- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 20. desember 2024
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla oddvita á 57. sveitarstjórnarfundi
Íbúafundur um skipulag í Árnesi.
Framkvæmdir Landsvirkjunar.
Framkvæmdir í Árnesi.
Svæðisskipulag Suðurhálendis.
Stjórnarfundur SVÁ.
Næstu fundir sveitarstjórnar.
Nónsteinn.
Lóðamál.
2. Fjárhagsáætlun 2024- Viðauki II
Lagður fram til samþykktar viðauki II við fjárhagsáætlun 2024.
í A hluta sveitarsjóðs er gert ráð fyrir auknum tekjum af útsvari og auknum framlögum frá jöfnunarsjóði sem eru umfram upphaflegar áætlanir. Framlög til velferðarþjónustu voru ofáætluð í upphafi og er gert ráð fyrir lækkun í viðauka. Gert er ráð fyrir auknum framlagi til launa í Leikholti vegna fjölgunar barna á árinu og annarra mannauðsmála. Aukið framlag er til launa í Neslaug og Skeiðalaug vegna breytinga á opnunartíma, en tekjur í Skeiðalaug v. aðgangseyris voru lækkaðar og rekstrarkostnaður aukinn í tengslum við meiri nýtingu á húsnæðinu. Lækkun er á rekstri Þjórsárskóla þar sem kaup á innanstokksmunum voru ofáætlaðir, en hægt var að eignfæra hluta af þeim þar sem búið er að fjárfesta í búnaði vegna fjölgunar nemenda í skólanum til framtíðar. Gert er ráð fyrir auknum tekjum vegna lóðaúthlutana sem voru vanáætlaðar í upphafi sem og auknum kostnaði við breytingar á deiliskipulagi. Viðhaldskostnaður í eignasjóði er lækkaður með hliðsjón af þeim framkvæmdum sem farið var í á árinu.
Í B hluta er gert ráð fyrir auka kostnaði í Hitaveitu Brautarholts vegna viðhaldsþarfar á dæluskúr samhliða framkvæmdum við viðbyggingu hússins sem nú standa yfir. Tilfærsla var á fjárfestingum í Þjórsárskóla og er gert ráð fyrir að aðrar fjárfestingar lækki frá upphaflegri fjárhagsáætlun. Samtals lækkar fjárfestingaráætlun með viðauka II um 230 milljónir kr. Að sama skapi er ekki gert ráð fyrir lántöku á árinu líkt og gert var í upphafi árs.
Heildaráhrif viðauka á rekstur eru jákvæð um 50 millj. kr. og er áætluð rekstrarniðurstaða ársins 2024 er um 70 milljónir kr. og nettó áhrif viðauka ársins er hækkun á handbæru fé um 2,4 milljónir kr.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktir með fimm atkvæðum viðauka II við fjárhagsáætlun 2024 og felur sveitarstjóra að skila honum inn til viðeigandi aðila.
3. Fjármögnun fjárfestinga 2025-2026
Lögð fram tilboð Arion banka og Landsbankans í 600 milljóna króna lánalínu til 24 mánaða. Með lánalínunni er búið að tryggja fjármögnun þeirra fjárfestinga sem eru fyrirliggjandi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktir með fimm atkvæðum að taka tilboði Landsbankans og felur sveitarstjóra að ganga frá samningum um lánalínuna.
4. Samþykkt um stjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps- síðari umræða
Lögð fram til síðari umræðu samþykkt um stjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum uppfærðar samþykktir um stjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og felur sveitarstjóra að koma þeim til birtingar.
5. Eftirlitsnefnd með framkvæmdum Hvammsvirkjunar
Við útgáfu framkvæmdaleyfis til byggingar Hvammsvirkjunar var kveðið á um að sveitarstjórn muni skipa í eftirlitsnefnd í samráði við framkvæmdaaðila og aðra leyfisveitendur, sbr. 3. mgr. 16. gr. skipulagslaga og 4. mgr. 15. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Eftirlitsnefndin mun hafa eftirlit með því að öllum skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Eftirlitsnefndin hefur, ásamt skipulagsfulltrúum beggja sveitarfélaganna, eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum skv. 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að fela oddvita að hefja undirbúning stofnunar eftirlitsnefndarinnar, hafa samráð við aðra leyfisveitendur og framkvæmdaraðila ásamt því að gera drög að erindisbréfi nefndarinnar.
