Sveitarstjórn

50. fundur 04. september 2024 kl. 09:00 - 12:35 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Mætt til fundar:

Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.

Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Óskað var eftir því að mál nr. 2 á dagskrá fundar væri skipt upp í tvö mál, annars vegar virkjanaframkvæmdir á Þjórsár- og Tungnasvæðinu og hins vegar málefni um virkjanaleyfi Búrfellslundar. Verða málin annars vegar nr. 2 og hins vegar nr. 3 á dagskrá fundar. Færast önnur mál neðar sem því nemur á dagskrá fundarins.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla oddvita á 50. sveitarstjórnarfundi

Fundur með stjórn og framkvæmdastjórum RARIK.
Fundur með aðilum sem vilja byggja íbúðir í Árnesi.
Fundur með sveitarstjórn Ásahrepps og Rangárþings Ytra.
Fundur með sveitarstjórn Dalabyggðar.
Fundur með sveitarstjórn Reykhólahrepps.
Fundur með sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.
Fundur v/uppgjör skólasamnings.
Minnisblað v/landnotkun innan þjóðlendna.

2. Virkjanaframkvæmdir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu

​Þjórsár- og Tungnaársvæðið er mikilvægasta orkuvinnslusvæði Íslands. Uppsett afl virkjana á svæðinu er um 1.050 MW. Þar af er næstum helmingurinn, eða 505 MW af uppsettu afli, staðsett í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Það er því framleidd orka í sveitarfélaginu sem nægir öllum heimilum og fyrirtækjum í landinu, að stóriðjunni undanskilinni.

Á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu eru mestu virkjanaframkvæmdir Íslands fyrirhugaðar á komandi árum. Nú þegar eru í undirbúningi Hvammsvirkjun og stækkun Sigölduvirkjunar. Jafnframt er fyrirhugað að reisa fyrsta vindorkuverið á Íslandi, Búrfellslund, á þessu sama svæði. Ríkisstjórn Íslands hefur boðað að á komandi haustþingi verði á dagskrá að afgreiða rammaáætlun þar sem til umfjöllunar verða virkjunarkostirnir Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun og Kjalölduveita.

Öll þessi virkjunaráform, sem stefnt er á að hefjist á komandi mánuðum, ásamt fleiri virkjunarkostum á komandi árum, skapa gríðarlega neikvætt inngrip í náttúru svæðisins, enn meiri en nú þegar er orðið. Áhrif virkjunarkostanna á nærumhverfi þeirra verða varanleg, hvort sem litið verður til náttúru, efnahagslegs eða félagslegs nærumhverfis. Við núverandi lagaumgjörð liggur fyrir að allar þessar virkjanir sem fyrirhugaðar eru á svæðinu, munu ekki skila neinum tekjum til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og situr því sveitarfélagið og nærumhverfi þess uppi með öll neikvæðu umhverfisáhrifin og veikara samfélag. Slík staða er óásættanleg.

Í byrjun árs 2023 framkvæmdi KPMG fjárhagslega greiningu á áhrifum af starfsemi Landsvirkjunar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar kom fram að sveitarfélagið hefur mjög takmarkaðan ávinning af þeirri gríðarlegu orkuframleiðslu sem á sér stað innan marka þess og í flestum þeim sviðsmyndum sem dregnar voru fram hefur starfsemin beint fjárhagslegt tap á rekstur Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Vegna núverandi lagaumgjarðar er starfsemi Landsvirkjunar mesti áhættuþáttur í rekstri sveitarfélagsins. Slík staða er óásættanleg.

Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 setja ramma og reglur um stjórnskipulag sveitarfélaga, störf þeirra og ábyrgð. Lögin eiga að tryggja sveitarfélögum nægjanlegt sjálfstæði til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim er falið. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaganna kemur fram að sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna. Það kemur líka fram í 2. mgr. 24. gr. að sveitarstjórnarmönnum beri að gegna starfi sínu af alúð og samviskusemi og að kjörnum fulltrúum beri í hvívetna að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins.

Fram koma í VII. kafla laganna ítarleg ákvæði um fjármál sveitarfélaga. 1. mgr. 64. gr. segir m.a. að sveitarstjórn beri að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Í 1. mgr. 65. gr. kemur fram að sveitarstjórn skuli gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins m.a. við varðveislu þeirra. Sveitarfélög starfa þannig innan ákveðins lagalegs ramma sem tryggir lýðræðislega stjórnsýslu, gagnsæi og ábyrgð gagnvart íbúum þess. Af því leiðir að þegar kemur að umsókn um afgreiðslu leyfa ber sveitarfélaginu að fara að lögum við afgreiðslu slíkrar umsóknar. Niðurstaðan verður að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Mörg mismunandi sjónarmið kunna að koma til skoðunar við afgreiðslu hvers máls sem sveitarfélaginu ber að líta til og þurfa að vega og meta hverju sinni.

