Sveitarstjórn

63. fundur 19. mars 2025 kl. 09:00 - 13:21 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Axel Á. Njarðvík
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Árnesi, 19. mars 2025

63. sveitarstjórnarfundur

 

Mætt til fundar:

Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.

Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla oddvita á 63. sveitarstjórnarfundi

Oddviti fer yfir verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.

 

2. Fjárhagsáætlun 2025-2028 - Viðauki I

​​Lagður fram viðauki I við fjárhagsáætlun 2025-2028. Helstu viðfangsefni viðaukans eru breytingar á fjárfestingaráætlun fyrir árin 2025-2026. Áætlað er að framkvæmdir við Skeiðalaug séu að klárast í apríl og er fjárfesting þar aukin um 40 milljónir umfram áður samþykkta áætlun. Fjárfesting í verknámshúsi við Þjórsárskóla sem áætluð var á árinu 2026 er færð fram til ársins 2025 og fyrirhugaðar framkvæmdir á gámasvæði sem áætluð var á árinu 2026 er flýtt til ársins 2025. Fjárfestingaáætlun vegna byggingu nýrrar íþróttamiðstöðvar í Árnesi er uppfærð, en í áður samþykktri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 620 milljónum á árinu 2025 og 200 milljónum árið 2026. Með viðaukanum er áætlun vegna framkvæmdarinnar uppfærð í í 490 milljónir á árinu 2025 og 330 milljónir árið 2026. Nettó áhrif viðauka á rekstur er jákvæð um 1,1 milljónir. Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður verði 48,4 milljónir og að samtals fjárfestingar á árinu 2025 hækka úr 710 milljónum í 803 milljónir. Aukinni fjárfestingu er mætt með lækkun á handbæru fé.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðauka I og felur sveitarstjóra að tilkynna hann til viðkomandi aðila.

 

3. Auglýsing eftir skólastjóra Þjórsárskóla

Lögð fram drög að auglýsingu fyrir skólastjóra Þjórsárskóla, en staðan er laus frá og með næsta skólaári.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að auglýsa starfið í samræmi við meðfylgjandi auglýsingu og sjá um ráðningarferlið í samráði við formann skólanefndar.

 

4. Líkamsrækt og sund fyrir 17 ára og yngri, eldri borgara og öryrkja

​Líkamsræktaraðstaða í Skeiðalaug fer nú að verða tilbúin eftir framkvæmdir og aðstaðan í Skeiðalaug er orðin til fyrirmyndar. Mikilvægt er sem heilsueflandi samfélag að ýta yndir hreyfingu allra aldurshópa sveitarfélagsins og hvetja til aukinnar þátttöku og nýtingar íbúa á íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með fimm atkvæðum að frá og með 1. apríl nk. fái ungmenni Skeiða- og Gnúpverjahrepps, 17 ára og yngri, ásamt íbúum í sveitarfélaginu sem eru 67 ára og eldri og örorkulífeyrisþegar með lögheimili í sveitarfélaginu sem metnir eru 75% öryrkjar eða meira, fái árskort að gjöf frá sveitarfélaginu sem gildir í Skeiðalaug og Neslaug.

 

5. Ósk um skipulagsbreytingu vegna Skólabraut 1a-b og 3a-b

​​Óskað er umsagnar sveitastjórnar og skipulagssviðs er varðar heimild til breytinga frá samþykktu deiluskipulagi hvað varðar skipulag lóða við Skólabraut 1a-b og 3a-b. Ósk um breytingu snýr að sameiningu lóðanna með það fyrir augum að reist verði á sameinaðri lóð 5 íbúða raðhús. Ósk um breytingu er gerð með hliðsjón af breyttu byggingarformi parhúsa í raðhús og fjölgun íbúða til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á lóð nr. 5 þar sem fyrir er 5 íbúða raðhús skv. deiliskipulagsbreytingu samþykktri 24.01.2018.

Í reglum um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi kemur fram í 2. gr. að allar lóðir skuli auglýstar áður en þeim er úthlutað í fyrsta sinn. Í 3. gr. kemur fram að komi til þess að lóðarhafi hætti við byggingu á lóð eða stendur ekki við skuldbindingar sínar eða skilmála þannig að endurúthluta þarf lóðinni skal hún auglýst að nýju. Ef breyta ætti umræddum parhúsalóð í eina raðhúsalóð þyrfti því að auglýsa lóðina að nýju áður en kæmi til úthlutunar. Sveitarstjórn hafnar erindinu með fimm atkvæðum.

 

6. Eftirlitsnefnd vegna byggingar Hvammsvirkjunar

​Afgreiðslu málsins er frestað.

