Sveitarstjórn

48. fundur 07. ágúst 2024 kl. 09:00 - 12:14 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni H. Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Hrönn Jónsdóttir
Fundargerð ritaði: Hrönn Jónsdóttir

1. Skýrsla sveitarstjóra á 48. sveitarstjórnarfundi

ÍBU ferð
Framkvæmdir í sumar
Sumarfrí
Undirbúningur útboða
Styrkir til vegagerðar

2. Reglur um launað námsleyfi starfsfólks í Leikskóla

​Lagðar fram reglur um launað námsleyfi starfsfólks í leikskóla.

Í samræmi við umræðu á fundinum er afgreiðslu málsins frestað.

 

Gunnar Örn Marteinsson vék af fundi

3. Skólaakstur 2024-2025

​​Lögð fram drög að samningum um skólaakstur skólaárið 2024 -2025. Oddviti leggur til að samið verði á grunni núgildandi samninga við bílstjóranna Ólaf Jóhannsson, Gunnar Örn Marteinsson, Núpsverk ehf. og Stjörnufák ehf., til að sinna skólaakstri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi skólaárið 2024-2025 líkt og fyrra ár.

Ari Einarsson sem sinnt hefur skólaakstri á leið upp í Laxárdal hefur óskað eftir því að halda ekki áfram með skólaaksturinn. Oddviti leggur til að skólaakstri þeirra leiðar verði sinnt af starfsmönnum þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins.

Fyrir næsta skólaár, 2025-2026 verður Þjórsárskóli orðinn 1.-9. bekkur og einungis 6 nemendur sækja 10. bekk á Flúðum. Það þýðir að umfang skólaaksturs mun minnka og komast nær þeim horfum sem hann verður til framtíðar eftir að Þjórsárskóli verður orðin heildstæður grunnskóli 1.-10. Bekk haustið 2026. Næsta vor eru því komnar forsendur til að fara í langtíma útboð á skólaakstri miðað við nýtt fyrirkomulag.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir samhljóða að semja við bílstjórana Ólaf Jóhannsson, Gunnar Örn Marteinsson, Núpsverk ehf. og Stjörnufák ehf., til að sinna skólaakstri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi skólaárið 2024-2025 líkt og fyrra ár. Einnig samþykkir sveitarstjórn að skólaakstri á leið upp í Laxárdal verði sinnt af starfsmönnum þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins. Sveitarstjóra falið að ganga til samninga við skólabílstjóra og undirrita samninga fyrir hönd sveitarfélagsins.

 

Gunnar Örn Marteinsson kom aftur inná fundinn.

 

4. Beiðni um framkvæmdaleyfi á borholum

​Lagt fram erindi frá Rauðukömbum ehf um leyfi fyrir fullnaðar frágangi borhola við Rauðukamba í Þjórsárdal og leyfi til þess að bora þær upp- og niðurdælingar holur sem þarf til að tryggja rekstur Fjallabaðanna á friðlýstu svæði í Þjórsárdal.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps veitti framkvæmdaleyfi fyrir borun á heitu og köldu vatni í nálægð við Rauðukamba fyrir hótel og baðlón árið 2019. Ekkert varð af boruninni þá og var því sótt um endurnýjun á leyfinu árið 2022 sem sveitarstjórn veitti. Sveitarstjórn telur að áður veitt framkvæmdaleyfi sé í gildi er varðar að klára fullnaðar frágang borhola sem áður hefur verið gefið leyfi fyrir.

Hvað varðar beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir viðbótar borholur ásamt niðurdælingar holu til að auka sjálfbærni vatnsbúskapar svæðisins, eins og kemur fram í matsskyldufyrirspurn frá 9.5.2023. Sveitarstjórn hefur ekki athugasemd við fyrirhugaðar framkvæmdir og telur þær vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 4 atkvæðum að skipulagsfulltrúi gefi út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Axel Á. Njarðvík sat hjá.

 

Axel Á. Njarðvík lagði fram eftirfarandi bókun:

 

Tel ég nauðsynlegt að skoða stöðu mála hvað varðar framkvæmdir í Þjórsárdal.

Ekki er ljóst hvort fyrirliggjandi leyfi eru fullnægjandi bæði fyrri leyfi sem og í ljósi umtalsverðra breytinga á áætlaðri vatnstöku. Auk borhola á framlögðum teikningum hafa verið gerðar rannsóknarholur bæði sunnan og vestan svæðisins sem ekki er gerð grein fyrir. Nauðsynlegt er að fá fullnægandi yfirlit yfir stöðu mála, hvaða leyfi lágu fyrir leyfisveitingunni.

Samkvæmt lögum um rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 þarf leyfi Orkustofnunar en í 6.gr laganna kemur fram að: Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi [Orkustofnunar] 1) hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum með þeim undantekningum sem greinir í lögum þessum. Ekki verður séð að slíkt leyfi liggi fyrir.