6. Erindi frá Veiðifélagi Þjórsár
Borist hefur erindi frá Veiðifélagi Þjórsár vegna kostnaðar af rækslu skyldna tengdum byggingu Hvammsvirkjunar. Vísað er til framkvæmdaleyfis, dags. 29. október 2024, sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti vegna byggingar Hvammsvirkjunar. Í framkvæmdaleyfinu er gert ráð fyrir aðkomu Veiðifélags Þjórsár að undirbúningi framkvæmda og eftirliti með þeim í gegnum sérstakrar eftirlitsnefndar vegna allrar vinnu framkvæmdaraðila er snýr að því að uppfylla skilyrði Fiskistofu, svo sem um vöktun á lífríki árinnar. Í ljósi þessarar stöðu fer Veiðifélag Þjórsár þess á leit við sveitarfélagið að því verði veittur fjárhagslegur stuðningur til að gera því kleift að rækja skyldur sínar af ábyrgð, festu og einurð.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar Veiðifélagi Þjórsár fyrir erindið. Við veitingu framkvæmdaleyfis til byggingar Hvammsvirkjunar nýtti sveitarfélagið sér heimild í lögum til stofnunar sérstakrar eftirlitsnefndar við framkvæmdina. Eftirlitsnefndin mun hafa eftirlit með því að öllum skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Eftirlitsnefndin hefur, ásamt skipulagsfulltrúum beggja sveitarfélaganna, eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum skv. 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Sérstaklega skal tekið fram að eftirlitsnefndin mun tryggja aðkomu fulltrúa Veiðifélags Þjórsár að allri vinnu framkvæmdaaðila er snýr að því að uppfylla skilyrði Fiskistofu. Eftirlitsnefndin mun starfa þangað til öll skilyrði Fiskistofu hafa verið uppfyllt, þar með talið varðandi vöktun á lífríki árinnar. Framkvæmdaaðili ber allan kostnað af starfi nefndarinnar og er því búið að tryggja að framkvæmdaraðilinn eigi að standa undir öllum kostnaði. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafnar erindi um fjárhagslegan stuðning með vísan í að framkvæmdaaðili eigi að standa undir kostnaði við eftirlit og samráð.
7. Umsagnarbeiðni Samkeppniseftirlitsins
Borist hefur beiðni um umsögn frá Samkeppniseftirlitinu vegna erindis Jarðefnaiðnaðar ehf. til Samkeppniseftirlitsins.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra í samráði við lögmenn sveitarfélagsins að senda umbeðna umsögn til Samkeppniseftirlitsins.
8. Minnisblað ÍSOR um prófanir á hitaveitu í Þjórsárholti
Lagt fram minnisblað frá ÍSOR þar sem fram koma tillögur að holuprófunum í Þjórsárholti, þar sem markmiðið er að kanna niðurdrátt vatnsborðs í vinnsluholum og í jarðhitakerfinu vegna vinnslu. Í greinagerð sem liggur til grundvallar framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar setti sveitarfélagið fyrirvara er snýr að áhrifum á vatnafar sem virkjunin gæti haft. Áður en framkvæmdir hefjast í árfarvegi skuli framkvæmdaaðili kosta viðunandi mælingar á núverandi afkastagetu Hitaveitu Gnúpverja og skuli vöktun viðhöfð á fyrstu 5 starfsárum Hvammsvirkjunar.
Oddvita falið að undirbúa framkvæmd prófana í samráði við Hitaveitu Gnúpverja og Landsvirkjun.
9. Opnunartími skrifstofu og sorpmóttökustöðvar milli jóla og nýárs 2024
Lagt til að skrifstofa sveitarfélagsins og þjónustumiðstöðvar verði lokuð föstudaginn 27. desember. Sorpmóttökustöð sveitarfélagsins verði opin laugardaginn 28. desember samkvæmt auglýstum opnunartíma.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að skrifstofa sveitarfélagsins og þjónustumiðstöð verði lokuð föstudaginn 27. desember, sorpmóttökustöð verði opin laugardaginn 28. desember.
10. Samþykkt um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi – fyrri umræða
Lagðar fram til fyrri umræðu samþykkt um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vísa samþykkt um fráveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til síðari umræðu.
11. Trúnaðarmál
Afgreiðslu máls frestað.
12. Afgreiðsla hreppsnefndar Ásahrepps til umsagnar
Lögð fram til umsagnar afgreiðsla hreppsnefndar Ásahrepps vegna stofnunar fasteignar (þjóðlenda), sbr. 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, með síðari breytingum vegna fasteignarinnar Landmannaafréttur í Ásahreppi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við framlagða afgreiðslu hreppsnefndar Ásahrepps.