Eitt þeirra sjónarmiða sem hlýtur að koma til skoðunar, er hvaða áhrif viðkomandi leyfisveiting hefur á fjárhag sveitarfélagsins eins og kemur fram í ákvæði sveitarstjórnarlaga um fjármál sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmönnum ber að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins þó þeim beri einnig að horfa til almannahagsmuna. Vega og meta þarf tilgreinda hagsmuni með hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki. Áhrif á fjárhag sveitarfélagsins og þar með velferð íbúanna hlýtur alltaf að vega þungt.

Stjórnvöld á Íslandi hafa sett lög sem snúa að orkuvinnslu í landinu. Þar er gengið gegn sjálfstjórnunarrétti sveitarfélaga samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar og þau svipt hluta af lögbundnum tekjustofnum sínum ásamt því að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga þegar kemur að orkumannvirkjum. Það er óásættanlegt.

Að mati sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps ríkir lagaleg óvissa um það hvort sveitarstjórn sé heimilt að skipuleggja og veita leyfi fyrir frekari virkjunarkostum sem takmarka möguleika sveitarfélagsins til uppbyggingar og geta aukið á fjárhagslega áhættu í rekstri sveitarfélagsins í náinni framtíð.

Síðustu tvö ár hefur gríðarlega mikil vinna farið í að finna leiðir til þess að laga núverandi stöðu, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkisins. Þann 8. febrúar 2024 kynnti fjármálaráðherra tillögur sem gætu tryggt efnahagslegan ávinning nærumhverfis sveitarfélaga af orkuvinnslu. Frá þeim tíma hefur málið ekkert þokast áfram og telur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki sé hægt að halda áfram á sömu braut fyrr en ný lög hafa tekið gildi, sem tryggja sveitarfélögum sanngjarnan efnahagslegan ávinning af núverandi virkjunum og þeim virkjunarframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að skora á ríkisstjórn Íslands til að bregðast við strax og standa við gefin loforð frá 8. febrúar 2024 um nýja skattalega umgjörð um orkuvinnslu á Íslandi. Að fram verði lagt frumvarp þess efnis til Alþingis og samþykkt á komandi haustþingi. Slík samþykkt lög er forsenda fyrir frekari uppbyggingu orkumannvirkja í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

 

 

Gunnar Örn Marteinsson situr hjá afgreiðslu málsins og leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég er sammála því að þörf sé á að endurskoða skattlagningu orkumannvirkja með það að markmiði að meira komi í hlut þeirra samfélaga sem næst þeim standa. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru nokkrir virkjanna kostir  til umfjöllunar, þar er Hvammsvirkjun komin lengst í öllum undirbúningi enda sveitarfélagið búið að veita einu sinni framkvæmdaleyfi sem var afturkallað í framhaldi af því að virkjanaleyfið var fellt úr gildi. Komi til þess að Hvammsvirkjun fái aftur virkjanaleyfi frá Orkustofnun tel ég það aðeins formsatriði hjá sveitarfélaginu að veita framkvæmdaleyfi.

 

3. Búrfellslundur- virkjanaleyfi

Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi Búrfellslundar síðastliðin tólf ár. Hann er fyrsta vindorkuverið sem á að rísa á Íslandi. Þessi virkjunarkostur kom fyrst til afgreiðslu Verkefnastjórnunar Rammaáætlunar árið 2015. Þá lagði verkefnastjórnin til að virkjunarkosturinn yrði settur í biðflokk. Búrfellslundur kom aftur til afgreiðslu Verkefnastjórnunar Rammaáætlunar fimm árum síðar, þá í minni útfærslu þar sem vindmyllurnar yrðu einungis staðsettar í Rangárþingi Ytra, en á sveitarfélagamörkum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásahrepps. Aftur lagði verkefnastjórn Rammaáætlunar til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk sökum vægi ferðaþjónustu og útivistar og áhrifa vindorkugarðsins á þá þætti.

