Sveitarstjórn

53. fundur 24. október 2024 kl. 09:00 - 12:54 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

Lagt var til að 13. liður á dagskrá fundarins yrði tekin fyrir sem fyrsta mál á dagskrá af virðingu við fundargesti. Var það samþykkt samhljóða og breytist röðun dagskrárliða sem því nemur.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Hvammsvirkjun - umsókn um framkvæmdaleyfi

Lögð er fram umsókn Landsvirkjunar, dags. 13.09.2024, um framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun á grundvelli eldri umsóknar, dags. 14.12.2022, og fylgiskjala sem fylgdu þeirri umsókn. Tekið er fram að uppfærð greinargerð fylgi, fylgiskjal 4c, virkjunarleyfi, komi í stað eldra fylgiskjals 4c, og nýtt fylgiskjal 4d, heimild Umhverfisstofnunar.

Eftirtalin gögn eru lögð fram:

Umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi, dags. 13.9.2024, ásamt fylgiskjölum þ.m.t. greinargerð með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 13.9.2024.

Umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi, dags. 14.12.2022 ásamt fylgiskjölum.

Deiliskipulag Hvammsvirkjunar.

Umhverfismatsskýrsla frá 2003.

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 2003.

Úrskurður umhverfisráðherra frá 2004.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun frá 2015.

Endurskoðað umhverfismat frá 2017.

Álit Skipulagsstofnunar frá 2018.

Útgefin leyfi:

Leyfi Minjastofnunar Íslands, dags. 26.11.2021.

Leyfi Fiskistofu, dags. 14.07.2022.

Virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá, dags. 12.9.2024, ásamt fylgiskjölum.

Heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1, dags. 9. apríl 2024.

Loftslags- og Umhverfisnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps fjallaði um umsóknina á fundi þann 7. október 2024 og lagði nefndin til við sveitarstjórn að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir hinni umsóttu framkvæmd, með þeim skilyrðum sem fram koma í skipulagsáætlunum, úrskurði og áliti Skipulagsstofnunar, úrskurði umhverfisráðherra og fram koma í umsögnum annarra stofnanna og leyfisveitenda, eins og nánar er gerð grein fyrir í framlagðri greinargerð sveitarstjórnar, varðandi mótvægisaðgerðir, vöktun og frágang vegna framkvæmdarinnar.

Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa látið taka saman greinargerð í samræmi við 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna framkvæmdarinnar, dags. 14. júní 2023, uppfærð 4. október 2024, sem er jafnframt lögð fram.

 

U listinn hefur látið taka saman greinargerð um Hvammsvirkjun í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, dags 23. október 2024.

 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur, eins og nánar er gerð grein fyrir og rakið í greinargerð sveitarfélaganna Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hér eftir nefnd greinargerð sveitarfélganna, kynnt sér umsókn, matsskýrslu og önnur framlögð gögn og telur framkvæmdina sem lýst er í umsókn og framlögðum skjölum vera í samræmi við skipulagsáætlanir, matsskýrslu, úrskurði og ákvarðanir vegna umhverfismats framkvæmdanna og önnur fyrirliggjandi gögn, þ.m.t. greinargerð umsækjanda.

Í framkvæmdinni felst, eins og nánar er lýst í framlögðum gögnum, uppbygging á virkjun í Þjórsá norður af Skarðsfjalli. Inntakslón hennar, Hagalón, verður í farvegi Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Lónið verður í um 116 m.y.s. og um 4 km2 að stærð. Rúmmál lónsins verður um 13,2 milljónir rúmmetra. Stöðvarhús verður að mestu leyti neðanjarðar við norðurenda Skarðsfjalls, í landi Hvamms 1 í Landsveit. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun er vatnsaflsvirkjun staðsett á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár þar sem í dag eru sjö vatnsaflsstöðvar og verður virkjunin áttunda og neðsta stöðin. Hvammsvirkjun mun nýta allt að 352 m3/s rennsli og 32 m fall Þjórsár á um 9 km kafla frá svokölluðu Yrjaskeri, rétt ofan við bæinn Haga, og niður fyrir Ölmóðsey, austan við Þjórsárholt. Virkjunin nýtir miðlað rennsli Þjórsár frá lónunum ofar á vatnasviðinu. Hvammsvirkjun er staðsett í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og verða flest mannvirki innan sveitarfélagsmarka Rangárþings ytra. Gert er ráð fyrir að afl virkjunar verði 95 MW og árleg orkuvinnsla um 740 GWh.