7. Umsóknir um lóðir

​Lögð fram umsókn frá Húsmót ehf í lóðirnar Holtabraut 21-23 og Holtabraut 37-41. Lóðirnar voru auglýstar árið 2024, gatnagerð er lokið og lóðirnar eru tilbúnar til að framkvæmdir geti hafist.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að úthluta Holtabraut 21-23 og Holtabraut 37-41 til Húsmót ehf. í samræmi við 4. gr. reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

 

8. Fyrirspurn um samstarf

Lagt fram erindi frá Samtökin Landsbyggðin lifi þar sem leitað er eftir samstarfi við sveitafélög  í dreifbýli vegna þátttöku samtakanna í  samstarfsverkefninu „Coming, Staying, Living – Ruralizing Europe“.  Verkefnið leitast við að efla byggð í dreifbýli og smærri samfélögum með áherslu á grunnþjónustu, sjálfbærni og samfélagsþol. Verkefnið er unnið í samstarfi við Finnland, Svíþjóð og Danmörku og fellur vel að áherslum Norðurlandaráðs um þróttmikil og sjálfbær samfélög þar sem fólk vill búa og starfa. 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur vel í erindið og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.

 

9. Samþykkt um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi – síðari umræða

​Lagðar fram til síðari umræðu samþykkt um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykkt um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

 

10. ​Samningur um samstarf við Björgunarsveitina Sigurgeir

Lagður fram samningur um samstarf við Björgunarsveitina Sigurgeir. Samninginum er ætlað að efla og tryggja samstarf milli sveitarfélagsins og björgunarsveitarinnar með áherslu á mikilvægi björgunarsveitarinnar sem viðbragðsaðila á svæðinu og þess forvarnarstarfs sem fram fer innan félagsins samfélaginu til heilla.

Afgreiðsla málsins frestað.

 

11. Niðurstöður frumkvæðisathugunar á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og eldra fólk á landsvísu

Lögð fram til kynningar frumkvæðisathugun á akstursþjónustu sveitarfélaga unnin af Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

 

12. Umsagnarbeiðni vegna máls nr. 0335/2025 í Skipulagsgátt

Lögð fram beiðni um umsögn frá Rangárþingi Ytra vegna stækkunar á efnistökusvæði E26, 0335/2025.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að senda inn umsögn þar sem kemur fram að sveitarstjórn hefur engar athugasemdir við fyrirhugaðar stækkunar efnistökusvæðisins.

Axel Á. Njarðvík greiðir atkvæði á móti og leggur fram fyrri bókun um málið:

 

Í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur dags 15. janúar 2024 mál nr. E-2457/2024 þá var ákvörðun Orkustofnunnar frá 12. september 2024 um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka raforkuverið Hvammsvirkjun ógild, þá er fallið úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn veitti Landsvirkjun þann 24. október 2024 fyrir Hvammsvirkjun. Framkvæmdaleyfið er því fallið úr gildi og ekki rétt að ganga lengra að sinni. 

 

13. Til umsagnar 101. mál frá nefnda- og greiningarsvið Alþingis

Lögð fram umsögn sveitarstjórnar vegna tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 101. mál.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum framlagða umsögn og felur oddvita að skila inn umsögninni.

Axel Á. Njarðvík situr hjá og leggur fram eftirfarandi bókun:

 

 

Í 53 ár hefur barátta fólks í Gnúpverjahreppi og síðar Skeiða- og Gnúpverjahreppi, auk landsmanna og þar að auki af fólki víðar um heim, fyrir verndun óbyggðra víðerna vestan Þjórsá. 

Þingsályktunin sem liggur fyrir á Alþingi um Kjalölduveitu fer í verndarflokk er því í takti við 53 ára stanslausa baráttu heimamanna og fjölmargra annarra fyrir verndun Þjórsárvera og víðerna á hálendinu vestan Þjórsár. 

Friðlandið þarf að stækka svo það nái niður með Þjórsá og verndi stórfossana þrjá Kjálkaversfoss, Dynk og Gljúfurleitarfoss sem yrðu fyrir varanlegri skerðingu verði af Kjalölduveitu. Friðlandslínan er einungis hugsuð lína en fer ekki endilega eftir náttúrulegum eða landslagslegum heildum. Svæðið sem yrði fyrir áhrifum er allt fyrir innan Sand og hluti af stórkostlegu gróðursamfélagi með hátt verndargildi og einstakri landslagsheild. Verði farið í framkvæmdir vestan við Þjórsá er búið að rjúfa þessa dýrmætu heild og frið og frið í samfélaginu.

Fyrirhugaðar Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun  munu hafa veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru, lífríki og landslag. Öllum ætti að vera löngu ljóst, að tjónið og skaðinn sem þær munu valda á náttúru og samfélagi verður aldrei bætt. Barátta gegn þessum tveimur virkjunum hefur varið í yfir 20 ár.

Með framlagðri þingsályktun eru lög um Rammaáætlun brotin og gripið inn í verkefni sem er í vinnslu. Það er ekki hlutverk Alþingis að hlutast til um faglegt mat orkukosta með þessum hætti.

Óska eftir því að þessi bókun fylgi umsögn sveitarfélagsins.

 

14. 2025018285 umsókn um gistileyfi flokkur II

Lögð fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II- C minna gistiheimili að Vesturkoti fyrir gestafjölda allt að 8 manns.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við umsókn um rekstur gististaðar í flokki II C minna gistiheimili að Vesturkoti.

