Sveitarstjórn

60. fundur 05. febrúar 2025 kl. 09:00 - 12:39 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Axel Á Njarðvík
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Árnesi, 5. febrúar 2025

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202501-0003

Fundargerð:

60. sveitarstjórnarfundur

 

Mætt til fundar:

Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.

Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla oddvita á 60. sveitarstjórnarfundi

Oddviti fer yfir verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.


2. Samstarf um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum stórframkvæmda

​​Lagt fram minnisblað er snýr að samstarfi Land- og ferðamálafræði Háskóla Íslands og Bláa lónsins um rannsóknir á áhrifum uppbyggingar áfangastaðar í Þjórsárdal. Markmiðið með rannsókn væri að kanna samfélagsleg áhrif sem komandi framkvæmdir munu hafa á samfélagið á komandi árum. Óskað er eftir samstarfi við sveitarfélagið í verkefninu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur vel í þátttöku í verkefninu og felur oddvita að vinna málið áfram.

 

3. Tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna

​Í samráðsgátt stjórnvalda er nú í síðara umsagnarferli tillögur að flokkun vindorkukosta. Í meðfylgjandi greinargerð setur verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar fram tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna, þ.e. Alviðra, Garpsdalur, Hnotasteinn, Hrútavirkjun, Hrútmúlavirkjun, Mosfellsheiðarvirkjun I, Mosfellsheiðarvirkjun II, Reykjanesgarður, Sólheimar og Vindheimavirkjun. Skila þarf inn umsögnum fyrir 24. apríl 2025.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur oddvita að vinna umsögn fyrir sveitarstjórn í samræmi við umræður á fundinum og leggja fram fyrir sveitarstjórn.

 


4. Uppbygging á leiguíbúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

​Lögð fram drög að viljayfirlýsingu um uppbyggingu á leiguíbúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem Leigufélagið Bríet er tilbúið að ráðast í á þessu ári. Með því móti kæmu í notkun þrjár íbúðir fyrir almennan leigumarkað á hagkvæmu verði á þessu ári. Forsenda samkomulagsins er að sveitarfélagið útvegi lóðir undir íbúðirnar án endurgjalds og þannig styrkja við uppbyggingu á leigumarkaði án hagnaðarsjónarmiða. Markmið Bríetar að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina og í samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Bríet er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, stofnað að norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónamiða.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar áhuga Leigufélagsins Bríetar að koma að uppbyggingu á hagkvæmu leiguhúsnæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita Leigufélaginu Bríeti vilyrði fyrir lóð undir þriggja íbúða raðhús án endurgjalds og þannig stuðla að uppbyggingu íbúða á leigumarkaði án hagnaðarsjónarmiða. Sveitarstjóra falið að undirrita viljayfirlýsinguna.

 

5. Deiliskipulag í Árnesi

​​Inná fundinn í gegnum fjarfundarbúnað kemur frá Envalys Páll Líndal, dr. í umhverfissálfræði og Anna Leoniak arkitekt. Frá íbúafundinum sem haldinn var þann 4. desember um deiliskipulagið hefur vinnan haldið áfram að þróun skipulagsins. Vinnan er nú langt komin og tímabært að hefja lögformlegt deiliskipulagsferli með það að markmiði að nýtt skipulag taki gildi í sumar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktir með fimm atkvæðum að hefja lögformlegt deiliskipulagsferli á nýju deiliskipulagi fyrir Árnes. Haldinn verði íbúafundur til að kynna skipulagið þegar fullmótaðar tillögur liggja fyrir.

 

6. Íbúðabyggingar í Árnesi og Brautarholti

​​​​Samkvæmt lóðaleigusamningum um íbúðalóðir sem úthlutað hefur verið í Árnesi og Brautarholti kemur fram að frá undirritun lóðaleigusamnings skuli framkvæmdir hefjast innan árs og vera lokið innan tveggja ára. Fullnægi leigutaki ekki ákvæðum þessarar greinar er sveitarstjórn heimilt að láta vinna þetta verk á kostnað leigutaka. Nú eru framkvæmdir bæði í Árnesi og Brautarholti komnar 1-2 ár fram yfir þau tímamörk sem tiltekin eru í lóðaleigusamningum og því mikilvægt krefja framkvæmdaraðila um skýr svör um hvenær framkvæmdum muni ljúka.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að hafa samband við framkvæmdaraðila og óska eftir tímasettri framkvæmdaáætlun og staðfestingu á hvenær áætluð verklok verða.