Í júní árið 2022 tók Alþingi þá ákvörðun að setja Búrfellslund í nýtingarflokk, þvert á ráðgjöf Verkefnastjórnunar Rammaáætlunar. Ári síðar, eða í júní 2023, fór sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fram á frestun á því að innleiða Búrfellslund í skipulag í samræmi við 2. m.gr. 7. gr. laga um Rammaáætlun. Landsvirkjun hefur talið að það þurfi ekki að sækja um breytingar á skipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna Búrfellslundar, þar sem vindmyllurnar verða staðsettar í Rangárþingi Ytra. Þrátt fyrir það kemur skýrt fram, bæði í umhverfismatinu sem unnið var í hönnunarferli vindorkuversins og í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdasvæðið sé bæði í Rangárþingi Ytra og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ljóst er að Búrfellslundur takmarkar landnýtingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, vegna nálægðar við sveitarfélagið. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur mótmælt fyrirhuguðum Búrfellslundi á öllum stigum skipulagsferlisins og við fyrirhugaða veitingu Orkustofnunar á virkjunarleyfi vindorkuversins.

Sú staðreynd sem uppi er, að sveitarfélög geti sett í skipulag sitt vindorkuver á sveitarfélagamörkum sínum án samráðs við aðliggjandi sveitarfélög er aðför að skipulagsvaldi þeirra og takmarkar landnotkun á því svæði sem næst eru vindorkuverunum. Slík vinnubrögð eru óásættanleg og gríðarlega hættulegt fordæmi í komandi uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi.

Stjórnvöld á Íslandi hafa boðað stefnumörkun um vindorkuver á landinu þar sem fram kemur að ekki eigi að byggja vindorkuver innan miðhálendislínunnar. Staðsetning Búrfellslundar stríðir gegn þessari stefnumörkun þar sem hann er innan miðhálendislínunnar, við hliðina á Þjórsárdal þar sem er stærsta friðlýsing menningarminja, náttúru- og menningarlandslags á Íslandi. Vindorkuverið er jafnframt í nágrenni við gríðarlega uppbyggingu í ferðaþjónustu í Þjórsárdal.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að fela oddvita í samráði við lögmenn sveitarfélagsins að kæra virkjunarleyfi sem Orkustofnun hefur gefið út fyrir Búrfellslund til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

Gunnar Örn Marteinsson situr hjá við afgreiðslu málsins.

 

4. Áform vegna vindorkuvers í landi Skáldabúða - erindi frá ábúendum nágrannajarða

​Inná fundinn komu Sigurður Loftsson, Atli Eggertsson, Bjarni Másson, Hörður Fossberg Harðarson og Björgvin Harðarson, til þess að ræða fyrirhuguð áform um byggingu vindorkuvers, Hrútmúlavirkjunar, í landi Skáldabúða. Gagnrýna þau m.a. verklag fyrri sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, verkefnastjórnar Rammaáætlunar við upplýsingaöflun og að sama skapi verklag sem viðhaft hefur verið við undirbúning virkjunarhugmyndarinnar af hálfu eiganda. Hrútmúlavirkjun er í umfjöllun Verkefnastjórnunar Rammaáætlunar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir erindið. Að mati sveitarstjórnar er núverandi staða í orkumálum, þá sérstaklega þegar kemur að vindorkuverum, í farvegi sem ekki sé í sátt við nærumhverfið. Að mati sveitarstjórnar skal uppbygging vindorkuvera ávallt vera unnin á forsendum nærsamfélagsins.

 

5. Val á tilboðum í Aðkomuveg, púða og plan fyrir íþróttamiðstöð

Fimmtudaginn 22. ágúst voru opnuð tilboð í aðkomuveg, púða og plan fyrri íþróttamiðstöð í Árnesi. Kostnaðaráætlun fyrir verkið var upp á 28.737.000 kr. og bárust sex tilboð. Hæsta tilboðið var að upphæð 58.186.040 kr. eða 202,5% af kostnaðaráætlun og lægsta tilboðið var upp á 25.856.770 kr. 89,9% af kostnaðaráætlun. Lægsta tilboðið kom frá Ólafsvöllum ehf. og eftir yfirferð tilboða uppfyllir lægst bjóðandi kröfur er settar voru fram á hendur tilboðsgjöfum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að taka tilboði Ólafsvalla ehf. og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi um verkið.

 

6. Beiðni um lausn frá störfum sveitarstjórnar

​​​Lagt fram bréf frá Karen Óskarsdóttur þar sem hún óskar eftir lausn frá störfum sem sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem og nefndum og ráðum tengdum því.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að leysa Karen Óskarsdóttur frá störfum sem sveitarstjórnarfulltrúi. Í samræmi við 21. gr. sveitarstjórnarlaga tekur fulltrúi nr. 2 á U-listanum, Gerður Stefánsdóttir því við sæti aðal fulltrúa fyrir hönd U-listans í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

Sveitarstjórn þakkar Karen Óskarsdóttur kærlega fyrir gott samstarf í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

7. Tilkynning um kæru nr. 90/2024

​​​Borist hefur kæra til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá Náttúrugrið er varðar efnistöku í Búrfellshólmsnámu. Landslög hefur svarað kærunni fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.