Framkvæmdin er háð lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Gera þarf grein fyrir magntöku, áhrifum á efnafræðilegt ástand og möguleg áhrif af niðurdælingu. Ástand grunnvatnshlota þarf að meta með faglegum hætti í samvinnu og samráði við Umhverfisstofnun.

Umtalsverð breyting er á áætlaðri magntöku bæði á heitu og köldu vatni sem er háð lögum um um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Viðbótarholur og stærri umsvif þurfa að fara til umsagnar til Skipulagsstofnunar hvort heildar framkvæmdin er matsskyld miðað við núverandi áætlanir.

Ýmis önnur lög er varða vatnstöku s.s. grenndarsvæði vatnsverndar o.s.frv. eiga einnig við og gera þarf grein fyrir í samræmi við þau, má þar nefna Reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001 og reglugerð um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999.

 

5. Máldagi og viðhaldsþörf þjóðveldisbæjarins í þjórsárdal

​Nauðsynlegt er að halda áfram með viðhald á Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal til að koma í veg fyrir skemmdir. Núverandi Máldagi Þjóðveldisbæjarins hefur staðið óbreyttur í áratugi og þær upphæðir sem koma fram í framlögum hafa staðið óbreyttar. Árlega hefur því fjármagn til viðhalds farið minnkandi að raungildi. Mikilvægt er að uppfæra fjárframlög þeirra sem standa að Máldaganum í samræmi við verðlag frá upphafi samningsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur vel í hugmyndir um að aðilar Máldagans komi að auknum fjárframlögum til að tryggja viðhaldsþörf Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdals til framtíðar. Forsenda aukins fjármagns frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi er að allir aðilar Máldagans; Landsvirkjun og Menningar- og viðskiptaráðuneytið komi einnig með aukið fjárframlag. Oddvita falið að vinna málið áfram og funda með Landsvirkjun og Menningar- og viðskiptaráðuneytinu um næstu skref.

 

6. Samningur um yfirfærslu eldri brúar yfir Stóru- Laxá

 

​​​Þann 13. júlí 2023 var ný vegbrú yfir Stóru-Laxá formlega tekin í notkun. Á meðan á framkvæmdunum stóð hófust viðræður á milli Vegagerðarinnar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Hrunamannahrepps um mögulegt nýtt hlutverk eldri brúar yfir Stóru-Laxá. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tók erindið fyrir á fundi sínum þann 21. apríl 2021 og gerði sveitarfélagið ekki athugasemd við þá hugmynd að eldri brú yrði notuð sem reiðbrú. Með framlögðum samningi er gengið frá endanlegri yfirfærslu gömlu brúarinnar yfir Stóru-Laxá til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Hrunamannahrepps. Brúin er því orðin hluti af stígakerfi sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með 5 atkvæðum framlagðan samning.

 

7. Milliþinganefndir fyrir ársþing SASS

​Stjórn SASS hefur ákveðið að hafa milliþinganefndir að störfum fyrir komandi ársþing samtakanna á Hótel Örk í Hveragerði 31. október til 1. nóvember nk. Samkvæmt ákvörðun stjórnar SASS geta kjörnir fulltrúar (aðalmenn) í bæjar- eða sveitarstjórn skráð sig í nefndirnar.

Minnisblað milliþinganefnda lagt fram til kynningar

 

8. Umsagnarbeiðni Umhverfisstofnunar v. borholna Rauðukamba

Umhverfisstofnun óskar eftir umsögn Loftslags- og Umhverfisnefndar um fyrirhugaðar boranir Rauðukamba við Fjallaböðin í Þjórsárdal.

Fyrirhugaðar framkvæmdir v/borholna Rauðukamba eru í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í matsskyldufyrirspurn sem fram fór árið 2023 var fjallað um fyrirhugaðir boranir og talið að áhrif borunarinnar og dælingar á heitu vatni talin hafa óveruleg áhrif á vatnsbúskap svæðisins. Niðurstaða Skipulagsstofnunar á matsskyldufyrirspurninni var að framkvæmdirnar væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur nú þegar veitt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum og telur því ekki þörf að vísa málinu til umfjöllunar í Loftslags- og Umhverfisnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

Axel Á. Njarðvík sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

9. Minnisblað frá sveitarstjórn Hrunamannahrepps um skipulagsnefnd

Lagt fram til kynningar minnisblað frá sveitarstjórn Hrunamannahrepps er varðar skipulagsnefnd UTU bs. sem er sameiginleg skipulagsnefnd sveitarfélaganna í Uppsveitum, Flóa og Ásahreppi.