Með vísan til rökstuðnings í greinargerð sveitarfélaganna samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps með fjórum atkvæðum að gefið verði út framkvæmdaleyfi, fyrir hinni umsóttu framkvæmd, með þeim skilyrðum sem fram koma í umsókn, greinargerð sveitarstjórnar og nánar er gerð grein fyrir í öðrum framlögðum gögnum s.s. varðandi mótvægisaðgerðir, vöktun og frágang vegna framkvæmdarinnar.

Skipuð verði eftirlitsnefnd í samráði við framkvæmdaaðila og aðra leyfisveitendur. Eftirlitsnefndin hafi eftirlit með því að öllum skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Eftirlitsnefndin hafi, ásamt skipulagsfulltrúa, eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við leyfi og fylgigögn leyfis. Nefndin skal skila af sér skýrslu til sveitarstjórnar um framkvæmd eftirlitsins við lok hvers áfanga framkvæmdarinnar. Verði skilyrðum vegna framkvæmdarinnar ekki framfylgt, ásigkomulag, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar eða eigin eftirliti framkvæmdaaðila ábótavant eða stafi af framkvæmdinni hætta skal eftirlitsnefndin tilkynna sveitarstjórnum Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar um. Þá skal nefndin gera grein fyrir frávikum og tilkynna framkvæmdaraðila skriflega um frávik og kröfur til úrbóta.

Skipulagsfulltrúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps er falið, að uppfylltum skilyrðum, að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við framangreint, ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerð nr. 772/2012.

Axel Á. Njarðvík greiðir atkvæði gegn framkvæmdaleyfinu og leggur fram eftirfarandi bókun:

 

Sveitarstjórn ber að taka sjálfstæða og skýra afstöðu á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sem sveitarstjórnarmaður þá tek ég sjálfsstæða og skýra afstöðu og hafna umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun mun hafa veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru, lífríki og landslag. Öllum ætti að vera löngu ljóst, að tjónið og skaðinn sem Hvammsvirkjun mun valda á náttúru og samfélagi verður aldrei bætt.

Ég hafna heimild Umhverfisstofnunnar til breytingar á vatnshloti Þjórsár, dags 9. apríl 2024 og tel hana ekki vera í samræmi við lög og reglur. 

Hún ber það með sér að áhrifamati er hliðrað til, svo að heimild verði gefin út. Með þeim hætti er farið í kringum lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Óljóst er með öllu hvort nokkurt skilyrða 18. gr. laga 36/2011 um stjórn vatnamála sé í raun uppfyllt. Almannahagsmunir og raforkuöryggi gegna mikilvægu hlutverki í heimildinni. Hins vegar hafa ekki verið sett viðmið fullnægjandi raforkuöryggis. Almannahagsmunir hafa hvorki verið skilgreindir í raforkulögum né lögum um stjórn vatnamála. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilgangur framkvæmdanna og almannahagsmunir vegi á nokkurn hátt þyngra en hagur náttúrunnar, þ.e. að umhverfismarkmið náist. Þess vegna er ekki hægt að nota almannahagsmuni né raforkuöryggi til að heimila breytingu á vatnshloti því hvorugu er fyrir að fara. Hins vegar er það gert í þessari heimild Umhverfisstofnunar. 

Tilgangur framkvæmdanna er enn óljós auk þess sem óljóst er hvort orkuskipti sé yfir höfuð raunverulegur tilgangur virkjunarinnar.