 

7. Umboð til undirritunar merkjalýsinga

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að veita hér með Vigfúsi Þór Hróbjartssyni, skipulagsfulltrúa Umhverfis- og tæknissviðs Uppsveita, umboð til að undirrita, fullgilda og ljúka við alla nauðsynlega skjalagerð í tengslum við merkjalýsingar skv. lögum nr. 6/2001 um skráningu merki og mat fasteigna, þar sem Skeiða- og Gnúpverjahreppur er landeigandi. Umboð þetta gildir til loka núverandi kjörtímabils, 31. maí 2026.

Axel Á. Njarðvík greiðir atkvæði gegn afgreiðslu málsins.

 

8. Áskorun á sveitarfélög frá FÍÆT

 

Lögð fram ályktun á haustfundi Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi vegna sölu áfengis á íþróttaviðburðum. FÍÆT lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum á Íslandi. Íþróttastarf á Íslandi er mikilvægur og öflugur vettvangur heilsueflingar, forvarna og félagslegs þroska, sérstaklega meðal barna og ungmenna. FÍÆT telur að sala á áfengi á íþróttaviðburðum gangi þvert gegn tilgangi íþrótta og sendi röng

skilaboð um tilgang íþróttastarfseminnar, sérstaklega til barna og ungmenna.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur heilshugar undir mikilvægi þess að áfengissala eigi ekki heima á íþróttaviðburðum.

 

9. Beiðni um styrk frá Miðstöð slysavarna barna

Lögð fram beiðni um styrk frá Miðstöð slysavarna barna (msb.is). Óskað er eftir styrk að upphæð 50.000 kr. til að standa straum af kostnaði við gerð myndbandsútgáfu af námskeiði.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að styrkja verkefnið um 50.000 kr. með þremur atkvæðum.

 

Axel Á. Njarðvík og Bjarni Hlynur Ásbjörnsson greiða atkvæði gegn styrkveitingunni.

Styrkveitingin rúmast innan fjárhagsáætlunar.

 

10. Húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2025

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti húsnæðisáætlun 2025 á fundi sveitarstjórnar 22. janúar. Í framhaldi af því hefur HMS staðfest áætlunina sem nú er lögð fram til endanlegrar staðfestingar sveitarstjórna.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum húsnæðisáætlun fyrir árið 2025 eftir staðfestingu HMS.

 

 

11. Fundargerð 295. fundar skipulagsnefndar

Rauðukambar L234185, Fjallaböð Þjórsárdal; Tvær borholur og lagnir; Framkvæmdarleyfi - 2501040

Lögð er fram umsókn um breytingu á framkvæmdaleyfi sem tekur til borunar við Rauðukamba L234185 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sótt er um leyfi til að bora niðurdælingarholurnar SL-11 og SL12. Lagnaleiðir til og frá borholum hafa nú verið teiknaðar og sótt er um leyfi fyrir þeim. Í fyrri umsóknum um borholur lágu lagnaleiðir ekki fyrir. Þær hafa nú verið hannaðar og er gerð grein fyrir þeim á meðfylgjandi afstöðumynd og lagnauppdráttum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 4 atkvæðum útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um samþykki Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda á friðlýstum svæðum. Fyrir liggja umsagnir forsætisráðuneytisins og umsögn loftslags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins vegna breytinga á leyfinu. Samþykki Minjastofnunar liggur fyrir vegna málsins.

 

Axel Á. Njarðvík greiðir atkvæði gegn afgreiðslu málsins og vísar í fyrri bókanir um málið.

