Kveðjuhóf til heiðurs Gylfa og Pétri 12. jan. í Aratungu kl.19:00

Læknarnir í Uppsveitum Árnessýslu til meira en 30 ára, þeir Gylfi Haraldsson og Pétur Skarphéðinsson hafa nú látið af störfum. Þeir hafa verið einstaklega farsælir í sínum störfum og hlúð að heilsufari íbúanna með miklum sóma. Það má því ekki minna vera en þeir verði heiðraðir með kveðjuhófi. Hófið verður haldið fimmtudaginn 12 janúar nk. í Aratungu með fjölbreyttri dagskrá og kaffiveitingum og hefst það kl 19:00. Veislustjóri verður Halldór Páll Halldórsson rektor Menntaskólans á Laugarvatni. Við vonumst til að íbúar í læknishéraðinu sjái sér fært að mæta.

Lögreglustjóri með fríðu föruneyti

Sjálfur Lögreglustjórinn á Suðurlandi Kjartan Þorkelsson heimsótti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps  miðvikudaginn 4 janúar. Með honum í för var Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi og Víðir Reynisson verkefnastjóri í Almannavörnum á Suðurlandi. Þeir félagar munu sækja allar sveitarstjórnir á Suðurlandi í á yfirstandandi vetri. Þeir greindu frá helstu verkefnum. Meðal annars  var rætt um umferðareftirlit og átak gegn heimilisofbeldi. Komið var inn á skyldur sveitarstjórnarmanna samkvæmt Almannavarnarlögum.

Gleðilegt ár allir Íslendingar

 Sveitarstjórn og starfsfólk skrifstofu Skeiða - og Gnúpverjahrepps færir íbúum Skeiða - og Gnúpverjahrepps og Íslendingum öllum til sjávar og sveita bestu óskir um farsæld á árinu 2017.  Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem var að kveðja.

Allt bendir til að  árið 2017 verði okkur gott.