Ýmis dæmi má taka í heimildinni um mannhverf sjónarmið og markmiðaháða hugsun sem miðar að því að réttlæta breytingu á vatnshloti. Náttúruhverf gildi eiga sér litla von gegn fjárhagslegum og mannhverfum gildum. Enn fremur er byggt á grænþvotti þar sem allar mótvægiaðgerðir eru miðaðar við að gera engar mótvægisaðgerðir í stað þess að viðmið sé engar framkvæmdir sem veldur því að samanburður verður rammskakkur. Þannig er skaðinn minnkaður. Skaðleg áhrif framkvæmdar eru mikil og óafturkræf en áhrifin eru smættuð með ætluðum mótvægisaðgerðum sem er beinlínis rangt að gera þar sem ekki er öruggt að þær virki yfir höfuð. Staðfestingaskekkju er rík þar sem fyrirframgefin skoðun eða ákvörðun er varin og fundin rök sem staðfesta hana en mótrök smættuð eða hunsuð.

Ekki verður séð að komist verði hjá skaðlegum áhrifum virkjunarframkvæmdarinnar á vatnshlotið Þjórsá 1.

Þar er því gengin sama braut og fyrr, þar sem allar mótbárur hafa alla tíð verið hunsaðar með líkum hætti í öllu þeim athugasemdum sem almenningur og félagasamtök hafa gert í yfir 20 ár. 

Með því að samþykkja framkvæmdina þá er sveitarstjórn að samþykkja það að sitja uppi með skaðan þar sem óvissar mótvægisaðgerðir eru ekki sannreyndar. Skaðinn er hins vegar ljós.

Sveitarstjórnarmönnum ber í hvívetna að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sem og öðrum almannahagsmunum. Hér undir eru líka hagsmunir komandi kynslóða, eins og lög mæla fyrir um. Þeim er ekki borgið með óafturkræfum ákvörðunum sem skerða valfrelsi kynslóða til framtíðar.

Barátta almennings hefur í 20 ár staðið gegn þeim sjónarmiðum og því valdi sem vill Hvammsvirkjun. Við fimm í sveitarstjórn erum sem hlekkur á langri keðju fólks í þessari sveit og þessu sveitarfélagi. Það er beinlínis siðferðislega skylda sem hvílir á okkur að spilla ekki sveitinni. Það er okkar að umgangast hana með þeim hætti að komandi kynslóðir megi og njóta lífs í nægtum hér í sveit.

Frekari þætti þessarar ákvörðunnar minnar er að finna í greinargerð U-listans um Hvammsvirkjun í Þjórsá sem fylgir fundargögnum.

 

2. Skýrsla oddvita á 53. sveitarstjórnarfundi

Heimsókn Quair energy.
Kjördæmavika.
Aðalfundur Samtaka Orkusveitarfélaga.
Orkufundur.
Aðalfundur Jöfnunarsjóðs.
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga.
Árshátíð.
Héraðsnefndarfundur.
Framkvæmdir við íþróttamiðstöð.

 

3. Ósk um að létta Gerði Stefánsdóttur störfum í sveitastjórn

​Lagt fram erindi frá Gerði Stefánsdóttir þar sem óskað er eftir því að sveitarstjórn létti af Gerði störfum í sveitarstjórn vegna veikinda til 15. apríl 2025.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að létta af Gerði Stefánsdóttir störfum í samræmi við 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til 15. apríl 2025. Axel Árnason Njarðvík tekur við sæti Gerðar Stefánsdóttur sem aðalmaður U-lista í sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

4. Jafnlaunavottun- viðhaldsúttekt

​Hinn 30. september sl. fór fram viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfi sveitarfélagsins en sveitarfélagið fékk endurútgáfu á jafnlaunavottorði sínu árið 2023 sem gildir til 2026. Úttektin var framkvæmd af BSI á Islandi samkvæmt kröfum ÍST 85:2012 og kröfur um reglugerð nr. 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins.

