að styðja við fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga. Von er á uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofa Íslands þegar líður að vetri og mun minnisblaðið vera uppfært með tilliti til þess.
3. Rekstrarskýrsla janúar – ágúst
Lagt fram til kynningar uppgjör sveitarsjóðs og B hluta fyrirtækja, að undanskyldu uppgjöri fyrir Hitaveitu Brautarholts og Fjarskiptafélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps, skv. bókhaldi fyrir fyrstu 8 mánuði ársins. Niðurstaða uppgjörs sýnir rekstrarafgang að fjárhæð 127,6 millj kr. eftir afskriftir og fjármagnsliði samanber 161,4 millj kr. árið áður. Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um 5% frá upphafi árs. Útsvarstekjur hækka um 11,94% og tekjur af fasteignaskatti um 9,5%. Launakostaður hækkar um 28,2% og annar rekstrarkostnaður um 11,69%. Búið er að veita styrki í formi tómstundastyrks, afsláttar af fasteignagjöldum til eldri borgara og styrki til félagasamtaka fyrir um 4,7 millj kr. Þegar tekið hefur verið tillit til uppgjörs sem tekjufært var í júní 2023 og í maí 2024 sést að undirliggjandi rekstur er svipaður og hann var árið áður.
Viðhald á fasteignum sveitarfélagsins halda áfram. Viðhald á múrverki við Skeiðalaug er nú lokið og núna á haustmánuðum var ráðist í viðhald á salerni í félagsheimilinu Árnesi. Sú vinna er á lokametrunum. Mikil viðhaldsþörf hefur verið á fasteignum sveitarfélagsins og er sú vinna langt komin þó hún sé ekki að öllu leyti lokið.
Framkvæmdir á fasteignum sveitarfélagsins hafa verið í fullum gangi og er búið að fjárfesta fyrir um 120 millj. kr það sem af er ári, þar af er búið að taka í gagnið nýja potta í Skeiðalaug og er vinna hafin við nýbyggingu við húsið. Gatnagerð í Vallarbraut er að mestu lokið fyrir utan gangstíga. Búið er að gera töluverðar breytingar á Þjórsárskóla sem heppnuðust mjög vel, vinna er við nýja félagsmiðstöð er á lokametrunum, nýr hoppubelgur og aparóla voru tekin í gagnið núna í lok ágúst og framkvæmdir við Íþróttamiðstöð í Árnesi er hafin. Segja má að allar framkvæmdir í og við Þjórsárskóla hafi tekist vonum framar og húsnæðið í góðu ásigkomulegi og í stakk búið til að taka við þeim breytingum sem framundan eru.
Það er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur til tekist í öllu viðhaldi og framkvæmdum á árinu. Mikil uppbygging er nú framundan. Deiliskipulagsvinna í Árnesi er langt komin og framtíðin er björt.
4. Viðauki við samning um skólagöngu nemenda í Flúðaskóla
Lagður fram til staðfestingar sveitarstjórnar viðauki við samning um skólagöngu nemenda Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Flúðaskóla. Í viðaukanum er útlistað hvernig staðið verði að uppgjöri vegna núvarandi samnings um skólagöngu sem lýkur vorið 2025 ásamt því hvernig staðið verði að skólagöngu nemenda fyrir skólaárið 2025-2026.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagðan viðauka við samning um skólagöngu nemenda í Flúðaskóla og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn.
5. Loftslagsstefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Loftslagsstefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps lögð fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn. Tilgangur loftslagsstefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi sveitarfélagsins. Niðurstaðan er byggð á vinnu skrifstofu sveitarfélagsins, sveitarstjórnar, stjórnenda og nefndamanna að nýrri framtíðarsýn, aðgerðum og verkefnum til að draga úr losun samfélagsins.
Í stefnunni er tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Loftslagsstefna sem hluti af metnaðarfullri Umhverfis- og Auðlindastefnu leggur þar með grunn að öðrum áætlunum og stefnum sveitarfélagsins og skal vera augljós vegvísir við ákvarðanatöku í daglegum rekstri sveitarfélagsins.
Í fyrstu útgáfu Loftslagsstefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er einkum litið til eigin reksturs sveitarfélagsins með áherslu á samgöngur, orkunotkun og úrgangsmál en auk þess vitundarvakningu íbúa og starfsfólks sveitarfélagsins. Fyrsta útgáfan er því aðeins upphafsskrefið á langri vegferð til sjálfbærara samfélags og kolefnishlutlausum rekstri sveitarfélagsins 2040.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar loftslagsstefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps til síðari umræðu í sveitarstjórn.