13. Styrkbeiðni frá sóknarnefnd Ólafsvallakirkju
Lögð fram umsókn frá sóknarnefnd Ólafsvallakirkju um kostnaðarþátttöku við nýja girðingu og hlið umhverfis Ólafsvallakirkjugarð. Mikil viðhaldsþörf er komin á girðingu umhverfis kirkjugarðinn svo hana þarf að endurnýja að fullu. Gert er ráð fyrir að hægt sé að nota alla járnstaura sem steyptir voru niður á sínum tíma en að skipta þurfi út öllu timburverkinu. Einnig þarf að smíða og laga hliðin inn í garðinn.
Sóknarnefnd Ólafsvallasóknar óskar eftir kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins við efnishlutann við endurnýjun á grindverkinu. Búið er að fá tilboð í efnið sem þarf í þessar framkvæmdir sem hljóðar uppá 1.500.000 kr. Auk þess er áætlað að vinnuliðurinn við endurnýjun grindverksins sé um 1.500.000 kr.
Er sótt um styrk á grundvelli 12. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 þar sem koma fram skyldur sveitarfélags til að láta í té efni í girðingu. Sveitarfélagi er þó ekki skylt að sinna viðhaldi girðinga við kirkjugarða. Hér sé um að ræða nýja girðingu í stað þeirra eldri sem talin er vera ónýt.
Auk styrkumsóknar til sveitarfélagsins mun sóknarnefnd einnig sækja um styrk til kirkjugarðasjóðs vegna vinnuliðar við verkefnið.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að styrkja Ólafsvallakirkjugarð um efni í girðinguna, að hámarki 1.500.000 kr. og gegn framlögðum reikningum. Fjárveitingin rúmast innan núverandi fjárheimilda ársins 2024.
14. Styrkumsókn frá Sigurhæðum
Lögð fram umsókn um styrk í samræmi við þá stefnu sem lögð var til grundvallar rekstri Sigurhæða að sveitarstjórnarstigið á Suðurlandi fjármagni 33% af rekstri Sigurhæða. Styrkur fyrir árið 2024 er því 240.762 kr. og styrkur fyrir árið 2025 er 239.094 kr.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum styrki til Sigurhæða að upphæð 240.726 kr fyrir árin 2024 og að upphæð 239.094 kr fyrir árið 2025 og rúmast styrkveitingin innan núverandi heimilda í fjárhagsáætlun fyrir árin 2024 og 2025.
15. Máldagi Þjóðveldisbæjarins
Uppfærður máldagi fyrir Þjóðveldisbæinn lagður fram til staðfestingar fyrir sveitarstjórn.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum máldaga fyrir Þjóðveldisbæinn og felur oddvita að undirrita máldagann.
16. Samningur við Íþróttafélag Uppsveita
Hafin er mikil uppbygging íþróttamannvirkja í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Búið er að endurnýja Skeiðalaug ásamt því að í byggingu er íþróttasalur við Skeiðalaug sem mun bæta aðstöðu til heilsueflingar og íþróttastarfs. Hafin er bygging á íþróttamiðstöð í Árnesi sem mun gjörbylta aðstöðu til íþróttaiðkunar. Í sveitarfélaginu er starfandi Ungmennafélag Gnúpverja og Ungmennafélag Skeiðamanna og telur sveitarstjórn mikilvægt að styðja vel við félögin til að efla íþróttastarf til framtíðar. Einnig hefur komið fram áhugi á samstarfi við Íþróttafélag Uppsveita sem nær yfir öll sveitarfélögin í Uppsveitunum og skapar mikil tækifæri til aukinnar fjölbreytni í Uppsveitunum. Sveitarstjórn telur mikilvægt að efla starfsemi ungmennafélaganna í sveitarfélaginu ásamt því að gott samstarf verði við Íþróttafélag Uppsveita. Einnig telur sveitarstjórn mikil tækifæri í því að ungmennafélögin og ÍBU skapi saman forsendu fyrir því að stuðla að fjölbreyttu íþróttastarfi í sveitarfélaginu sem geti verið í samfellu með skóla og frístundastarfi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að hefja samtal við Ungmennafélag Gnúpverja og Ungmennafélag Skeiðamanna um hvernig best sé að standa að uppbyggingu á íþróttastarfi í sveitarfélaginu til framtíðar og vinna í samstarfi með ÍBU. Einnig samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að veita ÍBU styrk að upphæð 500.000 kr. vegna ársins 2024. Fjárveitingin fellur innan fjárheimilda ársins 2024.
17. Söfnun Fjölskylduhjálpar Íslands fyrir jólin 2024
Lagt fram erindi frá Fjölskylduhjálp Íslands fyrir jólin 2024 þar sem óskað er eftir framlögum til styrktar samtakanna.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sér sér ekki fært að verða við erindinu.