 

Hvammsvirkjun; Efnistökusvæði E26, aukin heimild; Aðalskipulagsbreyting - 2501068

Lögð er fram beiðni frá Landsvirkjun sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps er varðar auknar heimildir fyrir efnistöku úr námu E26 á aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt núverandi stefnumörkun er gert ráð fyrir allt að 500.000 m3 efnistöku sem verður 950.000 m3 eftir breytingu. Efnið verður fengið innan framkvæmdasvæðis Hvammsvirkjunar, sem styttir efnisflutninga verulega og minni akstur eykur umferðaröryggi. Efnið verður jafnframt tekið af svæði sem búið er að heimila að raska með því að sökkva því undir inntakslón Hvammsvirkjunar. Efnistökusvæðin verða því lítt sýnileg að framkvæmdum loknum svo engin breyting verður á ásýndaráhrifum frá því sem búið er að heimila. Framkvæmdaraðili telur ólíklegt að finna aðra valkosti í nágrenninu sem bjóða upp á sama efnismagn með minni umhverfisáhrif. Aðgengi að efnistökusvæðunum er gott og eru skipulagðir vegir eða vinnuvegir að þeim. Efnistökusvæðin munu leggjast af eftir að Hvammslón verður tekið í notkun. Samhliða eru mörk á milli sveitarfélaga samræmd.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að gera ekki athugasemd við vinnslu skipulagslýsingar aðalskipulagsbreytingar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem tekur til aukinna heimilda fyrir efnistöku úr námu E26.

 

 

Axel Á Njarðvík gerir athugasemd við vinnslu skipulagslýsingar og leggur fram eftirfarandi bókun:

Í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur dags 15. janúar 2024 mál nr. E-2457/2024 þá var ákvörðun Orkustofnunnar frá 12. september 2024 um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka raforkuverið Hvammsvirkjun ógild, þá er fallið úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn veitti Landsvirkjun þann 24. október 2024 fyrir Hvammsvirkjun. Framkvæmdaleyfið er því fallið úr gildi og ekki rétt að ganga lengra að sinni.

 

Reykir L166491; Frístundabyggð; Deiliskipulag - 2411063

Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til Reykja L166491 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eftir kynningu. Í deiliskipulaginu felst að skilgreindar verða fjórar frístundalóðir austast í landinu sem liggja að Sandlæk. Aðalskipulagsbreyting er lögð fram samhliða deiliskipulagi þessu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir deiliskipulagið með fimm atkvæðum og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða auglýsingu aðalskipulagsbreytingar sem tekur til svæðisins.

 

Reykir L166491; Breytt landnotkun, skógrækt í frístundasvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2311057

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar eftir kynningu sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps er varðar hluta skógræktarsvæðis í landi Reykja L166491. Í breytingunni felst að hluti skógræktarsvæðis breytist í frístundasvæði. Tillaga deiliskipulags er lögð fram samhliða aðalskipulagsbreytingu þessari.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Reykja L166491 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

 

Selið L222243; Landbúnaðarsvæði í frístundabyggð; Fyrirspurn - 2501046

Lögð er fram fyrirspurn sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Svæðið sem breytingin nær til er Selið L222243 á Skeiðum. Lóðin er skilgreind sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi en með breytingunni yrði lóðinni breytt í frístundabyggð.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við vinnslu skipulagslýsingar aðalskipulagsbreytingar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem tekur breytingar á landnotkun svæðisins.

 

Gunnar Örn Marteinsson vék af fundi

 

12. Fundargerð 17. fundar skólanefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar og staðfest af sveitarstjórn,

13. Fundargerð 18. fundar Loftslags- og Umhverfisnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

14. Umsagnir Samtaka orkusveitarfélaga

Umsagnir lagðar fram til kynningar.

 

15. Fundargerð 79. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

16. Fundargerð ársfundar Brákar 2023

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

17. Fundargerð 330. fundar stjórnar SOS

Fundargerð lögð fram til kynningar.


18. Fundargerð og kynning Vegagerðarinnar vegna almenningssamgangna

Fundargerð og kynning lögð fram til kynningar.


19. Fundargerð stjórnar SVÁ frá 21. janúar 2025

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

20. Fundargerð 80. fundar stjórnar Bergrisans bs.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

21. Verkfundagerðir íþróttamiðstöðvar

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:39

Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 19. febrúar, kl. 9.00, í Árnesi.

 

Fundargerð undirrituð rafrænt.