Gerð var launagreining sem náði til alls starfsfólks sveitarfélagsins. Niðurstöður launagreiningar voru að kynbundinn launamunur er 2,8% konum í hag en var 2,4% konum í hag árið 2023 og fylgni milli starfaflokkunar og greiddra launa er 97,5%.

Markmið sveitarfélagsins er að kynbundinn munur verði ekki meiri en 3% og að fylgni milli starfaflokkunar og greiddra launa fari ekki niður fyrir 95%. Niðurstöður teljast því mjög góðar.

Engin athugasemd kom fram í úttektinni og kemur fram í niðurstöðum að það sé vilji stjórnenda til að bæta verklag og vinna samkvæmt staðlinum. Sannreynt var að kerfið væri hannað til að ná markmiðum og stefnu skipulagsheildarinnar í jafnlaunamálum. Við skoðum kom fram að ferlar og stýringar jafnlaunakerfisins styðji við þá niðurstöðu.

 

5. Ársþing SASS

Ársþing SASS fer fram í Hveragerði 31. október -1. nóvember.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að skipa á aðalfund SASS Harald Þór Jónsson, Bjarna H. Ásbjörnsson og Axel Árnason Njarðvík sem aðalfulltrúa og Vilborgu Ástráðsdóttir og Gunnar Örn Marteinsson sem varamenn.

 

6. Landnýting - samtal við sveitarstjórn

​​​Þann 16. ágúst 2023 var samþykkt samkomulag í sveitarstjórn við Landnýtingu ehf um uppbyggingu á matvælaframleiðslu í Árnesi. Í samkomulaginu var stefnt að undirritun skuldbindandi samnings innan 12 mánaða.

Forsvarsmenn Landnýtingar hafa unnið að undirbúningi verkefnisins frá þeim tíma. Inn á fund sveitarstjórnar kemur Óttarr Makuch, framkvæmdastjóri Landnýtingar og í gegnum fjarfundarbúnað Gísli H. Halldórsson, stjórnarformaður Landnýtingar til að ræða fyrirhugað verkefni Landnýtingar í Árnesi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar Óttarr og Gísla fyrir samtalið og felur sveitarstjóra og oddvita að vinna málið áfram.

 

7. Félagsheimili Árnes og mötuneyti

​​​​Félagsheimilið Árnes hefur verið í rekstrarleigu Árnes ferðaþjónustu á Íslandi. Samningur um húsið er í gildi og óskar leigutaki eftir því að breytingar verði gerðar á samningnum m.t.t. nýtingu á stóra sal og salernisrýmum. Lögð fram drög að viðauka við samning um félagsheimilið. Einnig hefur Árnes ferðaþjónusta á íslandi einnig séð um mötuneytið sl. ár. Sá samningur rann út 1. ágúst. Lögð fram drög að nýjum samningi um rekstur mötuneytis sem gildir til 31. júlí 2025.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum drög að viðauka við samning um leigu á félagsheimili Árnes og drög að samningi um rekstur skólamötuneytis. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita samningana.

 

8. Úrskurður 97/2024 – Búrfellslundur

​Úrskurður 97/2024 frá Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála lagður fram til kynningar.

9. Úrskurður 90/2024 – Búrfellshólmsnáma

Úrskurður 90/2024 frá Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála lagður fram til kynningar.

 

10. Bókun starfsmanna Þjórsárskóla

Lagt fram bréf frá starfsfólki Þjórsárskóla er varðar hljóðvist í húsnæði skólans.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á Þjórsárskóla síðustu mánuði til að undirbúa skólahúsnæðið fyrir þær breytingar sem snúa að því að 8-10. bekkur verði í Þjórsárskóla. Breytingarnar hafa verið unnar í miklu samráði við starfsfólk Þjórsárskóla með það að markmiði að hafa starfsaðstöðu eins og best verður kosið. Búið er að endurnýja alla innanstokksmuni skólans eftir óskum starfsfólks. Mikið hefur verið unnið í því að bæta hljóðvistina í skólahúsnæðinu enda hefur hljóðvistin ekki verið nægjanlega góð um árabil. Sú vinna hefur verið unnin í miklu samstarfi við starfsfólk Þjórsárskóla og verður kláruð á komandi vikum.