6. Bréf til sveitarstjórnar frá Umboðsmanni Alþingis - mál 12634/2024
Lagt fram lokabréf frá Umboðsmanni Alþingis er varðar mál nr. 12634/2024. Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis er að ekki er tilefni til athugasemda við vinnubrögð þáverandi sveitarstjóra og lýkur Umboðsmaður Alþingis umfjöllun um málið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
7. Skipulag vegna Húsatófta 1E
Lagt fram til kynningar fyrir sveitarstjórn svarbréf Landslaga er varðar erindi frá landeiganda Húsatófta 1E, en á sveitarstjórnarfundi 21. ágúst síðastliðinn fól sveitarstjórn sveitarstjóra í samráði við lögmenn sveitarfélagsins að svara erindi landeiganda Húsatófta 1E.
8. Drög að samningi við Landnýtingu
Þann 16. ágúst 2023 var samþykkt samkomulag í sveitarstjórn við Landnýtingu ehf um uppbyggingu á matvælaframleiðslu í Árnesi. Í samkomulaginu var stefnt að undirritun skuldbindandi samnings innan 12 mánaða.
Forsvarsmenn Landnýtingar hafa unnið að undirbúningi verkefnisins frá þeim tíma og eru því lögð fram núna drög að samningi við Landnýtingu vegna uppbyggingar á matvælaframleiðslu í Árnesi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps óskar eftir að fá fulltrúa Landnýtingar á næsta fund sveitarstjórnar til frekari umræðu um verkefnið.
9. Dvalarheimili fyrir aldraða
Ályktun félagsins 60 plús í Laugardal um nýtingu húsnæðis Háskólans á Laugarvatni sem dvalarheimili aldraðra lögð fram. Þar er skorað á ríkið að nýta húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni sem dvalarheimili aldraðra.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur undir með félaginu 60 plús í Laugardal og hvetur heilbrigðisyfirvöld til að skoða þann möguleika á að nýta húsnæðið undir dvalarheimili fyrir aldraða.
10. Fjölmenning og inngildingaráætlanir á Suðurlandi
Lagt fram erindi frá SASS er varðar boð um þátttöku í verkefni sem hefur það að markmiði að efla sjálfbæra lýðfræðilega þróun og inngildingu erlendra íbúa á Suðurlandi. Verkefnið miðar að því að aðstoða sveitarfélögin á Suðurlandi við að móta og innleiða móttökuáætlanir fyrir nýja íbúa, sem stuðla að aukinni inngildingu íbúa og efla jákvæða byggðaþróun.
Óskað er eftir að sveitarfélögin á Suðurlandi tilnefni tengiliði til þátttöku í samráðshópi, sem mun miðla reynslu og þekkingu sín á milli. Tengiliðurinn tekur þátt í reglubundnum fundum, deilir þar stöðu og þróun með öðrum tengiliðum sveitarfélaga í formi jafningjafræðslu, líkt og
gert hefur verið í sveitarfélögunum sem komið hafa að verkefninu á fyrri stigum. Eins verður á sumum þessara funda boðið upp á fræðsluerindi og önnur viðeigandi upplýsingamiðlun sem tengist málaflokknum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tilnefnir Línu Björg Tryggvadóttir sem tengilið fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
11. Aðalfundarboð Bergrisans bs 2024
Stjórn Bergrisans bs. boðar til aðalfundar félagsins sem haldinn verður á Teams, mánudaginn 14. október kl. 13. Aðalfulltrúar hafa atkvæðarétt á fundinum og er fjöldi fulltrúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps þrír.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skipar sem aðalmenn Sylvíu Karen Heimisdóttur, Harald Þór Jónson og Bjarna H. Ásbjörnsson. Til vara skipar sveitarstjórn Gunnar Örn Marteinsson, Vilborgu Ástráðsdóttur og Gerði Stefánsdóttur.
12. Fundargerð 288. fundar skipulagsnefndar
Reykir L166491; Reykir 2 (ný lóð), Reykir 1 (áður 1 lóð) L194036; Stofnun og staðfesting á afmörkun lóða - 2409043
Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu, dags. 10.09.2024, er varðar stofnun lóðar og staðfestingu á afmörkun þegar stofnaðrar lóðar ásamt staðfangabreytingu. Annars vegar er óskað eftir að stofna 3.300 fm lóð utan um þegar byggt íbúðarhús, Reykir 2, úr landi Reykja L166491 og hins vegar óskað eftir staðfestingu á hnitsettri afmörkun íbúðarhúsalóðarinnar Reykir 1 lóð L194036 sem ekki hefur legið fyrir áður. Lóðin er skráð með stærðina 0,0 í fasteignaskrá en verður 3.465 fm skv. fyrirliggjandi merkjalýsingu. Jafnframt er óskað eftir að Reykir 1 lóð fái staðfangið Reykir 1.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við framlagða merkjalýsingu og samþykkir hana á grundvelli reglugerða um merki fasteigna nr. 160/2024. Sveitarstjórn bendir á að framkvæmdir innan lóðar eru að jafnaði háðar gerð deiliskipulags sem tekur til svæðisins.