 

8. Ósk um leyfi fyrir listgjörning á fjöllum

Lagt fram erindi frá Hrafnkel Tuma myndlistarmanni þar sem óskað er eftir leyfi til framkvæmdar á gjörningi þar sem aðilar senda merki með blysi á fimm stöðum á Suðurlandi, þar með talið Búrfelli og Arnarfelli.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemd við fyrirhugaðan listgjörning, með fyrirvara um að fyrir liggi leyfi frá lögreglu og annarra viðbragðsaðila.

 

9. Vegur í Þjórsárdal - girðing

Sumarið 2023 var lögð ný girðing um Þjórsárdal til að starfsemi Fjallabaðanna og umferð milli Fjallabaða og Gestastofu væri ekki innan afréttar. Girðingin var skipulögð í samráði Lands og Skóga og afréttamálanefndar Gnúpverja og kostuð af Rauðukömbum ehf., samtal u.þ.b. 10 km. Hluti af girðingunni, á um 300 metra kafla, lá sunnar en hún ætti að gera samkvæmt hnitsetningu og fór inn fyrir friðlýsta svæðið í Þjórsárdal. Eftir samtal Lands og Skóga og Umhverfisstofnunnar þann 23. ágúst var lagt til að halda girðingunni óbreyttri en færa vegstæðið út fyrir girðinguna. Fyrir liggur samþykki fyrir breytingunni frá Land og skógum, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og Náttúrufræðistofnun og óska Rauðukambar ehf. eftir að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki slíka breytingu á áður útgefnu framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum fyrirhugaða breytingu á veglínunni út fyrir girðinguna samkvæmt framlögðum teikningum.

 

10. Fundargerð 286. fundar skipulagsnefndar

Minni-Núpur 166583; Staðfesting á afmörkun jarðar - 2408039

Lögð er fram merkjalýsing sem tekur til afmörkunar jarðarinnar Minni-Núps L166583 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við framlagða merkjalýsingu og samþykkir hana á grundvelli reglugerða um merki fasteigna nr. 160/2024 með fyrirvara um samþykki landeigenda viðkomandi merkja.

 

Skógarlundur L236998; Skógræktarsvæði; Verslunar- og þjónustustarfsemi; Aðalskipulagsbreyting - 2312032

Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Í breytingunni felst að skógaræktarsvæði er breytt í verslunar- og þjónustusvæði.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Sandártunga; Skilgreining efnistökusvæðis; Aðalskipulagsbreyting - 2401008

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar er varðar breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Í breytingunni felst að skilgreint verður nýtt efnistökusvæði í Sandártungu í Þjórsárdal. Efni úr námunni verður einkum nýtt í fyrirhugaða færslu á hluta Þjórsárdalsvegar. Bæði er þörf á efni í veginn og einnig grjót í grjótvörn utan á hann. Hluti efnis verður nýttur í nýjan Búðaveg og eftir atvikum í aðrar framkvæmdir í sveitarfélaginu. Heimilað verður að taka allt að 200.000 m3 af efni á u.þ.b. 4 ha svæði.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna skilgreiningar á efnistökusvæði í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

Axel Á. Njarðvík situr hjá við afgreiðslu málsins.

Stóra-Hof 1 L166601; Breyting lóða og stærðir; Deiliskipulagsbreyting - 2406010

Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til lóða við Hrútalág og Hofskots 10 innan frístundasvæðisins byggiðn í landi Stóra-Hofs. Í breytingunni felst breytt lega lóða við Hrútalág eftir uppmælingu á staðnum auk stækkunar á lóð og byggingarreit lóðar Hofskots 10. Athugasemd barst við tillöguna frá lóðarhafa Hrútalágar 3 innan og er hún lögð fram við afgreiðslu málsins ásamt mótsvörum vinnsluaðila skipulagsbreytingarinnar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu eftir kynningu. Samkvæmt upplýsingum frá málsaðila voru lóðarmörk mæld upp á staðnum í samráði við lóðarleigutaka og byggir tillagan á þeim mælingum. Nánari útfærsla á lóðarmörkum innan svæðisins er á höndum landeigenda með útgáfu uppfærðra merkjalýsinga í samræmi við hið breytta deiliskipulag. Breytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Hjálmholt og Áshildarmýri; Vatnsból og Vatnsverndarsvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2406076