 

11. Smölun á Fjallabæjum

Lögð fram fyrirspurn frá Sigrúnu í Fossnesi um smölun á fjallabæjum í Gnúpverjahreppi haustið 2024. Í erindinu er vísað til 40. gr. fjallskilareglugerðar þar sem segir að verði einhver ber að því að smala illa heimalönd sín við almenningssmölun, hefur sveitarstjórn vald til að setja tilsjónarmann við smölun hans, eða þá að láta framkvæma hana, hvort tveggja á hans kostnað.

Ekki liggja fyrir skýrar verklagsreglur um hvernig sveitarfélagið skuli koma að smölun á ágangsfé og smölun heimalanda þar sem talið er að lögbundinni smölun sé ekki sinnt.

 

​12.  Þátttakendur í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa 2024

Lagt fram bréf frá Innviðaráðherra er varðar árlegan alþjóðlegan minningardag Sameinuðu þjóðanna um fórnarlömb umferðarslysa. Dagurinn er haldinn þriðja sunnudag í nóvember ár hvert og tileinkaður minningu þeirra sem hafa látist í umferðarslysum. Að þessu sinni verður kastljósi dagsins beint að hættunni sem getur skapast á að sofna eða dotta undir stýri vegna þreytu ökumanna.

Lagt fram til kynningar

 

13. Skýrsla um inngildingu íbúa með erlendan bakgrunn

Lögð fram skýrsla um inngildingu íbúa með erlendan bakgrunn í Uppsveitum Árnessýslu. Skýrslan inniheldur helstu niðurstöður vegna samráðsferlis er haldið var með íbúum í Uppsveitum Árnessýslu. Niðurstöðurnar eru fengnar bæði úr könnun sem var birt á samfélagsmiðlum og frá íbúafundum sem haldnir voru í júní 2024. Markmið þeirra var að fá fram skoðanir og tillögur íbúa um hvernig best væri að stuðla að inngildingu með sérstaka áherslu á íbúa með erlendan bakgrunn á svæðinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir góða skýrslu og leggur áherslu á mikilvægi þess að vinna vel að málefnum íbúa með erlendan bakgrunn.

 

14. 2311027 - Kílhraunsvegur 1-56

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Skeiða-og Gnúpverjahrepps er varðar Kílhraunsveg 1-56. Í breytingunni felst að landnotkun svæðisins breytist úr frístundabyggð í íbúðarbyggð. Málið var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 5. júní 2024. Meðfylgjandi er nýr uppdráttur þar sem búið er að tilgreina svæði fyrir leikvöll, grenndarstöð og biðskýli fyrir skólabíl.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Kílhraunsvegar 1-56 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

 

15. Fundargerð 289. fundar skipulagsnefndar

Þjórsárjökull (hluti Hofsjökuls) í Skeiða- og Gnúpverjahreppi; Stofnun þjóðlendu – 2410003

Lögð er fram umsókn Regínu Sigurðardóttur, f.h. forsætisráðuneytisins, um stofnun þjóðlendu. Um er að ræða 310 km2 landsvæði, Þjórsárjökull (hluti Hofsjökuls) innan marka Skeiða- og Gnúpverjahrepps, skv. úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 5/2008, dags. 19.06.2009. Um hana fer eftir ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998 með síðari breytingum. Landeigandi er íslenska ríkið skv. 2. gr. laga nr. 58/1998. Afmörkun þjóðlendunnar er sýnd á meðfylgjandi mæliblaði dags. 16.09.2024.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við stofnun þjóðlendunnar skv. fyrirliggjandi umsókn og samþykkir erindið með fimm atkvæðum

 

