Eftir samráð við umhverfisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni gefa almannavarnir út eftirfarandi leiðbeiningar:
Flugeldasýningar:
• Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1233/2020 er ekki heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum, svo sem tónleikum, dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að
sér hóp fólks eftir kl. 21.00.
• Flugeldasýningar eru ekki tilteknar í ákvæðinu og má sjá fyrir sér mismunandi aðstæður eftir fólksfjölda á hverju svæði og hvort ætla megi að viðburðurinn dragi að sér hóp fólks eftir kl. 21.00.
• Heilbrigðiseftirlit þurfa að ítreka sóttvarnir og fjöldatakmörkun sem eru í gildi skv. núgildandi reglugerð.
• Flugeldasýningar eru starfsleyfisskyldar samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 66/2020. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita umrædd starfsleyfi. Auglýsingatími starfsleyfistillagna eru fjórar vikur. Einhverjir ætla að halda flugeldasýningar um komandi áramót og hafa ekki sótt um starfsleyfi í tæka tíð og geta því ekki haldið sýningar nema að sækja um og fá undanþágu frá starfsleyfi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
• Hægt er að skjóta flugeldum frá sjó eða ofan af fjalli og um leið hvetja almenning til að njóta úr glugga húsnæðis eða með því að sitja út í bíl.
• Rétt er að í fylgiskjali með hverri umsókn um flugeldasýningu fylgi upplýsingar um með hvaða hætti skuli forðast hópamyndun á meðan flugeldasýning varir.
• Þeir aðilar sem koma að framkvæmd flugeldasýningar verða að gæta eigin sóttvarna til hins ítrasta.
Flugeldasala:
• Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1223/2020 er verslunum heimilt að taka við fimm viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 100 viðskiptavinum í rými að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 4. gr. þ.e. að unnt sé að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun milli einstaklinga, ella nota grímu ef ekki er unnt að tryggja bilið.
• Þá er heimilt að hafa allt að 10 starfsmenn í sama rými í verslunum að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 4. gr. þ.e. að unnt sé að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun milli einstaklinga, ella nota grímu ef ekki er unnt að tryggja bilið.
• Mælst er til að viðskiptavinum sé gert að bera grímu inni í verslunum.