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til nýs vatnsverndarsvæði í Áshildarmýri. Vatnsbólið sem vatnsverndarsvæðið tekur til er í Flóahreppi og er lögð fram sambærileg tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna skilgreiningar á vatnsbóli innan Flóahrepps.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Háifoss og Granni; Áningarstaður ferðamanna; Deiliskipulag - 2403048

Lögð er fram eftir auglýsingu tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til áningarstaðar við Háafoss, innst í Þjórsárdal, á Gnúpverjaafrétti. Háifoss og Granni eru á náttúruminjaskrá sem friðlýst náttúruvætti. Stærð skipulagssvæðisins er um 23,5 hektarar. Markmið með gerð deiliskipulags er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu á innviðum s.s. bílastæða, göngustíga, útsýnissvæða og byggingarreits fyrir þjónustuhús. Umsagnir bárust við auglýsingu tillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu hennar ásamt uppfærðum gögnum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

 

11. Fundargerð stjórnar UTU nr. 113.

 

Farið var yfir fundargerð stjórnar UTU. Tekinn var fyrir liður 1 í fundargerðinni, minnisblað frá Hrunamannahreppi.

Aðildarsveitarfélög Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs eru sex talsins. UTU starfrækir skipulags og byggingarmál fyrir öll aðildarsveitarfélögin. Innan UTU er starfrækt sameiginleg skipulagsnefnd þar sem hvert sveitarfélag á einn fulltrúa. Að mati meirihluta sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps er fyrirkomulag skipulagsnefndarinnar einn mikilvægasti þátturinn í rekstri embættisins. Með slíku fyrirkomulagi myndast mun breiðari vettvangur í skipulagsmálum þar sem mismunandi áskoranir sveitarfélaga koma fram í sameiginlegri skipulagsnefnd sem spannar Uppsveitirnar, Flóahrepp og Ásahrepp. Í núverandi fyrirkomulagi er skipulagsnefndin einungis ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir þar sem engu valdi hefur verið framvísað til nefndarinnar og að mati meirihluta sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps ríkir ekki lýðræðishalli á núverandi fyrirkomulagi. Allir kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn, bæði aðalmenn og varamenn hafa fullan aðgang að öllum gögnum í gegnum gátt UTU. Skipulagsnefndin í þessu formi skapar því mun dýpri og breiðari umræðu um skipulagsmálin og myndar þekkingu á skipulagsmálum á svæðinu í heild. Það er svo hlutverk hvers fulltrúa í skipulagsnefndinni að fjalla um málin í sinni sveitarstjórn. Séu mál viðamikil er ávallt hægt að fá skipulagsfulltrúa inn á fund sveitarstjórnar við afgreiðslu mála.

Stefnumörkun í skipulagsmálum sveitarfélaga fer fram í gegnum aðalskipulag hvers sveitarfélags og leggur grunninn að afgreiðslu mála í skipulagsnefnd. Endanlegt vald liggur ávallt í sveitarstjórn hvers aðildarsveitarfélags.

Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur að núverandi fyrirkomulag sé til fyrirmyndar og er ekki hlynnt breytingum sem heimila einstökum aðildarsveitarfélögum að starfrækja eigin skipulagsnefnd, en með því móti yrði ekki lengur miðlað þeim mikilvægu upplýsingum í skipulagsmálum sem myndast á grundvelli núverandi fyrirkomulags.

 

Gunnar Örn Marteinsson situr hjá og leggur fram eftirfarandi bókun:

Vegna beiðni Hrunamannahrepps um að breyta samþykktum UTU á þann veg að aðildarsveitarfélöginn geti verið með sína eigin skipulagsnefnd þá sé ég ekki nein rök sem mæla gegn því enda get ég ekki séð að það breyti neinu fyrir önnur sveitarfélög sem eru aðilar að UTU.

 

Fundargerð stjórnar UTU er að öðru leyti lögð fram til kynningar.

 

​12. Fundargerð 7. fundar Oddvitanefndar Uppsveita Árnessýslu

Fundargerð lögð fram til kynningar.

13. Fundargerð stjórnar SASS nr. 612

Fundargerð lögð fram til kynningar.

14. Fundargerð stjórnar Arnardrangans nr. 15.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

15. Fundargerð 237. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

16. Fundargerð stjórnar Bergrisans nr. 75.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

17. Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga nr. 12.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:35. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 18. september, kl. 9.00, í Árnesi.

 

Fundargerð undirrituð rafrænt.