Klettar (L166589); byggingarleyfi; starfsmannahús og geymsla – breyta notkun í gistihús – 2409074

Móttekin var umsókn þann 26.09.2024 um byggingarleyfi til að breyta notkun á mhl 05 starfsmannahús og geymsla, 1.476,7 m2, í gistihús á jörðinni Klettar L166589 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Að mati sveitarstjórnar er breytt notkun starfsmannahúss og geymslu í gistihús háð breyttri landnotkun svæðisins úr landbúnaðarsvæði í verslunar- og þjónustusvæði. Sveitarstjórn

 

Skeiða- og Gnúpverjahrepps synjar umsókn um byggingarleyfi í framlagðri mynd.

 

Mið- og Árhraunsvegur; Skilmálar; Deiliskipulagsbreyting – 2409041

Lögð er fram tillaga að óverulegri breytingu á skilmálum deiliskipulags sem tekur til Mið- og Árhraunsvegar í Skeiða og Gnúpverjahreppi. Í breytingunni felst að á Mið- og Árhraunsvegi, Miðhraunsvegi 2 og Árhraunsvegi 13, 15 og 17 megi byggja íbúðarhús í stað frístundahúss.

Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.

 

Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Minni-Ólafsvellir; Aðalskipulagsbreyting – 2310031

Lögð er fram eftir kynningu breytingartillaga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Aðalskipulagsbreytingin nær yfir hluta Minni-Ólafsvalla L166482. Gert er ráð fyrir að hluta landbúnaðarsvæðis er breytt í íbúðarbyggð og verslunar- og þjónustusvæði. Heimilt er að vera með íbúðarhús og gestahús með gistingu fyrir allt að 70 gesti. Einnig er heimilt að vera með ýmiss konar afþreyingu, einkum tengda hestum. Fyrir er á Minni-Ólafsvöllum íbúðarhús, skemma og geymsluhúsnæði og verður áfram heimiluð föst búseta.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna hluta Minni-Ólafsvalla í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

 

Kílhraun land L1941805; Áshildarvegur 9 L230770; Deiliskipulagsbreyting – 2204056

Lögð er fram umsókn frá Rúnari Lárussyni er varðar breytingu á deiliskipulagi að Áshildarvegi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í breytingunni felst að skilgreindur er byggingarreitur á lóð Áshildarvegar 9.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum kynningu framlagðrar breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða.

 

Hjálmholt og Áshildarmýri; Vatnsból og Vatnsverndarsvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2406076

Lögð er fram eftir kynningu tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til nýs vatnsverndarsvæði í Áshildarmýri. Vatnsbólið sem vatnsverndarsvæðið tekur til er í Flóahreppi og er lögð fram sambærileg tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna skilgreiningar á vatnsbóli innan Flóahrepps.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna vatnsverndarsvæðis í Áshildarmýri í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

 

Skólabraut 2; Breyttur byggingarreitur; óveruleg deiliskipulagsbreyting – 2410024

Lögð er fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Árness sem tekur til lóðar Skólabrautar 2. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.

 

Gunnar Örn Marteinsson fór af fund

 

16. Fundargerð 17. fundar Loftslags- og umhverfisnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

17. Fundargerð Hússtjórnar Þjóðveldisbæjar 26. september 2024

Fundargerð lögð fram til kynningar.

18. Fundargerð 614. fundar stjórnar SASS

Fundargerð lögð fram til kynningar.

19. Fundargerð 77. fundar stjórnar Bergrisans bs.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

20. Fundargerð SVÁ 10.09.2024 og 24.09.2024

Fundargerð lögð fram til kynningar.

21. Fundargerð 22. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu

Fundargerð lögð fram til kynningar.

22. Fundargerð 14. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

23. Fundargerð 952. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

24. Fundargerð 13. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

25. Fundargerð 76. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

26. Fundargerð 239. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:54. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 6. nóvember, kl. 9.00, í Árnesi.

 

Fundargerð undirrituð rafrænt.