Uppbygging íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu
Það er sannarlega líflegt um þessar mundir hvað varðar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Senn verða tilbúnar þrjár glæsilegar íbúðir að Bugðugerði 3 í Árneshverfi. Það eru Selásbyggingar ehf sem annast þá framkvæmd. Í sömu götu nr 9. hefur Byggingafélagið Þrándarholt sf tekið grunn að þriggja íbúða raðhúsi sem mun rísa á næstunni. Við Holtabraut 18-20 í Brautarholtshverfi er Tré og straumur ehf að reisa parhús og eru áform um að byggja annað parhús við sömu götu innan skamms. Að sögn þeirra sem að byggingunum standa, er verulegur áhugi fyrir kaupum á íbúðunum sem eru að rísa. Fyrir utan þær framkvæmdir sem hér er getið, eru fleiri byggingahugmyndir á teikniborðum byggingaverktaka og hefur nokkrum lóðum til viðbótar verið úthlutað í hverfunum.