Vissir þú að, ekki má henda.....
Vissir þú að: Ekki má henda: tannþræði, lyfjum, blautþurrkum, smokkum, dömubindum, tyggjói, hári, bleyjum, gullfiskum, kreditkortum, leikföngum eða öðru rusli í klósettið. Í Uppsveitum Árnessýslu er rotþró við hvert hús eða hús tengd skolpkerfi sem svo tengist við hreinsistöð sem safnar seyrunni. Sorpið sem fer í klósettið fer sömu leið og safnast þar saman og fer síðan beina leið í skólphreinsibílana sem safna saman seyrunni. Sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu hafa sameinast um að nýta seyruna sem safnast saman til uppgræðslu á afgirtum afrétti, en þetta er gert í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og hefur þegar gefið góða raun. Vandinn við þetta er allt sorpið sem berst með og sérstaklega blautþurrkurnar sem notaðar eru til þrifa og ýmissa annarra verka. Aðeins næst að hreinsa hluta af þessu rusli frá seyrunni og fer því hluti af ruslinu alla leið í gegn. Vegna þessa má líkja því að henda sorpi í klósettið við það að henda því á víðavangi!! Með kveðju. Tæknisvið Uppsveita Árnessýslu.