Hvammsvirkjun; Vatnsaflsvirkjun í Þjórsá; Framkvæmdaleyfi - 2409040
Lögð er fram umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar sem staðsett verður í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra. Í framkvæmdinni felst uppbygging á virkjun Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Inntakslón hennar, Hagalón, verður í farvegi Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Lónið verður í um 116 m y.s. og um 4 km2 að stærð og rúmmál lónsins verður um 13,2 milljón m3. Stöðvarhús verður að mestu leyti neðanjarðar við norðurenda Skarðsfjalls, í landi Hvamms 1 í Landsveit. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun er vatnsaflsvirkjun staðsett á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár þar sem í dag eru sjö vatnsaflsstöðvar og verður virkjunin áttunda og neðsta stöðin. Hvammsvirkjun mun nýta allt að 352 m3/s rennsli og 32 m fall Þjórsár á um 9 km kafla frá svokölluðu Yrjaskeri, rétt ofan við bæinn Haga, og niður fyrir Ölmóðsey, austan við Þjórsárholt. Virkjunin nýtir miðlað rennsli Þjórsár frá lónunum ofar á vatnasviðinu. Hvammsvirkjun er staðsett í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og verða flest mannvirki innan Rangárþings ytra. Gert er ráð fyrir að afl virkjunar verði 95 MW og árleg orkuvinnsla um 740 GWh. Með umsókninni er lögð fram tillaga greinargerðar um framkvæmdina, sem unnin er með vísan til 3. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda- og áætlana nr. 111/2021 þar sem tiltekið er að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem m.a. skal gerð er rökstudd grein fyrir samræmi framkvæmdarinnar við skipulagsáætlanir og við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar.
Þar sem umsókn um framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar á eftir að fara í umfjöllun í Loftslags- og umhverfisnefnd er afgreiðslu málsins frestað.
Gerður Stefánsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun við málið:
Hvammsvirkjun er bæði skipulagsmál sem og umhverfismál. Telja má óeðlilegt að skipulagsnefnd UTU hlutist til um hvort gefið verði út framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar í okkar sveit. Eðlilegra væri að að skipulagsnefnd UTU álykti um að skipulag sé í samræmi við framkvæmdina en ekki hvort gefa eigi út framkvæmdaleyfi.
13. Fundargerð 8. fundar oddvitanefndar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Dagskrárliður 1; drög að samningi við ÍBU.
Fyrir liggja drög að samningi við ÍBU. Umræður urðu um samninginn á fundi oddvitanefndar.
Oddvitanefndin leggur til við sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna að sveitarstjórum sveitarfélaganna verði falið að klára samninga við ÍBU fyrir fjárhagsáætlunarvinnu haustsins.
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.
Dagskrárliður 2; Drög að samningi um umsjón jarðarinnar Laugarás.
Fyrir liggja drög að samningi um umsjón jarðarinnar Laugarás í Bláskógabyggð sem er í eigu Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps. Umræður urðu um samninginn og lagðar fram tillögur um breytingu á samningi. Jafnframt varð umræða um framtíðarsýn á jörðinni Laugarási og mögulega sölu.
Oddvitanefndin samþykkir samhljóða samninginn með fyrirvara um breytingarnar og vísar honum til samþykktar til sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna.
Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn.
14. Fundargerð 14. fundar skólanefndar
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
15. Fundargerð 12. fundar skólanefndar Hrunamannahrepps
Fundargerð lögð fram til kynningar.
16. Fundargerð 16. fundar afréttarmálanefndar
Fundargerð lögð fram til kynningar. Í fundargerðinni kemur fram að Gylfi Sigríðarson, formaður nefndarinnar, hefur óskað eftir lausn frá störfum nefndarinnar, þá skipar sveitarstjórn Sigurð Unnar Sigurðsson til að taka sæti aðalmanns. Varamaður verður skipaður á næsta fundi sveitarstjórnar.
17. Fundargerð 16. fundar stjórnar Arnardranga hses
Fundargerð lögð fram til kynningar.
18. Fundargerð 21. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu
Fundargerð lögð fram til kynningar.
19. Fundargerð 238. fundar Heilbrigðisnefndar suðurlands
Fundargerð lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð 613. fundar stjórnar SASS
Fundargerð lögð fram til kynningar.
21. Fundargerð 327. fundar stjórnar SOS
Fundargerð lögð fram til kynningar.
22. Fundargerð 76. fundar stjórnar Bergrisans hses
Fundargerð lögð fram til kynningar.
23. Fundargerð 17. fundar stjórnar Arnardranga hses
Fundargerð lögð fram til kynningar.
24. Fundargerð 7. fundar Framkvæmdaráðs almannavarna Árnessýslu
Fundargerð lögð fram til kynningar.
25. Fundargerð aðalfundar Vottunarstofunnar Túns ehf. 2024
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Fundi slitið kl. 12:10. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 16. október, kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.