Gunnar Örn Marteinsson lagði fram eftirfarandi bókun:

 

Það er gott framtak hjá Hrunamannahreppi að fá Guðjón Bragason til að gera þessa samantekt sem mér finnst vel unnin. Hef lengi verið þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem lengi hefur verið viðhaft á starfssvæði UTU að það sé sameiginleg skipulagsnefnd fyrir öll sveitarfélögin sé afskaplega óeðlileg. Skipulagsmál eru eitt af mikilvægustu málaflokkum hvers sveitarfélags og því er eðlilegt að sveitarstjórnir hvers sveitarfélags fyrir sig skipi sínar skipulagsnefndir. Ég skora á sveitarstjórnir á starfssvæði UTU að leggja niður skipulagsnefndina í þeirri mynd sem hún er núna og þess í stað sé hvert sveitarfélag fyrir sig með sínar nefndir.

 

10. Minnisblað um gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Lagt fram minnisblað um gjaldfrjálsar skólamáltíðir ásamt viðauka sem tiltekur þau fjárframlög sem renna til sveitarfélaga til að standa undir kostnaði við gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Fyrir liggur að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að veita gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

 

11. ​Minnisblað með uppfærðum forsendum fjárhagsáætlana - júlí 2024

Lagt fram minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um nýja spá Hagstofu Íslands og forsendum sem hægt er að styðjast við í fyrirliggjandi vinnu fjárhagsáætlana.

 

12. Skil á lóð í Brautarholti

​Birna Þorsteinsdóttir og Rúnar Þór Bjarnason hafa óskað eftir að skila lóðinni að Vallarbraut 21 í Brautarholti.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að lóðinni sé skilað og felur sveitarstjóra að auglýsa lóðina aftur til úthlutunar.


13. Fundargerð 284. fundar skipulagsnefndar

Vorsabær 1 lóð L192936; Fjórar smábýlalóðir; Deiliskipulag - 2406070

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til landskika úr lendum Vorsabæjar 1 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Stærð skipulagssvæðisins er um 18 hektarar. Svæðið liggur vestan við bæjartorfu Vorsabæjar og afmarkast að norðanverðu af Fjallsvegi. Aðliggjandi eru skikar úr lendum Vorsabæjar 1 og 2. Á skikanum eru afmarkaðar fjórar smábýlalóðir þar sem heimilt verður að stofna lögbýli, byggja upp bæjartorfu og stunda hvern þann búskap sem heimilt er á landbúnaðarlandi samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

 

Rauðukambar L234185 í Þjórsárdal; 3 borholur; Framkvæmdarleyfi - 2407008

Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi frá Rauðukömbum ehf. þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi skv. reglugerð nr. 772/2012 fyrir alls 3 borholum. Óskað er eftir leyfi til að bora eina kaldavatnsholu sem varavatnsból, eina volga holu sem einnig er til vara til að tryggja rekstraröryggi. Einnig er óskað eftir heimild til að bora eina niðurdælingar holu til að viðhalda jarðhitageymnum á svæðinu. Samhliða nýjum borholum verður klárað að ganga frá núverandi holum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að skiplagsfulltrúi gefi út framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um samþykki Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda á friðlýstum svæðum. Leitað verði umsagnar til forsætisráðuneytisins vegna málsins.

 

Axel Á. Njarðvík situr hjá við afgreiðslu málsins.

 

Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Minni-Ólafsvellir; Aðalskipulagsbreyting - 2310031

Lögð er fram breytingartillaga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Aðalskipulagsbreytingin nær yfir hluta Minni-Ólafsvalla L166482. Gert er ráð fyrir að hluta landbúnaðarsvæðis er breytt í íbúðarbyggð og verslunar- og þjónustusvæði. Heimilt er að vera með íbúðarhús og gestahús með gistingu fyrir allt að 70 gesti. Einnig er heimilt að vera með ýmiss konar afþreyingu, einkum tengda hestum. Fyrir er á Minni-Ólafsvöllum íbúðarhús, skemma og geymsluhúsnæði og verður áfram heimiluð föst búseta.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

14. Afgreiðslur byggingarfulltrúa 24-208

Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa lagðar fram til kynningar.

15. Fundargerð 11. fundar hússtjórnar Þjóðveldisbæjarins

Fundargerð lögð fram til kynningar.

16. Fundargerð Vegagerðarinnar vegna samgangna í Uppsveitum

Fundargerð lögð fram til kynningar.

17. Fundargerð 20. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu

Fundargerð lögð fram til kynningar.

18. Fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga nr. 73

Fundargerð lögð fram til kynningar.

19. Fundargerð stjórnar SASS nr. 611

Fundargerð lögð fram til kynningar.

20. Fundargerð 28. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis

Fundargerð lögð fram til kynningar.

21. Fundargerð 7. fundar oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:14. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 21. ágúst kl. 9.00, í Árnesi.