18. Fundargerð 293. fundar skipulagsnefndar
Kílhraun land L191805; Áshildarvegur 9 L230770; Deiliskipulagsbreyting - 2204056
Lögð er fram umsókn frá Rúnari Lárussyni er varðar breytingu á deiliskipulagi að Áshildarvegi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, eftir grenndarkynningu. Í breytingunni felst að skilgreindur er byggingarreitur á lóð Áshildarvegar 9. Athugasemdir bárust við grenndarkynningu og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt viðbrögðum við þeim.
Á grundvelli fyrri bókanna skipulagsnefndar vegna málsins og þeirra athugasemda sem bárust við grenndarkynningu þess er að mati sveitarstjórnar ljóst að umrædd lóð sem tekur til 3.600 fm var skilgreind með það að markmiði að allar lóðir innan svæðisins næðu að lágmarki 1 ha að stærð og að ekki var ætlast til þess að hún yrði aðskilin frá lóð nr. 13 eða að hún yrði ætluð til bygginga. Innan skilmála deiliskipulags svæðisins, sem hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin, eru settir fram ýmsir skilmálar er varðar stærðir lóða, nú síðast fyrir Áshildarveg 2-26 þar sem tilgreint er að lóðir innan svæðisins skuli vera á bilinu 8.000-10.900 fm. Byggðar- og lóðarmynstur svæðisins einkennist þannig af því að lóðir eru almennt ekki minni en 8.000 fm að stærð og tekur sveitarstjórn því undir athugasemdir er varðar stærð viðkomandi lóðar. Lóðarhafa mátti vera ljóst frá upphafi að lóð Áshildarvegar 9 átti að fylgja Áshildarvegi 13 með það að markmiði að lóð 13 næði fyrrgreindri lágmarksstærð lóða á svæðinu, er það óháð núverandi stefnumörkun deiliskipulagsins að mati skipulagsnefndar. Að sama skapi telur sveitarstjórn að umsækjanda og eigendum lóðarinnar hafi verið ljóst að ekki væri gert ráð fyrir byggingarreit innan lóðarinnar, hún væri innan flóðasvæðis og að viðmiðum um lágmarksstærðir byggingarlóða á svæðinu væri ekki fullnægt þegar tekin er ákvörðun um að selja lóð 13 og halda lóð 9 eftir. Komi til þess að viðmið um stærðir lóða á svæðinu eigi að breytast með þeim hætti að lóðir innan svæðisins í heild megi vera allt að 3.600 fm að stærð og að endurheimta eigi lóðir sem voru teknar út vegna flóðahættu með því að hækka lóðir og skilgreina lágmarksgólfkóta húsa á þeim lóðum þarf að mati nefndarinnar að taka allar grunnforsendur skipulagsins til skoðunar. Miðað við núverandi lóðarstærðir mætti þá sjá fyrir sér að unnt væri að tvöfalda lóðarfjölda innan skipulagssvæðisins kæmi til breyttrar stefnumörkunar um stærðir lóða. Á grunni framangreinds synjar sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps með fimm atkvæðum framlagðri umsókn eftir grenndarkynningu.
Rauðukambar L234185 í Þjórsárdal; 3 borholur; Framkvæmdarleyfi - 2407008
Lögð er fram umsókn um uppfærslu á framkvæmdaleyfi sem tekur til boranna í Rauðukömbum, Þjórsárdal. Í uppfærslu leyfisins felst að heimilt verði að bora nýja holu merkt SL-10 í um 20 metra fjarlægð frá holu SL-03 með það að markmiði að auka stöðugleika á nýtingu kerfisins í heild. Að mati umsækjanda er ekki um forsendabreytingu eða aukningu á vatnstöku að ræða heldur tilfærslu á staðsetningu á vatnstöku að ræða.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með þremur atkvæðum útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um samþykki Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda á friðlýstum svæðum. Fyrir liggja umsagnir Forsætisráðuneytisins, umsögn loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og samþykki Minjastofnunar vegna breytingar á leyfinu.
Axel Árnason Njarðvík greiðir atkvæði gegn afgreiðslu málsins og leggur fram eftirfarandi bókun:
Staðsetning borholu SL-10 innan friðaðra jarðminja
Miðað við framlagt kort í gögnum sem bárust loftslags og umhverfisnefnd er borholan SL-10 innan gervigíga svæðisins í Þjórsárdal (skjal: 7145-003 9_00_xx-04-C _Fjallaböð_borholur_6des2024.pdf ). Gervigígar eru friðaðir jarðminjar og njóta sérstakrar verndar samkvæmt a. lið 2. mgr. 61 gr. laga um náttúruvernd (60/2013). Það verður því ekki séð að hægt sé að gefa slíkt leyfi án þess að álit Umhverfisstofnunar um staðarval SL-10 og gera grein fyrir því hvert umfang röskunarinnar er og þannig hvort rask verði á gervigígunum.