 

15. Þakkar- og hvatningarbréf mennta- og barnamálaráðherra vegna fyrirlagnar PISA 2025

Lagt fram bréf frá mennta- og barnamálaráðherra. Með bréfi þessu vill mennta- og barnamálaráðuneyti þakka fyrir góða samvinnu við grunnskóla og tengiliði við undirbúning fyrirlagnar PISA 2025 og óska eftir áframhaldandi góðu samstarfi við nemendur, starfsfólk grunnskóla, sveitarfélög og skólaþjónustu sveitarfélaga um þátttöku í PISA rannsókninni nú við upphaf fyrirlagningartímabilsins.

 

16. Til allrar sveitarstjórna - Aðalfundarboð Lánasjóðs Sveitarfélaga 20/3/2025

Lagt fram aðalfundarboð Lánasjóðs Sveitarfélaga 20. mars 2025.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að Sylvía Karen Heimisdóttir, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, fari með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Lánasjóðs Sveitarfélaga ohf. þann 20. mars n.k.

 

17. Fundargerð 298. fundar skipulagsnefndar

Skógarlundur L236998; Skógræktarsvæði; Verslunar- og þjónustustarfsemi; Aðalskipulagsbreyting - 2312032 

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Svæðið sem breytingin nær til er Skógarlundur L236998. Í breytingunni felst að hluti af skógræktar- og landgræðslusvæðinu SL6 og landbúnaðarsvæði breytist í verslunar- og þjónustusvæði. Þar verður heimilt að vera með gistingu fyrir 192 gesti í allt að 70 gestahúsum. Einnig verður heimild fyrir þjónustubyggingar og skógrækt. 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

 

Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Stækkun á Búðanámu; Aðalskipulagsbreyting - 2411052 

Lögð er fram, eftir kynningu, tillaga breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Breytingin felur í sér stækkun á Búðanámu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Búðafossvegi. Stærð námunnar er 1 ha og heimiluð efnistaka er 50.000 m3. Náman verður stækkuð í 4,5 ha og efnismagn sem heimilt verður að taka er hækkað í 60.000 m3. Umsagnir bárust við kynningu og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins. 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Búðanámu í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar. 

 

Hellnaholt L226725 og Hellnaholt 3 176471; Hellnaholt 2 L176972 og Fossnes L176472; Breyting á mörkum, sameining og breytt heiti lóða - 2503012 

Lögð er fram umsókn er varðar breytingu á staðföngum fyrir þegar stofnaðar frístundalóðir (Fossnes lóðir) innan samþykkts deiliskipulags fyrir Hellnaholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Um er að ræða tvo aðkomuvegi þar sem gert er ráð fyrir að lóðir við annan þeirra fái heitið Hellnaholt og viðeigandi númer og lóðir við hinn aðkomuveginn fái heitið Einbúastígur og viðeigandi númer. Einbúastígur er nýr staðvísir sem sótt er um. Nafnið er tekið af örnefninu Einbúi sem er innan svæðisins. 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemdir við ný staðföng og staðvísa innan svæðisins. 

 

Hlíð 1 L166563 og Hlíð 2 L166565; Nethóll; Stofnun lóðar - 2503011 

Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu dags. 15.02.2025, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar stofnun nýrrar landeignar. Óskað er eftir að stofna 27.469,26 fm landeign, Nethóll, úr óskiptu landi Hlíðar 1 L166563 og Hlíðar 2 L166565. Nethóll er örnefni innan landeignarinnar. 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. framlagðri merkjalýsingu og samþykkir erindið með fimm atkvæðum. Sveitarstjórn bendir á að framkvæmdir innan lóðar eru að jafnaði háðar gerð deiliskipulags sem tekur til svæðisins. 

 

18. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð 25-222 fundar.

 Fundargerð lögð fram til kynningar.

19. Fundargerð 18. fundar skólanefndar
Fundargerð lögð fram til kynningar.

20. Fundargerð 82. fundar stjórnar Bergrisans bs.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

21. Fundargerð 212. fundur stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

22. Fundargerð 331. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar.

23. Fundargerðir 964., 971 og 972. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

24. Ársreikningur Tónlistarskóla Árnesinga 2024

Fundargerð lögð fram til kynningar.

25. Fundargerð 4. fundar fagnefndar SVÁ

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum hækkun grunnfjárhæða vegna fjárhagsaðstoðar fyrir einstaklinga til framfærslu, hækkun á greiðslum til stuðningsfjölskyldna á vegum barnaverndar/félagsþjónustu, breytingu á gjaldskrá fyrir heimsendingu matar og aðstoð við þrif og breytingu á gjaldskrá vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks/aldraðra. Fundargerð er að öðru leyti lögð fram til kynningar.

26. Fundargerð 6. og 7. fundar stjórnar Markaðsstofu Suðurlands

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

27. Handbók til sveitarfélaga í uppbyggingu ferðamannastaða

Handbók lögð fram til kynningar.

28. Starfsáætlun Markaðsstofu Suðurlands 2025

Starfsáætlun lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 13.21

Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 2. apríl, kl. 9.00, í Árnesi.

Fundargerð undirrituð rafrænt.