Samkvæmt 61. grein laganna njóta eftirtaldar jarðminjar sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr., þ.e. eldvörp, eldhraun, gervigígar og hraunhellar sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma.
Grunnvatnshlot - ranglega skilgreint í minnisblaði Eflu
Í minnisblaði frá Eflu, fylgigagn fundar, upphaflega dagsett 24.07.2024 en nú VO2 dagsett 09.12.24 er enn talað um rangt grunnvatnshlot, þ.e. Kerlingafjöll-Hreppar, 103-287-G (Minnisblað: min7145-003-MIN-005-V02_Fjallaböðin_vatnshlot.pdf).
Bent var með skýrum hætti í bókun í fundargerð Loftslags- og umhverfisnefndar frá 16.08.2024 að þetta er ekki í samræmi við upplýsingar í vatnavefsjá stjórnar vatnamála sem vísað er í. Vatnstakan er úr grunnvatnshlotinu 103-210-G Þjórsárdalur sem er um 26 km2, sem byggir á mun minni úrkomufleti þ.e. 26 km2 en ekki 3.783 km2 stærð grunnvatnshlotsins Kerlingafjöll-Hreppar.
Því miður afgreiddi sveitastjórn beiðni um framkvæmdaleyfi á borholum, þrátt fyrir ábendingar fulltrúa U-listans, Axels Á. Njarðvík, áður en þeim barst umsögn Loftslags og umhverfisnefndar þrátt fyrir kröfur Umhverfisstofnunar um álit nefndarinnar vegna afgreiðslu málsins. Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps getur ekki, sóma síns vegna, afgreitt mál þar sem ranglega er farið með forsendur málsins.
Lögbundin ferli
Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skal tryggja að lögbundnir ferlar séu tryggðir við afgreiðslu framkvæmdaleyfis. Samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 þarf leyfi Orkustofnunar til framkvæmda sem þessa. Í 6. gr. laganna kemur fram að: Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi [Orkustofnunar] 1) Ekki verður séð að slíkt leyfi liggi fyrir, mikilvægt er að ganga úr skugga um hvort þess hefur verið aflað eða með álit Orkustofnunar á framkvæmdinni.
Í 5 kafla niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 26.03.2023 kemur með skýrum hætti fram að framkvæmdir á landslagsverndarsvæðinu eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands. Þá er framkvæmdin háð byggingarleyfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps samkvæmt lögum um mannvirki og eftir atvikum framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulagslögum. Einnig starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um matvæli, reglugerð um hollustuhætti, reglugerð um um baðstaði í náttúrunni, reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.
Lágmarks krafa er að sveitastjórn tryggi að tilskilin leyfi liggi fyrir áður en málið er afgreitt.
Vilborg Ástráðsdóttir situr hjá með vísan í gögn um vatnshlot sbr. bókun í fundargerð loftslags- og umhverfisnefndar frá 16.08.2024 og framangreinda bókun Axels Árnasonar Njarðvík.
19. Fundargerð samráðsfundar með Eflu og Landnýtingu
Fundargerð lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð 240. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands
Fundargerð lögð fram til kynningar.
21. Fundargerð Öldungaráðs Uppsveita og Flóa 04.12.2024
Fundargerð lögð fram til kynningar.
22. Fundargerð stjórnar SVÁ 22.11.2024
Fundargerð lögð fram til kynningar.
23. Fundargerð 959. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð lögð fram til kynningar.
24. Samantekt vinnustofu KPMG á ársþingi SASS 2024
Samantekt vinnustofu KPMG frá ársþingi SASS 2024 lagðar fram til kynningar.
25. Fundargerð 16. fundar hússtjórnar Þjóðveldisbæjarins
Fundargerð lögð fram til kynningar.
26. Samþykktir Brunavarna Árnessýslu bs - seinni umræða
Lagðar fram til síðari umræðu samþykktir Brunavarna Árnessýslu bs.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykktir Brunavarna Árnessýslu bs.
27. Samþykktir Tónlistarskóla Árnesinga bs - síðari umræða
Lagðar fram til síðari umræðu Tónlistarskóla Árnesinga bs.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykktir Tónlistarskóla Árnesinga bs.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps óskar íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Fundi slitið kl. 15:34. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 8. janúar, kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.